Umhverfið okkar
Sveitarfélagið Hornafjörður er víðfemt með viðkvæma náttúru því er mikilvægt að íbúar og gestir gangi gætilega um og beri virðingu fyrir fjölbreyttri náttúru. Hættur og tækifæri geta leynst í slíkri náttúru, fjörur, jöklar og ár geta verið hættulegar og utanvegaakstur á viðkvæmum svæðum er ólíðandi. Mikilvægt að benda gestum okkar á þjónustuaðila sem bjóða upp á salernisaðstöðu.
Íbúar finna vel fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, samber hörfun jökla og áhrif þess á heimahaga fólks og mögulega á sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu á svæðinu. Umhverfi og náttúra sveitarfélagsins er fyrir íbúa til að njóta allan ársins hring og er því verndun umhverfis og náttúru hagur allra íbúa, stofnana og fyrirtækja svæðisins sem ætti að vera grundvöllur allra aðila til samstarfs í umhverfismálum. Ferðamönnum og öðrum gestum sem koma til að njóta náttúru og umhverfis á svæðinu fer fjölgandi og er mikilvægt að þeir eins og íbúar taki þátt í að stuðla að jákvæðri þróun umhverfismála á svæðinu.
Hornafjörður er eitt af landmestu sveitarfélögum landsins þar sem íbúar búa dreift á um 200 km. landsvæði sem nær frá Hvalnesskriðum í austri að Skeiðarársandi í vestri. Íbúar eru flestir á Höfn en einnig búa margir í hinum dreifðari byggðum Hornafjarðar.
Náttúra svæðisins og náttúruleg fjölbreytni lífríkis er hér einstök. Hluti stærsta þjóðgarðs landsins er innan landsvæðis Hornafjarðar með stærsta jökul Evrópu innan sín. Einnig eru strandlengjur, sandar, ár og vötn stór þáttur í umhverfi Hornafjarðar.
Fuglalíf er auðugt í sveitarfélaginu og hefur svæðið skapað sér sess sem vinsæll staður til fuglaskoðunar. Mikilvægt er að viðhalda þeim fjölbreytileika með verndun búsvæða. Mikilvæg búsvæði eru til dæmis strandlengjur, votlendi, mólendi og búsvæði fugla meðfram vatnsbökkum. Vernd og endurheimt votlendis skiptir miklu máli.
Strendur eru einnig mikilvægar fyrir land- og sjávarspendýr og er mikilvægt lífríki að finna í fjöru og á grunnsævi. Lífríki fjörunnar er viðkvæmt fyrir hvers konar mengun á öllum árstímum þar sem fjaran er virk allan ársins hring.
Utanvegaakstur er ógn við viðkvæma náttúru, gróður og lífríki og getur valdið skemmdum sem eru ár eða jafnvel áratugi að ganga til baka. Það á jafnt við um svæði þar sem gróðurþekja hylur landið sem og um sanda og ógróin svæði.
Friðlýst svæði
Ósland - Friðlýst sem fólkvangur árið 1982 og var friðlýsingin endurskoðuð árið 2011. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja svæði til útivistar og útikennslu í náttúrufræðum í sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig er markmiðið að tryggja verndun sérstakra jarðmyndanna og fjölbreytts fuglalífs (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).
Díma í Lóni var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Díma er er klapparhæð á aurum Jökulsár í Lóni, með fjölbreyttum gróðri. Klettaborgin Díma er landamerki milli jarðanna Stafafells og Þórisdals. Díma hefur augljóslega lengi verið eyja í Jökulsá og ber merki þess að vera sorfin af ánni. Lóðrétt standberg er norðanmegin, þar sem áin rennur í dag. Vestur-, suður- og austurhlíðar klettaborgarinnar eru einnig snarbrattar en einungis er greiðfær leið upp að suðvestanverðu, frá varnargarðinum sem tengir Dímu við Dalsfjall (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/)..
Háalda var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Svæðið er jökulalda mikil milli Sandfells og Hofs. Hlaupset sem varð til í jökulhlaupi við gos 1727 í Öræfajökli. Þetta fyrirbæri er dæmigert dauðíslandslag. Jökulkerið í öldunni er far eftir ísjaka.
Stærð náttúruvættisins er 4,9 ha. (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).
Ingólfshöfði 3. október 1978 var ákveðið að friðlýsa Ingólfshöfða og er svæðið friðland. Mörk friðlandsins mynda ferhyrning um línur sem hugsast dregnar í 100 metra fjarlægð út frá ystu klettasnösum höfðans.
Lónsöræfi. Friðlandið í Stafafellsfjöllum er oft kallað einu nafni Lónsöræfi. Þar er mikil fjölbreytni í formum og litum og mikið um líparít, holufyllingar og fagra steina. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um fjöllin.
Innfjöll með Eskifelli, Kjarrdalsheiði, Kollumúla og Víðidal voru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum í ársbyrjun 1977 að fengnu samþykki landeigenda. Frumkvæði að friðlýsingu höfðu Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST). Er svæðið friðland og ýmist kennt við Lónsöræfi eða Stafafellsfjöll. Stærð friðlandsins er 34.528. (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).
Salthöfði og Salthöfðamýrar voru friðlýstar árið 1977. Höfðinn er berggangur eða gígtappi sem til forna hefur verið sjávarhamrar. Stærð friðlandsins er 230,7 ha. (http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/).
Skaftafell Þjóðgarður í Skaftafelli var formlega stofnaður 23. ágúst 1968.
Í júní 2008 varð þjóðgarðurinn í Skaftafelli hluti af nýstofnuðum Vatnajökulsþjóðgarði. Skaftafellsland er mótað af rofi jökla og vatns, skriðjöklar setja svip sinn á landið og Skeiðará, Morsá og Skaftafellsá renna frá samnefndum jöklum. Skeiðará er þeirra mest og var mikill farartálmi þar til hún var brúuð árið 1974. Kunnust er hún vegna Skeiðarárhlaupa sem eiga upptök sín í Grímsvötnum, ýmist vegna eldvirkni eða jarðhita.
Gróðurfar er fjölbreytt í Skaftafelli, neðanverðar hlíðar eru vaxnar birkiskógi, sums staðar vex reyniviður innan um og er botngróður gróskumikill. Í Bæjarstaðarskógi verður birki hávaxnara en víðast hvar á landinu. Bláklukka, gullsteinbrjótur og klettafrú, sem eru meðal einkennistegunda Austurlands, finnast víða í Skaftafelli. Gróðurfar hefur tekið miklum breytingum eftir að þjóðgarðurinn var friðaður, bæði að magni og umfangi.
Jökulaurarnir eru nú óðum að gróa upp, bæði framan við Skaftafellsjökul og í Morsárdal Tegundir eins og geithvönn, ætihvönn, baunagras og eyrarrós, sem varla sjást á beittu landi, eru orðnar algengar. Birki og víðir teygja sig upp úr aurunum og skógur og kjarr hefur aukist í hlíðum. Skordýralíf í Skaftafelli er mjög fjölbreytilegt samanborið við aðra staði á landinu og um miðbik sumars verður fiðrildið hvítfeti áberandi.
Helstu náttúruperlur Skaftafells eru:
Bæjarstaðarskógur sem er hávaxnasti birkiskógur landsins en lítill um sig. Kjós sem er litskrúðugur fjallasalur með um 1000 metra háum skriðu- og hamraveggjum. Kristínartindar sem eru tveir tindar, 979 m og 1126 m háir, sem gnæfa yfir Skaftafellsheiðina. Morsárjökull sem fellur fram af þverhníptum hömrum. Skaftafellsjökull sem er skriðjökull sem gengur niður úr Vatnajökli austan Skaftafellsheiðar. Svartifoss sem fellur fram af hömrum með óvenju reglulegum bergstuðlum er myndast hafa við hægfara kólnun hraunlags.