Stöðuleyfi
Ef eftirfarandi lausafjármunir standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð til þess, skal sækja um stöðuleyfi:
Hjólhýsi á tímabilinu frá 1. október til 1. maí; gámar; bátar; torgsöluhús; frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings; stór samkomutjöld.
Gámar:
Í 36. tölulið 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er hugtakið gámur skilgreint sem „staðlaður geymir fyrir vöruflutninga á sjó og landi“. Svokölluð gámahús falla því ekki hér undir. Þau geta talist mannvirki og þar af leiðandi byggingarleyfisskyld, nema þau falli undir undanþáguákvæði g. eða i. liðar 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar (smáhýsi eða lítil hús á lóð) en þá þarf hvorki byggingar‐ né stöðuleyfi fyrir þeim. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki sem falla undir framangreinda skilgreiningu eru almennt byggingarleyfisskyld samanber 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Einstök mannvirki geta þó verið undanþegin slíku leyfi samkvæmt ákvæðum 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar.
Tímabil stöðuleyfis
Krafan um stöðuleyfi takmarkast við að ofangreindir lausafjármunir standi lengur en tvo mánuði á sama stað utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.
Skipulögð svæði
Sækja þarf um stöðuleyfi ef ofangreindir lausafjármunir standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Ekki þarf að sækja um stöðuleyfi t.d. fyrir gáma á skipulögðum gámasvæðum eða bátum á hafnarsvæðum. Með skipulögðu svæði er átt við að gerð sé grein fyrir landnotkun í skipulagsáætlun sveitarfélagsins, það er aðal‐ eða deiliskipulagi. Stundum eru skipulagsáætlanir ekki það ítarlegar að þær fjalli sérstaklega um geymslu lausafjármuna af þessu tagi, en geymslan telst engu að síður samræmast þeirri landnotkun sem skipulagið kveður á um. Sé til að mynda gerð grein fyrir geymslusvæðum fyrir gáma á lóð skv. lóðaruppdrætti mannvirkis, sem hefur verið samþykktur og talinn er samræmast gildandi skipulagsáætlunum, verður að túlka 1. málsgr. 2.6.1. gr. byggingareglugerð svo að svæðið teljist vera sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma. Sem dæmi má nefna að oft standa gámar á iðnaðarlóðum og eru nauðsynlegur þáttur í þeirri starfsemi sem þar fer fram. Telja verður eðlilegt að ekki þurfi að sækja um stöðuleyfi vegna slíkra gáma ef búið er að gera grein fyrir geymslusvæði gáma á uppdrætti iðnaðarlóðar sem fengið hefur samþykki viðkomandi sveitarfélags.
Öryggi
Lausafjármuni skal staðsetja þannig að almenningi stafi ekki hætta af og ekki sé hætta á að eldur geti borist frá þeim í aðliggjandi hús. Enn fremur skal þess gætt að aðgengi slökkviliðs að aðliggjandi húsum sé ekki torveldað. Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og er leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi. Handhafi stöðuleyfis er ábyrgur fyrir því að hreinlætisaðstaða í og við lausafjármuni sem falla undir 6.2.1. gr. byggingareglugerðar uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr.9/2009 og laga nr. 46/1980, reglugerð nr. 433/1977 og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eftir því sem við á hverju sinni.
Umsókn um stöðuleyfi
Hægt er að sækja um stöðuleyfi í gegnum Íbúagátt. Í umsókninni skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Umsókninni skulu fylgja:
- Samþykki eiganda eða lóðarhafa.
- Uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu,útlit og gerð, fyrirkomulag.
- Vottun eða önnur gögn sem staðfesti öryggi.