Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Ungmennaráð Hornafjarðar - 101

Haldinn í ráðhúsi,
07.04.2025 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Stefán Birgir Bjarnason ,
Dagmar Lilja Óskarsdóttir ,
Selma Ýr Ívarsdóttir ,
Adam Bjarni Jónsson ,
Sindri Sigurjón Einarsson ,
Sigurður Gunnlaugsson ,
Emilía Alís Karlsdóttir ,
Emil Örn Moravek Jóhannsson .
Fundargerð ritaði: Emil Morávek, verkefnistjóri á fræðslu- og frístundasviði


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 202211033 - Ungmennaráð sameiginlegur fundur með bæjaráði
Ungmennaráð Hornafjarðar fundaði nýverið með bæjarráði og kynnti þar hugmyndir sínar um að þróa Nýheima sem samfélagsmiðstöð fyrir ungt fólk, menntun, menningu og atvinnulíf. Formaður bæjarráðs upplýsti um væntanlegan fund sinn með ráðuneyti vegna eignarhalds Nýheima. Í kjölfarið óskaði ungmennaráð eftir frekari samtali um framtíðarsýn, áskoranir og tækifæri tengd Nýheimum og framhaldsskólanum á Höfn.

Eyrún Fríða, formaður bæjarráðs, átti fund með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins þar sem rætt var um eignarhald og samninga vegna húsnæðis Nýheima. Um er að ræða flókna stöðu þar sem húsið er sameign sveitarfélagsins og ríkisins. Slíkt eignarhald er sjaldgæft í framhaldsskólum og krefst því aðkomu eignaumsýslu ríkisins.
Rætt var um möguleika á skýru samstarfi milli sveitarfélags, ríkis og stjórnar framhaldsskólans til að efla Nýheima sem samfélagsmiðstöð. Með því gæti sveitarfélagið tekið þátt í uppbyggingu svæða eins og Nýtorgs og fyrirlestrarsals í þágu náms, vinnu, menningar og samfélagsins alls. Ríkið á stóran hluta húsnæðisins, þar á meðal fyrirlestrarsal, Nýtorg og skrifstofur Háskóla Íslands.
Þótt sveitarfélagið hafi ekki afskipti af rekstri framhaldsskólans getur það stutt við ungmenni með því að efla félagslíf og skapa aðlaðandi umhverfi í kringum skólann. Rödd ungmennaráðsins er þar mikilvæg.
Ungmennaráð Hornafjarðar hvetur bæjaryfirvöld eindregið til áframhaldandi samtals við ríkið um samstarf og nýtingu húsnæðis í Nýheimum þar sem ráðið sér tækifæri fyrir samfélagið. Ráðið minnir jafnframt á að ríkið ber ábyrgð gagnvart sveitarfélaginu og mikilvægt sé að traust og virkt samtal sé á milli aðila.
Ráðið telur brýnt að finna lausnir sem styðja við ungt fólk og nýta rýmið á hagkvæman en jafnframt líflegan hátt með t.a.m. bíó og kaffihús í huga.
Ungmennaráð lýsir einnig áhyggjum af brottfalli úr framhaldsskóla og því að sífellt fleiri kjósi nám annars staðar. Þetta hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Ráðið leggur áherslu á að ungt fólk hafi aðstöðu og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og minnir á að samfélag án krakka á framhaldsskólaaldri sé mun fátækara samfélag.
Að þessu samtali loknu var haldið áfram að ræða um gang mála á hinum og þessum stöðum í sveitarfélaginu og var meðal annars rætt um uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Ungmennaráðið óskar eftir því að fá frekari kynningu á stöðu mála hvað varðar íþróttamannvirkin á næsta fundi ungmennaráðs ásamt fleiru en næsti fundur verður 5. maí.
 
Gestir
Eyrún Fríða Árnadóttir
2. 202504014 - Samfélagsmiðstöð
Á undanförnum árum hefur oft komið fram sú umræða að Hornafjörður skorti ungmennahús eða samfélagsmiðstöð sem þjónar sérstaklega ungu fólki í sveitarfélaginu. Þörfin hefur verið áréttuð bæði af ungmennum sjálfum og samfélaginu í heild. Sérstaklega hefur verið bent á skort á góðri aðstöðu fyrir ungt fólk í framhaldsnámi sem vill hafa rólegan stað til að læra, vinna að fjarnámi eða sinna störfum sem ekki eru bundin við ákveðna staðsetningu.

Samfélagið á Hornafirði er ríkt af menningu, samheldni og frumkvæði. En hvernig getum við sameinað þessa krafta til að efla þátttöku ungs fólks og skapa rými sem þjónar bæði þeirra þörfum og samfélaginu í heild? Er nægilegt að útvega stað fyrir ungmenni eða þarf samfélagið allt að bjóða ungu fólki aðkomu að samfélaginu á fjölbreyttari hátt?


Ráðið leggur áherslu á að sameina hugmyndafræði Nýheima og samfélagsmiðstöðvar og vinna markvisst að kynna þá sýn fyrir öllum sem málið varðar.
3. 202503022 - Drög að tillögu um þingsályktun - Stefna um farsæld Barna til ársins 2035
Fræðslu- og frístundarnefnd fór yfir drög að þingsályktunartillögu um stefnu í þágu farsældar barna til ársins 2035. Nefndin óskaði eftir því að ungmennaráð fengi kynningu á tillögunni.

Í tillögunni, sem hér er lögð fram til kynningar, er lögð áhersla á sex meginstoðir:

A. Jafnræði allra barna og fjölskyldna þeirra.
B. Barnvæn nálgun og virk þátttaka barna.
C. Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra.
D. Fræðsla, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir.
E. Framúrskarandi mannauður í þágu barna.
F. Áreiðanleg og heildstæð gögn sem grundvöllur ákvarðanatöku stjórnvalda.

Þessar stoðir heyra allar, að hluta eða öllu leyti, undir verksvið fræðslu- og frístundarnefndar.


Ungmennaráð þakkar Þórgunni Torfadóttur fyrir góða og áhugaverða kynningu.
 
Gestir
Þorgunnur Torfadóttir
4. 202408106 - Ungmennaráð 2024-2025
Tímabilinu fer að ljúka og aðeins tveir fundir eftir hjá þessu ungmennaráði og því tímabært að greina stöðuna. Hvað hefur gengið vel, hvað hefði mátt fara betur og hvaða árangur er sjáanlegur. Einnig rætt hvernig best sé að nýta þá fundi sem eftir eru til að tryggja að verkefni og áherslur ungs fólks skili sér áfram með skýrum hætti.

Ungmennaráð er ánægt með starfið á liðnu ári. Það er stolt af framlagi sínu til Barnvæns sveitarfélags þar sem það gerði m.a. myndband um ferlið og skipulagði viðurkenningarhátíðina ásamt ýmsu fleira. Það var stór áfangi þegar sveitarfélagið hlaut viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag 4. apríl s.l. og sýnir svart á hvítu að ungmenni geta haft raunveruleg áhrif.

Þó margt hafi verið á óskalistanum sem ekki náðist í gegn að þessu sinni þá er það skýr tilfinning ráðsins að raddir ungmenna hafi fengið meira vægi en áður. Það skiptir máli og það kallar á að ungmennaráð starfi áfram af fullum krafti. Það er mikilvægt að hamra járnið meðan það er heitt og nýta þá orku og trú sem hefur skapast til að klára árið af krafti. Ungmennaráð skorar á sjálft sig og alla í kringum ráðið að nýta síðustu tvo fundina til hins ítrasta. Til að stilla strengi, leggja línur og skilja eftir sig skýr og öflug spor inn í framtíðina og marka farveg fyrir komandi ungmennaráð að starfa eftir.
5. 202503037 - Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag
Föstudaginn 4. apríl hlaut Sveitarfélagið Hornafjörður viðurkenningu frá UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag í kjölfar tæplega 5 ára innleiðingar. Við það tilefni tók ungmennaráð sveitarfélagsins við sérstökum viðurkenningarplatta fyrir hönd sveitarfélagsins. Plattinn er táknrænn og mikilvæg viðurkenning og ætti að vera sýnilegur öllum. Ungmennaráð fékk það hlutverk að finna plattanum stað þar sem hann nýtur sín vel.

Ungmennaráð sammæltist um að viðurkenningarplatti UNICEF um að Sveitarfélagið Hornafjörður sé Barnvænt sveitarfélag færi best á steininum við blómabeðið á miðsvæðinu sem oftast er kallaður gosbrunnurinn.
Verkefnastjóri mun koma því áfram.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00 

Til baka Prenta