Aðgerðir vegna COVID-19 á Hornafirði

13.3.2020

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur unnið viðbragðsáætlun vegna útbreiðslu COVID-19 og mun framfylgja ákveðnum aðgerðum frá og með mánudeginum 16. mars 2020.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur samþykkt viðbragðsáætlun við útbreiðslu COVID-19 með það að markmiði að starfsemi stofnana sveitarfélagsins haldist órofin eins og aðstæður leyfa hverju sinni. Viðbragðsáætlunina má lesa hér .

 

Í dag var opnuð ný heimasíða Almannavarna, covid.is. Þar verða allar fréttir og upplýsingar uppfærðar mjög reglulega.

Sveitarfélagið Hornafjörður mun beita eftirfarandi aðgerðum frá og með mánudeginum 16. mars:

  1. Afgreiðsla ráðhús sveitarfélagsins verður lokuð. Símsvörun er óbreytt og íbúum er bent á rafrænar gáttir, íbúagátt og tölvupóst.
  2. Fundir í ráðhúsinu með utanaðkomandi í húsnæðinu eru ekki heimilir, notast verður við fjarfundarbúnað og símafundi. Nefnarfundir verða haldnir í fjarfundi.
  3. Stofnanir sveitarfélagsins loka fyrir utanaðkomandi heimsóknir eftir því sem hægt er.
  4. Öllum viðburðum á vegum sveitarfélagsins verður frestað.
  5. Höldum uppi forvörnum, fylgjum fyrirmælum hvað varðar handþvott og annað hreinlæti.

Viðbrögð geta breyst með skömmum fyrirvara og mun það verða tilkynnt um leið og það gerist. Það er mikilvægt í þessum aðstæðum að íbúar haldi ró sinni og fylgist með fréttum og leiðbeiningum frá yfirvöldum.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri