Deiliskipulag hafnarsvæðisins við Ósland - niðurstaða bæjarstjórnar
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti þann 10. maí 2023 deiliskipulag hafnarsvæðisins við Ósland í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagið er heildarendurskoðun á gildandi deiliskipulagi frá 2015 sem mun falla úr gildi við gildistöku nýs skipulags.
Markmið deiliskipulagsins er að tryggja skilvirka nýtingu, snyrtilegan frágang og markvissa uppbyggingu á hafnarsvæðinu.
Athugasemdir og umsagnir bárust sem gáfu tilefni til breytinga á skipulaginu eftir auglýsingu. Umsagnir bárust frá Náttúrustofu Suðausturlands, Minjastofnun Íslands og Heilbrigðiseftirliti Austurlands. Eftir umsagnir var uppmældum fornleifum bætt við uppdrátt og umfjöllun um merkar jarðmyndanir bætt við kafla 2.2 landslag, náttúrufar og menningarminjar. Að auki var bætt við skilmála um athafnasvæði 1 er varða afgreiðslustöðvar til olíuafgreiðslu. Aðrar umsagnir og athugasemdir leiddu ekki til breytinga á tillögunni..
Deiliskipulagið hefur verið sent til Skipulagsstofnunar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og mun taka gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Hægt er að kæra samþykkt bæjarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.
Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillöguna og niðurstöðu bæjarstjórnar geta snúið sér til umhverfis- og skipulagsstjóra sveitarfélagsins.
Umhverfis- og skipulagsstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar