Ábending til hunda- og kattaeigenda

24.5.2023

Nú þegar farfuglarnir eru komnir til landsins, og varptími þeirra og annarra fugla er hafinn, styttist í að ungar fari á kreik. Hunda- og kattaeigendur eru beðnir um að sýna ábyrgð til að lágmarka þann skaða sem gæludýr þeirra geta valdið.

Hundar og kettir geta haft neikvæð áhrif á fuglavarp í nágrenni við mannabústaði og því er ábyrgð eigenda þeirra töluverð. 

Þeim tilmælum er beint til kattaeigenda að halda köttum sínum sem mest innandyra yfir varptímann og hengja bjöllur á hálsólar þeirra eða setja á þá kraga sé þeim hleypt út. Æskilegt er að halda köttum inni að lágmarki á milli kl. 17:00 til kl. 09:00 daginn eftir yfir varptímann.
Þá ber kattaeigendum jafnframt eftir fremsta megni að sjá til þess að kettir þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu.

Þeim tilmælum er beint til hundaeigenda að sleppa ekki hundum sínum lausum á varpsvæðum fugla. Þeim er jafnframt bent á að lausaganga hunda er óheimil innan þéttbýlismarka nema á skipulögðum hundasvæðum. Þetta á jafnframt við um kartöflu- eða matjurtargarða sveitarfélagsins enda er óþarfi að hafa hunda með sér þangað. Á Höfn er hundasvæði í Lyngey en staðsetningu hennar má nálgast hér. Hundaeigendur eru minntir á að hirða alltaf upp eftir hunda sína en umgengni lýsir innri manni.

Hundar- og kettir eru rándýr og hafa tilnheigingu til að haga sér sem slík. Eigendur slíkra gæludýra bera ábyrgð á þeim og því æskilegt að þeir taki tillit til þeirra reglna sem gilda um gæludýr þeirra.

Að lokum er vert að benda á að hundar- og kettir innan þéttbýlis eru skráningarskyldir en hægt er að skrá og afskrá gæludýr á íbúagátt sveitarfélagsins.

Kisa_med_kraga