Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðslu- og frístundanefnd - 123

Haldinn Miðgarður,
19.03.2025 og hófst hann kl. 15:30
Fundinn sátu: Róslín Alma Valdemarsdóttir formaður,
Þóra Björg Gísladóttir varaformaður,
Steindór Sigurjónsson aðalmaður,
Kristján Örn Ebenezarson aðalmaður,
Gunnhildur Imsland aðalmaður,
Þórgunnur Torfadóttir .
Fundargerð ritaði: Þórgunnur Torfadóttir, sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs


Dagskrá: 
Fundargerðir til staðfestingar
1. 2503007F - Ungmennaráð Hornafjarðar - 100
Fundargerð lög fram.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir fundargerð ungmennaráðs.
Almenn mál
2. 202503012 - Skóladagatöl leik- og grunnskólans í Hofgarði 2025-26
Skóladagatal leik- og grunnskólans í Hofgarði lagt fram.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir framlögð skóladagatöl leik- og grunnskólans í Hofgarði vegna skólaársins 2025-2026.
grunnskoladagatal-2025-2026Hofgardur.pdf
Leikskóladagatal 25-26_Hofgarður.pdf
3. 202307036 - Leikskólinn - starfshópur um leikskólamál
Í tilefni þess að um ár er síðan starfshópur um leikskólamál lauk störfum var gerð stutt könnun meðal deildarstjóra og stjórnenda á leikskólanum. Í könnuninni er leitað eftir skoðunum fólks á vettvangi.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar fyrir greinagóða könnun sem nýtist vel við ákvarðanatöku næstu vikur og misseri. Flestar breytingar sem ráðist hefur verið í hafa skilað ágætum árangri en það er þó mikilvægt að halda áfram að þróa leikskólann því á þar er mikill metnaður til góðra verka.
Á fundinum var ákveðið að vera ekki með verkefnastjóra næsta vetur heldur deila verkefnum niður á fleiri starfsmenn. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það er þörf á fleiri fagmenntuðum starfsmönnum og þeir nýtast betur í vinnu með börnum en í verkefnastjórn. Einnig var ákveðið að fjölga starfsmannafundum á morgnana milli 8 og 9 og hafa einn í hverjum mánuði.
 
Gestir
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Sunna Jónsdóttir fulltrúi foreldra
4. 202503031 - Lengja sumarlokun á Sjónarhóli
Leikskólastjórnendur hafa óskað eftir því að sveitarfélagið skoði það hvort lengja eigi sumarlokunina á leikskólanum. Óskin er sett fram í ljósi þess að starfsmenn eiga eftir 1/3 af sumarorlofi þegar þeir koma úr sumarfríi og að það hefur reynst erfitt að manna leikskólann síðustu daga fyrir sumarfrí. Þá er börnum einnig tekið að fækka verulega á leikskólanum.

Fræðslu- og frístundanefnd skilur að það sé erfitt að skipuleggja sumarfrí starfsmanna þegar óvíst er hve mörg börn verða á leikskólanum en vill þó ekki lengja sumarlokun að sinni. Nefndin hvetur hinsvegar stjórnendur á leikskólanum til að biðja foreldra um að láta vita fyrr hvort þeir ætli að nýta sér skráningardaga að sumri svo skipulagning sumarleyfa verði auðveldari. Fræðslu og frístundanefnd áréttar það með því að breyta reglum um starfsemi leikskóla sjá næsta mál. Einnig telur fræðslu- og frístundanefnd eðlilegt að leikskólinn óski eftir því strax að hausti að foreldrar láti vita hvernig þeir geri ráð fyrir að nýta skráningardaga komandi skólaárs. Það væri mikið hagræði varðandi skipulag í leikskólanum en að sjálfsögðu geta aðstæður breyst og foreldrar hafa því tækifæri til að breyta þegar nær dregur skráningardögum hverju sinni.
 
Gestir
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Sunna Jónsdóttir fulltrúi foreldra
5. 202301058 - Reglur um starfsemi leikskóla
Fræðslu- og frístundanefnd leggur til minni háttar breytingu á reglum um starfsemi leikskóla.

Nefndin leggur til að breyta inngangi að fimmtu grein og í stað þess að hafa að það þurfi að skrá börnin á skráningardaga með "a.m.k. 5-6 vikna fyrirvara" komi að það þurfi að "skrá börn með 6-8 vikna fyrirvara. Einnig eru foreldrar hvattir til að láta vita strax að hausti hvernig þeir hyggjast nýta skráningardaga næsta skólaárs hafi þeir tök á." Málinu vísað til bæjarráðs.
Reglur-um-starfsemi-leikskola-2025-mars.pdf
6. 202503010 - Skóladagatal Sjónarhóls 2025-26
Skóladagatal leikskólans Sjónarhóls lagt fram.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir framlagt skóladagatal leikskólans Sjónarhóls með 20 daga sumarlokun líkt og verið hefur en með auka skipulagsdegi enda útlit fyrir mikla auka vinnu í tengslum við fjölgun deilda. Einnig samþykkir nefndin að starfsmannafundir verði áfram milli 8 og 9 á morgnana einu sinni í mánuði.
Leikskóladagatal 2025-2026 lokaútgáfa.pdf
 
Gestir
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Sunna Jónsdóttir fulltrúi foreldra
7. 202503013 - Skóladagatal Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu 2025-26
Skóladagatal Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu lagt fram.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir framlagt skóladagatal Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu vegna skólaársins 2025-2026.
Tónskóladagatal-2025-2026 2.pdf
 
Gestir
Jóhann Morávek skólastjóri Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu
8. 202502009 - Starfshópur um húsnæðismál Grunnskóla Hornafjarðar
Bæjarráð fól sviðsstjóra fræðslu- og frístundanefndar að koma með tillögu að starfshópi.

Eftirfarandi tillaga að skipan í starfshóp samþykkt í fræðslu- og frístundanefnd. Tillögunni vísað til bæjarráðs.

Fulltrúi/ar úr fræðslu og frístundanefnd (2) einn aðal og einn til vara.
Sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs sem einnig verður starfsmaður hópsins.
Skólastjóri (2) einn aðal og einn til vara.
Sviðstjóri umhverfis og skipulagssviðs/mannvirkjasviðs.


Varamenn alltaf boðaðir á fund en fundarfært þó ekki mæti nema fjórir.

Starfshópurinn kemur með tillögur að því hvað þurfi að gera og hvernig það verður gert. Til grundvallar vinnu hópsins verður lögð áhersla á víðtækt samráð. Til halds og traust hefur starfshópurinn því ráðgjafahóp sem hægt verður að kalla til og verður vel upplýstur um vinnutilhögun. En þar sem það er snúið að kalla oft saman stóran hóp og þá getur verið gott að hafa minni hóp (starfshóp) sem vinnur að því að móta ferlið og skipulagið.

Auk ráðgjafahópsins er mikilvægt að bjóða fleirum að borðinu s.s. foreldrum, nemendum, starfsmönnum og fleirum en það væri starfshópsins og ráðgjafahópsins að móta slíka aðkomu.

Hópurinn skili af sér niðurstöðum ekki síðar en 1. nóvember.

Tillaga að skipan í ráðgjafahóp sem starfshópur vinnur með:
Fulltrúar fræðslu- og frístundanefndar 3 (einn frá hverju framboði).
Fulltrúar foreldra 2.
Fulltrúar kennara 2.
Fulltrúar nemenda 3.
Fulltrúi frá leikskólanum 1.
Fulltrúi frá tónskólanum 1.
Fulltrúi skólastjórnenda 2.
Sviðsstjórar umhverfis- og mannvirkjasviðs 1.
Sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs 1.
Fulltrúi frá USÚ eða Sindra 1.

Skipað verður í hópana þegar bæjarráð hefur fjallað um málið.

 
Gestir
Þórdís Þórsdóttir skólastjóri Grunnskóla Hornafjarðar, Ann Marie-Louise S Johansson fulltrúi kennara og Eik Aradóttir fulltrúi foreldra
9. 202503011 - Skóladagatal Grunnskóla Hornafjarðar 2025-26
Skóladagatal Grunnskóla Hornafjarðar lagt fram.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir framlagt skóladagatal Grunnskóla Hornafjarðar vegna skólaársins 2025-2026.
Grunnskóladagatal-2025-2026 GH.pdf
 
Gestir
Þórdís Þórsdóttir skólastjóri Grunnskóla Hornafjarðar, Ann Marie-Louise S Johansson fulltrúi kennara og Eik Aradóttir fulltrúi foreldra
10. 202503034 - Foreldrakönnun Grunnskóla Hornafjarðar 2025
Foreldrakönnun í Grunnskóla Hornafjarðar lögð fram til kynningar.

Fræðslu og frístundanefnd þakkar fyrir góða kynningu á foreldrakönnuninni. Könnunin var lögð fyrir í febrúar og var svörun góð. Könnunin kom ágætlega út en þó eru ýmis tækifæri til úrbóta og mun skólinn vinna úrbótaáætlun varðandi þá þætti. Einnig er mikilvægt að halda þeim þáttum sem koma vel út á lofti, af jákvæðum þáttum má t.d. nefna mikla ánægju með símalausan skóla.
Foreldrakönnun 2025.pdf
 
Gestir
Þórdís Þórsdóttir skólastjóri Grunnskóla Hornafjarðar, Ann Marie-Louise S Johansson fulltrúi kennara og Eik Aradóttir fulltrúi foreldra
11. 202301036 - Hornafjörður náttúrulega
Heildarstefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar - Hornafjörður Náttúrulega! gildir til ársins 2025. Á þessu ári þarf því að endurskoða stefnuna og hefur sú vinna þegar hafist. Nýheimar Þekkingarsetur verður sem fyrr sveitarfélaginu innan handar við vinnuna og er stefnt að því að endurnýjuð stefna verði tilbúin fyrir lok árs.

Í vinnunni munu sviðsstjórar í þéttu samstarfi við starfsmenn greina verkefni sinna sviða og starfsstöðva ásamt því að greina hvaða markmið þarf að uppfylla, hvar þurfi að skerpa áherslur og hvar tækifærin liggja. Vinnan mun vera kynnt í nefndum jafn óðum og kjörnir fulltrúar fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum við vinnuna. Þá mun afurðin vera kynnt íbúum og þeim gefið tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar áður en vinnan verður full kláruð.

Eitt af megin markmiðum vinnunnar sem nú fer í gang er að einfalda stefnuna, gera hana aðgengilegri og leggja áherslu á hlutverk sveitarfélagsins sem þjónustuaðila.



Sviðsstjóri kynnti málið fyrir nefndinni og stýrði vinnu þar sem nefndin lagði fram sínar tillögur.
12. 202503037 - Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi og hefur UNICEF á Íslandi umsjón og eftirlit með verkefninu. Undanfarin 4 ár hefur Sveitarfélagið Hornafjörður unnið að innleiðingu verkefnisins undir dyggri handleiðslu verkefnastjóra sem haldið hafa utan um það, nú síðast Emil Morávek en einnig hefur ungmennaráð átt mikinn þátt í innleiðingu ásamt stýrihóp um innleiðingu.

Nú er loksins komið að því að Sveitarfélagið fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Af því tilefni verður blásið tl sérstakrar athafna í Nýheimum þann 4. apríl með nemendum og starfsmönnum leik-, grunn-, og framhaldsskóla, Tónskólanum og fleiri aðilum.


Fræðslu- og frístundanefnd lýsir ánægju sinni með að sveitarfélagið sé að fá viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag og þakkar ungmennaráði, verkefnastjóra og öðrum sem komu að málinu fyrir vel unnin störf. Nefndin stefnir að sjálfsögðu að því að mæta á viðurkenningarhátíðina.
13. 202503038 - Fjölbreytileikavikan 2025
Fjölbreytileikavikan verður 4. - 10. apríl. Hún hefst á því að Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag og í framhaldinu verður fjölbreytileikanum fagnað á marga mismunandi vegu. Drög eru komin að dagskrá en hún gæti átt eftir að breytast.

Fræðslu- og frístundanefnd líst vel á dagskrá hátíðarinnar og vonast eftir góðri þátttöku á viðburði.
Fjölbreytinleikavika 2025.pdf
14. 202503022 - Drög að tillögu um þingsályktun - Stefna um farsæld barna til ársins 2035
Í þeirri tillögu sem hér er lögð fram til kynningar er lögð áhersla á sex megin stoðir.
A. Jafnræði allra barna og fjölskyldna þeirra.
B. Barnvæn nálgun og þátttaka barna.
C. Stuðningur í þágu barna og fjölskyldna þeirra.
D. Fræðsla, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir í þágu barna.
E. Framúrskarandi mannauður í þágu barna.
F. Áreiðanleg og heildstæð gögn liggi til grundvallar ákvarðanatöku stjórnvalda.

Þessar stoðir eru allar að meira og minna leyti á forræði fræðslu- og frístundanefndar.


Fræðslu- og frístundanefnd fjallaði um þingsályktunina og óskaði eftir því að ungmennaráð fengi kynningu á henni. Starfsmanni falið að kynna málið fyrir ungmennaráði.
Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu um farsæld barna til ársins 2035.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:45 

Til baka Prenta