Alvarleg staða ferðaþjónustunnar í Sveitarfélaginu Hornafirði

13.11.2020

Unnin var könnun um stöðu ferðaþjónustuaðila í Sveitarfélaginu Hornafirði, þar kom fram að fjölmörg störf hafa tapast vegna Covid 19 en þrátt fyrir það eru ferðaþjónustuaðilar bjartsýnir með rekstur ferðaþjónustufyrirtækja til framtíðar og ætla að þreyja Þorrann á meðan ástandið varir.

Í september s.l. hafði Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu (FASK) frumkvæði að boðun vinnufundar og framkvæmd könnunar meðal ferðaþjónustuaðila á starfssvæði FASK. Sveitarfélagið Hornafjörður (SVH) kostaði verkefnið og Þekkingarsetrið Nýheimar komu að undirbúningi og utanumhaldi þess. Vinnufundinum var ætlað að skila tillögum (hugmyndum) að lausnum sem greinin sjálf, ríkið, sveitarfélög, bankar, tryggingarfélög og aðrir aðilar geta gripið til sem stuðning við greinina svo draga megi úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs vegna Covid 19 á fyrirtæki, fjölskyldur, ríkið, sveitarfélög og aðra hagsmunaraðila. Samkvæmt skýrslu frá SASS sem fjallar um hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi kemur fram að 565 einstaklingar störfuðu í ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði árið 2019 og hafði þeim fjölgað um 455% frá árinu 2009.

Spurningakönnun var send út í lok september til 107 mismunandi aðila og bárust svör frá 57 aðilum.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

  • Áætlað er að á bilinu 15-20% af störfum innan SVH tapist á tímabilinu 2020 til 2021 til samanburðar við árið 2019.
  • Hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja (1-20 starfsmenn) var um 92% af fyrirtækjum í ferðaþjónustu árið 2019.
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki sköpuðu á bilinu 64-66% allra starfa ferðaþjónustunnar í SVH árið 2019.
  • Ferðaþjónustuaðilar eru mjög neikvæðir til skamms tíma (6 mánaða) og telja að á bilinu 232-326 störf tapist vegna Covid 19 til loka árs 2021.
  • Ferðaþjónustuaðilar verða jákvæðari ef horft er til lengri tíma (12-24 mánaða) og ekkert fyrirtæki hyggst hætta starfsemi.

Með þessari vinnu FASK og þátttöku ferðaþjónustuaðila vonumst við til þess að þær hugmyndir sem fram komu á vinnufundinum nýtist öllum aðilum máls. Þannig aukast möguleikar á réttum viðbrögðum og dregið verði úr þeim skammtíma skaða sem nú blasir við. Um leið er tryggð viðspyrna íslensks efnahagslífs þegar faraldurinn fer í rénun og eðlilegra viðskiptaumhverfi skapast.

Hægt er að nálgast helstu niðurstöður tilkynninguna í heild sinni í viðhengi þar sem koma fram hugmyndir um hvað fyrirtækin sjálf, ríki, sveitarfélög, bankar, tryggingarfélög og aðrir aðilar máls geta gert til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid 19 og tryggja um leið öfluga viðspyrnu þegar eðlilegra ástand skapast.

Stjórn FASK og bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ýtarlegri gögn má einnig nálgast á vef FASK www.ferdaskaft.is