Barnvænt sveitarfélag
Sveitarfélagið Hornafjörður vinnur að því að verða Barnvænt sveitarfélag. Í lok árs 2023 var skilað inn aðgerðaráætlun sem UNICEF samþykkti í janúar 2024. Nú er verið að vinna að útektarskýrslu um hvernig verkefnið hefur gengið og hversu langt við höfum náð. Unnið er að því að skýrslunni verði skilað inn í janúar 2025 og Sveitarfélagið Hornafjörður fái stimpilinn barnvænt sveitarfélag í febrúar. Í framhaldinu hefst næsti hringur - sjá frekari útskýringar hér fyrir neðan.
Fyrsta aðgerðaráætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna Barnvæns sveitarfélags - desember 2023
Verkefnið Barnvænt sveitarfélag byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF sem snýr að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Verkefnið byggir á eftirfarandi fimm grunnþáttum:
- Þekking á réttindum barna
- Það sem er barninu fyrir bestu
- Jafnræði - að horft sé til réttinda allra barna
- Þátttaka barna
- Barnvæn nálgun
Innleiðing Barnvæns sveitarfélags felur í sér átta skref og það tekur að lágmarki tvö ár að ljúka við innleiðingarhringinn og fá viðurkenninguna Barnvænt sveitarfélag.
Staðfesting er fyrsta skrefið. Eftir að samstarfsamningur er undirritaður er verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags skipaður og stýrihópur verkefnisins er stofnaður. Stýrihópurinn samanstendur af fulltrúum meirihluta og minnihluta, fulltrúum allra sviða sveitarfélagsins og þremur fulltrúum úr ungmennaráði.
Stöðumat er annað skrefið og eitt mikilvægasta skrefið í innleiðingunni en það tekur um ár í framkvæmd og markmiðið er að kanna stöðu barna í sveitarfélaginu. Stýrihópurinn vinnur stöðumatið eftir eftirfarandi skrefum:
- Stýrihópur svarar leiðbeinandi spurningalistum.
- Spurningakannanir eru lagðar fyrir starfsfólk sveitarfélagsins.
- Spurningakannanir eru lagðar fyrir börn í sveitarfélaginu.
- Ungmennaþing er haldið í samráði við ungmennaráð.
- Viðtöl eru tekin við sérfræðihópa barna sem valdir eru út frá svörum við leiðbeinandi spurningalistum og niðurstöðum spurningakannana og ungmennaþings.
Að þessu loknu skrifar verkefnastjóri, með hjálp stýrihóps greinagerð um stöðumatið og sendir UNICEF. Stýrihópurinn kemur fræðslunni, skrefi þrjú af stað út frá niðurstöðunum og fræðslan er síðan gegnumgangandi í öllum skrefunum.
Aðgerðaáætlun er fjórða skrefið og hefst þegar stýrihópurinn fær endurgjöf frá UNICEF á greinagerðina. Sveitarfélagið Hornafjörður skilaði inn fyrstu aðgerðaráætlun í desember 2023. Skoða aðgerðaráætlun.
Nú er verið að vinna í að koma aðgerðum sem tilheyra aðgerðaráætluninni í gang og markmiðið er að þeim verði lokið seinni hluta árs 2024 og skýrslu þá skilað inn til Unicef. Þá fær sveitarfélagið Hornafjörður væntanlega stimpilinn Barnvænt sveitarfélag og næsti hringur hefst.
Ef einhver vill fræðast meira um verkefnið Barnvænt sveitarfélag er bent á heimasíðu verkefnisins https://barnvaensveitarfelog.is/. Þá heldur Emil Morávek emilmoravek@hornafjordur.is verkefnastjóri á fræðslu og frístundasviði utan um innleiðingu á verkefninu í Sveitarfélaginu Hornafirði og hann er alltaf til í spjall um verkefnið.