Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðslu- og frístundanefnd - 122

Haldinn í ráðhúsi,
20.02.2025 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir 2. varamaður,
Þóra Björg Gísladóttir varaformaður,
Steindór Sigurjónsson aðalmaður,
Kristján Örn Ebenezarson aðalmaður,
Þórgunnur Torfadóttir .
Fundargerð ritaði: Þórgunnur Torfadóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs


Dagskrá: 
Fundargerðir til staðfestingar
2. 2501022F - Ungmennaráð Hornafjarðar - 98
Fundargerð lög fram til umræðu og kynningar.

 
Gestir
Emil Morávek verkefnastjóri á fræðslu- og frístundasviði.
Almenn mál
1. 202412108 - Íþróttavöllur á Hrollaugsstöðum
Kynning á hugmyndum um uppbyggingu á íþróttavelli við Hrollaugsstaði í Suðursveit þar sem hægt yrði að stunda fjölbreytta hreyfingu og íþróttir.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Bjarna Malmquist fyrir áhugaverða kynningu á endurbótum á íþróttasvæðinu við Hrollaugsstaði. Það er jákvætt þegar hugmyndir koma frá fólki í sveitunum sem miða að því að styrkja samfélagið þar ekki síst þegar hugmyndirnar eru bæði heilsueflandi og barnvænar. Nefndin styður þessar hugmyndir og vísar málinu til bæjarráðs.
Fræðslu- og frístundanefnd leggur þó áherslu á að þessi uppbygging dragi ekki úr möguleikum á uppbyggingu húsnæðis í kringum Hrollaugsstaði því veruleg þörf er á húsnæði í sveitinni sér í lagi fyrir starfsfólk sem hefur áhuga á að setjast þar að eða dvelja í lengri tíma.
 
Gestir
Bjarni Malmquist
3. 202303011 - Ungmennaráð - Fræðslu- og frístundanefnd
Fræðslu- og frístundanefnd mætti á fund ungmennaráðs 10. febrúar sl. og til stendur að bæjarráð fari á fund þess í mars.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar ungmennaráði fyrir góðan fund. Ráðið var með áhugaverða kynningu og hvetur fræðslu- og frístundanefnd fleiri nefndir og kannski sérstaklega umhverfis- og skipulagsnefnd til að fá þessa kynningu frá ráðinu. Einnig væri áhugavert fyrir verkefnið Heimahöfn og húsfélag Nýheima að fá a.m.k. hluta kynningarinnar.
4. 202501096 - Ársskýrsla Vöruhúss 2024
Ársskýrsla Vöruhússins lögð fram til kynningar og umræðu.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Sindra fyrir greinagóða skýrslu.
Ársskýrsla 2024 - Fab Lab Hornafjörður.pdf
 
Gestir
Sindri Elvarsson forstöðumaður Vöruhúss
5. 202402073 - Opnunartími sundlaugarinnar
Síðasta árið hefur sundlaugin verið opin til 19.00 á laugardögum og sunnudögum í stað 17.00. Var opnunartíminn lengdur í kjölfar umræðu í ungmennaráði.

Á þriggja mánaða tímabili frá 1. nóv - 31. janúar sl. komu t.a.m. 689 fleiri gestir í sund á miðað við tvö árin þar á undan. Í ljósi góðrar nýtingar á sundlauginni milli 17:00 og 19:00 á laugardögum og sunnudögum leggur fræðslu- og frístundanefnd til að halda þessari opnun og vísar málinu til bæjarráðs. Ekki þarf að ráð aukalega inn vegna lengri opnunar og launakostnaður rúmast innan launaáætlunar.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar fulltrúum ungmennaráðs fyrir góða ábendingu en hugmyndin að lengri opnun um helgar kom frá þeim.
 
Gestir
Gunnar Ingi Valgeirsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar.
6. 202501097 - Styrkir fræðslu- og frístundanefndar 2025
Fræðslu- og frístundanefnd veitir árlega styrki til einstaklinga, félaga og samtaka er vinna að verkefnum sem falla undir fagsvið fræðslu- og frístundanefndar. Heildarfjárhæð styrkja sem nefndin veitir er að þessu sinni 850.000 kr og er heldur hærri en vanalega þar sem ekki voru allir styrkir síðasta árs sóttir.


Sex aðilar sóttu um styrk til fræðslu- og frístundanefndar að upphæð 3.189.383 kr. og veitir nefndin 5 aðilum styrk. Á menningarhátíð í Nýheimum í byrjun mars verður tilkynnt hverjir hljóta styrk.
7. 202410034 - FRIGG
Frigg er samstarfsverkefni Mennta- og barnamálaráðuneytis, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, sveitarfélaga og skóla landsins sem verið hefur í þróun frá því í lok árs 2023. Frigg er miðlægur, stafrænn gagnagrunnur sem heldur utan um alla nemendur landsins. Fyrst í grunnskólum en síðar einnig leik- og framhaldsskólum, allt fram að háskólanámi.
Stefnt er að því að taka Frigg í notkun á vordögum og vorið 2026 mun öll innritun í grunnskóla fara fram í gegnum Frigg á Ísland.is.


Frigg er meginforsenda þess að Matsferill, sem kynntur hefur verið fyrir skólasamfélaginu og foreldrum, nái fram að ganga á þessu ári. Matsferill, sem er safn matstækja, dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda, reglulega yfir skólagönguna. Þeim er ætlað að auðvelda starfsfólki skóla að miða kennslu við þarfir hvers nemanda og koma auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska. Matsferill er því verkfæri sem hjálpar til við þrepaskipta þjónustu eins og farsældarlögin gera ráð fyrir og gert er ráð fyrir í drögum að lögum um skólaþjónustu. Þá mun Frigg tala við þau kerfi sem skólar nota í dag s.s. mentor.
Í dag er skráning gagna um börn innan skólakerfisins, umsýsla upplýsinga, utanumhald og skipulag, unnin að miklu leyti með handvirkum hætti. Gögn um skólavist, námsmat og ýmsar aðrar upplýsingar verða til á víð og dreif milli kerfa og stofnana og eru geymd í ólíku formi á mismunandi stöðum sem tala ekki saman. Það skapar hættu á því að nauðsynlegar upplýsingar um barn fylgi ekki þegar barn flyst á milli skólastiga, milli skóla, sveitarfélaga eða landshluta. Sú hætta er til staðar að samfellan í sögu barnsins týnist og byrja þurfi upp á nýtt.
Um leið og barn hefur verið skráð í gagnagrunn Friggjar er það komið í öruggar hendur á meðan á skólagöngu þess stendur. Þegar forsjáraðilar staðfesta skólavist barns í fyrsta sinn í gegnum Ísland.is eru upplýsingar um nemandann sjálfkrafa skráðar miðlægt í Frigg. Þessum upplýsingum viðhalda eða uppfæra svo forsjáraðilar í hvert sinn sem þeir sækja um þjónustu fyrir barnið svo sem um flutning milli skóla, undanþágu frá skólasókn eða annað sem viðkemur barni þeirra. 
Í kjölfarið þjónustar Frigg svo alla þá sem halda utan um barnið, svo sem umsjónarkennara, skólastjóra og sveitarfélagið, sem einnig skrá viðbótarupplýsingar þar sem það á við - öll gögn um nemandann eru skráð í Frigg og sótt í Frigg.
Ávinningurinn með Frigg er fyrst og fremst sá að í fyrsta sinn verða allar upplýsingar um barnið til á einum stað. Þetta gerir okkur sem samfélagi kleift að halda utan um barnið og koma í veg fyrir að það falli milli skips og bryggju eða hreinlega týnist í kerfinu.
Að auki fylgja Frigg ótal aðrir kostir. Með miðlægri og samræmdri skráningu gagna verður til heildræn yfirsýn yfir stöðu menntakerfisins alls. Þá mun innleiðing á nýjum stafrænum innviðum fyrir menntakerfið stórbæta skilvirkni, gæði og áreiðanleika þess. Í ofanálag mun Frigg innihalda nýtt mælaborð sem birtir gögn í rauntíma um ástand kerfisins, stöðu mála innan hvers sveitarfélags og skóla og síðast en ekki síst hvers barns. Þetta gerir stofnunum, sveitarfélögum, skólastjórum og umsjónarkennurum kleift að taka ákvarðanir á þeirri stundu sem vísbendingar eru um að breytingar séu verða í starfseminni, eða hjá barni og gera úrbætur af öryggi og í samræmi við þarfir hverju sinni.
8. 202501100 - Reglur um niðurgreiðslur til dagforeldra - endurskoðun
Tveggja vikna seinkun hefur orðið á því að nýju deildirnar á leikskólanum verði tilbúnar og er nú stefnt að miðjum apríl. Fljótlega eftir að það og í síðasta lagi næsta haust ættu biðlistar á leikskólann að vera tæmdir svo framarlega sem mönnun á leikskólanum gengur vel. Því er eðlilegt að endurskoða reglur um dagforeldra og niðurgreiðslur til þeirra.

Fræðslu- og frístundanefnd leggur til að halda áfram reglum um niðurgreiðslur til dagforeldra en fella út grein 11 frá og með 1. ágúst. Málinu vísað til bæjarráðs og starfsmanni falið að upplýsa dagforeldri um breytinguna staðfesti bæjarráð hana.
9. 202502015 - Tölur um innflytjendur á leikskólum 2016-2023
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur safnað saman upplýsingum um innflytjendur í hópi starfsmanna á leikskólum og sett þær upplýsingar í samhengi við hlutfall barna sem eru innflytjendur á leikskólum. Um meðaltals upplýsingar er að ræða en horft er til áranna 2016, 2019 og 2023.

Árið 2016 var meðaltal starfsmanna með erlendan uppruna í kringum 10 % á landinu og meðalfjöldi barna af erlendum uppruna í kringum 2%. Árið 2019 voru starfsmenn af erlendum uppruna í kringum 14% og börnin í kringum 3 %. Árið 2023 var fjöldi starfsmanna af erlendum uppruna um 21 % og börn af erlendum uppruna ríflega 5 %. Af þessu má sjá að fjöldi starfsmanna af erlendum uppruna hefur aukist hratt síðustu ár og hlutfall starfsfólk af erlendum uppruna er margfalt á við hlutfall barna.

Eitt af leiðarljósum leikskólastarfs er að nýta þau tækifæri sem gefast í leik og daglegum samskiptum til að efla íslenska málvitund þar sem börn læra ný orð og hugtök og þróa tungumálið. Einnig skal leikskólinn leggja grunn að íslenskunámi barna og veita þeim ríkuleg tækifæri til að efla málfærni sína í daglegu starfi og leik um leið og þar skal líka borin virðing fyrir fjölbreyttum tungumálum og leitað leiða til að styðja við móðurmál og virkt fjöltyngi í leik og starfi. Það er ljóst að þegar að meðaltali fimmtungur starfsfólks er af erlendum uppruna getur það haft áhrif á möguleika til íslenskunáms ekki síst hjá börnum af erlendum uppruna.

Mikilvægt er að setja þessar upplýsingar í samhengi við mönnunarvanda sem er staðreynd á leikskólum. Mikil krafa er um að hafa leikskóla opna á sama tíma og það er líka mikil krafa um að þar starfi sem flestir Íslendingar. Að lokum er þó mikilvægt að halda til haga að það er fjölmargt annað en íslenska sem leikskólinn á að leggja áherslu á en tungumálið er samt sem áður sú samskiptaleið sem við notum mest til kennslu og náms hvað svo sem við tökum okkur fyrir hendur. Þess vegna er lágmarks færni í íslensku mikilvæg fyrir starfsfólk leikskóla.


Til að setja ástandið í Sveitarfélaginu Hornafirði í samhengi við ofangreindar upplýsingar þá er 50% starfsmanna í leikskólanum í Hofgarði af erlendum uppruna og 60% barna. Í leikskólanum Sjónarhóli er 29% starfsmanna af erlendum uppruna og 25% barna. Af þessu má sjá að börn af erlendum uppruna eru um 5 sinnum fleiri í Sveitarfélaginu Hornafirði en að meðaltali á landinu og starfsmenn í leikskólum einnig hlutfallslega fleiri.
Það er mikilvægt fyrir öll sveitarfélög að horfa til þess hvernig þau geti eflt íslenskufærni íbúa af erlendum uppruna en einnig tryggt að leikskólabörn fái næga örvun í íslensku máli í leikskólum. Ljóst er að í Sveitarfélaginu Hornafirði er þetta jafnvel enn mikilvægara í ljósi fleiri einstaklinga af erlendum uppruna.
Það sem er nú þegar gert í sveitarfélaginu;
Fræðslunet Suðurlands býður reglulega upp á námskeið í íslensku fyrir erlenda íbúa og geta þeir fengið námskeiðsgjöld endurgreidd frá stéttarfélögum.
Tvær stærstu stofnanir sveitarfélagsins hafa sett sér tungumálastefnu sem byggir á þeirri hugmyndafræði að samfélagið sé lykillinn að íslenskunni. Þannig á íslenska alltaf að vera fyrsta tungumálið sem er notað og tryggja að starfsfólk (og nemendur) af erlendum uppruna fái næg tækifæri til að þjálfa sig í íslensku.
Sveitarfélagið hefur keypt aðgang að Bara tala appinu fyrir starfsfólk af erlendum uppruna og starfsfólk leikskólans hefur nýtt það mjög vel.
Erlent starfsfólk í leikskólanum tók þátt í íslenskuþorpinu á síðasta skólaári.
Sveitarfélagið hefur mótað sér málstefnu sem m.a. gefur öllu starfsfólki aðgang að orðabókum Snöru á netinu.
Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem sveitarfélagið hefur lagt áherslu á. Eflaust er þó hægt að gera betur og mikilvægt að nýta sem flesta möguleika til að auka tækifæri fólks til að læra íslensku. Í umræðum á fundinum komu fram ýmsar ábendingar svo sem að það væri mikilvægt að halda tungumálastefnum til haga og hvetja sem flesta Hornfirðinga til að vera virkir í að kenna íslensku. Nota íslensku sem fyrsta tungumál, alltaf.
Fræðslu- og frístundanefnd vísar málinu til bæjarráðs til frekari umfjöllunar.
 
Gestir
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Sunna Jónsdóttir fulltrúi foreldra
Anna Birna Elvarsdóttir fjölmenningarfulltrúi sveitarfélagsins
10. 202502009 - Starfshópur um húsnæðismál Grunnskóla Hornafjarðar
Frekari umræða um starfshóp um húsnæðismál Grunnskóla Hornafjarðar


Fræðslu- og frístundanefnd leggur til að myndaður verði starfshópur um húsnæðismál Grunnskóla Hornafjarðar og vísar málinu til bæjarráðs. Nefndin hvetur til þess að hópurinn verði skipaður fulltrúum frá skólanum, af skipulags- og mannvirkjasvið, fræðslusviði og úr pólitíkinni auk þess sem mikilvægt er að hafa náið samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins sbr. reglugerð nr.599/2014 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóðar.

Hlutverk hópsins væri að fara yfir þarfir skólans og búa til áætlun um það hvernig húsnæði skólans ætti að þróast á næstu árum og tryggja að það verði nægt pláss fyrir starfsemina.

11. 202502005 - Sérfræðiþjónusta á fræðslu- og frístundasviði
Fræðslu- og frístundanefnd upplýst um að samningar við sérfræðinga eru núna lausir fyrir liggur vinna við endurnýjun. Farið yfir kostnað og fyrirkomulag.

Þjónusta sérfræðinga hefur verið mjög ásættanlega í sveitarfélaginu Hornafirði síðustu ár og mun betri en víða annarsstaðar sbr. fréttir undanfarna daga.
Samtal er hafið við yfirmenn stoðþjónustu um þjónustuþörf og verður hún nýtt við samningagerð. Starfsmanni falið að vinna áfram að málinu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:45 

Til baka Prenta