Almannavarnir og COVID-19

6.3.2020

Almannavarnir á Hornafirði fylgjast vel með þróun mála er varðar útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Í dag eru 37 einstaklingar greindir með smit á Íslandi en enginn þeirra er alvarlega veikur. Öll tilvikin tengjast Ítalíu (Trentino) og Austurríki (Ischgl). Sem stendur hefur enginn greinst með smit í Sveitarfélaginu Hornafirði og enginn er í sóttkví. Allar aðgerðir og viðbrögð almannavarna á Hornafirði eru samkvæmt leiðbeiningum Sóttvarnalæknis og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ekki hefur verið boðað samkomubann í sveitarfélaginu frekar en annars staðar á landinu. Við bendum íbúum á að huga vel að forvörnum og bendum þar á vef Embætti Landlæknis www.landlaeknir.is en þar eru gagnlegar upplýsingar.

Hvað get ég gert til að forðast smit?

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta. Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila í samfélaginu þegar þeir hlúa að veikum. Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur.

Haldinn verður upplýsingafundur í Nýheimum á miðvikudaginn 11. mars kl: 20 þar sem gefst kostur á að fræðast um COVID-19 og viðbrögð almannavarna á Hornafirði.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri