Áramótapistill bæjarstjóra
Góðir Austur-Skaftfellingar, áramót eru kjörinn tími til að setja markmið til framtíðar og meta árangur liðinna tíma, og þegar horft er um öxl þá hefur árið 2016 verið gott fyrir Austur-Skaftfellinga. Að sjálfsögðu má finna eitthvað sem betur hefði mátt fara en þannig er það alltaf. Það er mikilvægt að horfa fram á veginn með bjartsýni og gleði til góðra verka.
Atvinna og þróun byggðar
Atvinnuástandið í sveitarfélaginu hefur verið gott undanfarin misseri og hefur atvinnuleysi að jafnaði mælst undir einu prósenti. Mikil fjölgun ferðamanna til landsins árið um kring býður upp á fjölbreytt atvinnutækifæri hér í sveitarfélaginu og er ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu eru nú rekin á heilsárs grundvelli. Þessi þróun hefur jákvæð áhrif fyrir íbúa sveitarfélagsins, til að mynda með auknu framboði á vörum og þjónustu, og má þar ekki síst nefna fjölbreytta flóru veitingastaða Hingað vantar fólk til starfa á nánast öllum sviðum atvinnulífsins sem skapar tækifæri til vaxtar.
Húsnæðismálin hafa verið ofarlega á baugi og sem lið í því að efla húsnæðismarkaðinn á svæðinu stofnaði sveitarfélagið sjálfseignarstofnunina Íbúðarfélag Hornafjarðar hses. á liðnu ári. Ánægjulegt er að segja frá því að stofnframlag sem félagið sótti um til byggingar almennra leiguíbúða í fjölbýlishúsi hefur verið samþykkt og munu framkvæmdir væntanlega hefjast á næstunni.Um er að ræða lítið fjölbýli með þremur þriggja herbergja íbúðum, einni fjögurra herbergja íbúð og einni eins herbergja íbúð. Að auki hefur talsverður áhugi verið á byggingarlóðum á Höfn síðustu misserin og hefur 11 lóðum verið úthlutað á skömmum tíma, þar af eru átta einbýlishúsalóðir. Eru framkvæmdir nú þegar hafnar við tvö einbýlishús á Leirunni. Ástandið hefur því heldur vænkast á húsnæðismarkaðnum hér á Höfn en í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir 1% fólksfjölgun á ári. Samkvæmt bráðabirgðatölum um fjölda íbúa í sveitarfélaginu þá eru þeir 2196 í lok árs 2016, samanborið við 2171 þann 1. janúar 2016. Íbúum hefur því fjölgað um 1,1% á síðastliðnum 11 mánuðum. Til að setja þetta í samhengi við fasteignamarkaðinn þá er nauðsynlegt að byggðar verði fimm til sjö íbúðareiningar á ári ef sú þróun sem nefnd er hér að ofan á að geta gengið upp. Æskilegt er að þessi uppbygging verði sem mest á höndum íbúa sveitarfélagsins en þó getur verið nauðsynlegt að sveitarfélagið komið að uppbyggingunni að einhverju leiti.
Framkvæmdir
Þær náttúrulegu aðstæður sem við búum við krefjast þess að fráveitumál á svæðinu séu til fyrirmyndar og var á árinu 2016 haldið áfram að vinna að framtíðarfyrirkomulagi fráveitumála. Þar er stefnt að því að koma öllu skólpi í gegnum hreinsistöð í Óslandi. Áætlað er að ljúka því að mestu fyrir árslok 2018. Á næstunni verður annar áfangi fráveitu boðinn út, sem og bygging hreinsivirkis í Óslandi. Í öðrum áfanga fráveitu er austasti hluti Hafnarbrautar og hafnarsvæðið, ásamt Hafnavík-Heppu, tengt við fráveitulagnir sem lagðar voru í fyrsta áfanga.
Nú er á lokametrunum vinna við hönnun á endurbótum og viðbyggingu við leikskólann að Kirkjubraut 47. Þessi vinna hófst með samþykkt í bæjarstjórn á fundi hennar í mars 2016. Stefnt er að útboði á verkinu nú í byrjun árs. Framkvæmdartími er áætlaður um 12 mánuðir og verður því öll starfsemi leikskóla komin undir eitt þak í byrjun árs 2018. Samhliða endurbótum á húsnæðinu verður skólalóðin lagfærð. Þessar breytingar koma til með að valda tímabundnu raski á starfsemi skólanna með tilheyrandi álagi á starfsfólk. Nýr leikskóli mun geta tekið á móti 120 til 140 börnum og aðbúnaður barna og starfsfólks verður í samræmi við það sem best þekkist.
Við þessar hrókeringar í húsnæðismálum leikskólanna skapast aðstæður til að tryggja húsnæði fyrir málefni fatlaðs fólks, en í áætlun bæjarstjórnar er gert ráð fyrir að húsnæðið að Víkurbraut 24, sem nú hýsir leikskólann Krakkakot, muni verða notað fyrir málaflokkinn. Að öðrum kosti væri nauðsynlegt að hefja byggingaframkvæmdir til að hýsa þá þjónustu. Á þessu ári er gert ráð fyrir að fara í hönnunarvinnu og áætlunargerð fyrir nýja notkun húsnæðisins, enda brýnt að leysa úr þeim húsnæðisvanda sem fyrst. Málefni fatlaðra hafa að hluta til verið í umsjá sveitarfélagsins frá árinu 1997 og síðan fluttist málaflokkurinn alveg yfir til sveitarfélagsins árið 2011. Það ár var þessi málaflokkur var færður frá ríki til sveitarfélaganna í landinu og á sama tíma samþykkt að Sveitarfélagið Hornafjörður yrði sér þjónustusvæði varðandi málefni fatlaðs fólks.
Í lok ársins var samþykkt framkvæmdarleyfi fyrir Hringveg um Hornafjarðarfljót. Eins og flestir vita er sú framkvæmd ekki hafin yfir gagnrýni og hafa nú borist þrjár kærur vegna framkvæmdaleyfisins Unnið er að því að safna saman gögnum og svara þeim athugasemdum sem fram koma í þessum kærum. Þeir sem ekki eru sáttir við ákvarðanir stjórnvalda geta skotið málum sínum til úrskurðar á æðri dómsstigum og í þessu tilfelli er það Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það er mikilvægt að átta sig á að það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiti réttar síns telji það á sér brotið. Bæjaryfirvöld hafa vandað til verka við undirbúning og afgreiðslu þessa framkvæmdarleyfis en það er mikilvægt að virða skoðanir og rétt allra í þessu máli.
Heilbrigðismál
Nýverið var skrifað var undir nýjan samning við ríkið um rekstur heilbrigðisþjónustu á vegum sveitarfélagsins. Markmið samningsins er að samþætta þjónustu á sviði heilbrigðis-, öldrunar- og félagsþjónustu í sveitarfélaginu með því að fella þessa þjónustuþætti heildstætt að staðbundnum aðstæðum er unnt að bæta þjónustu við notendur og nýta fjármuni betur. Þessu hefur sveitarfélagið unnið að allt frá því árið 1997, fyrst sem reynslusveitarfélag en síðar með þjónustusamningum. Árangur sveitarfélagsins gagnvart þessum markmiðum er mjög góður. Það þarf að halda vel á málum, líkt og gert hefur verið undanfarin ár, til að svo verði áfram. Mikilvægt er að farið verði í nauðsynlegar endurbætur á hjúkrunar- og dvalarheimili og er nú í gangi vinna við frumhönnun að nýju hjúkrunarheimili sem styður umsókn sveitarfélagsins í framkvæmdasjóð aldraðra.
Fjármál
Fjárhagsáætlun ásamt þriggja ára áætlun sveitarfélagsins var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í lok árs. Staða sveitarsjóðs er sterk og geta þess til að standa að þeim verkefnum sem framundan eru góð. Hér eru lykiltölur úr fjárhagsáætlun.
Sameining sveitarfélaga
Undanfarin ár hefur verið talsverð umræða um eflingu sveitarstjórnarstigsins og þessu tengt hefur verið umræða um tilfærslur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Grundvöllur fyrir slíkri verkefnatilfærslu er að sveitarfélögin séu nægilega stór og burðug til að taka við þessum verkefnum. Í ljósi þessa var samþykkt á nýliðnu ári að kanna áhuga nágrannasveitarfélaganna, Djúpavogshrepps og Skaftárhrepps, til sameiningar við Sveitarfélagið Hornafjörð. Stofnuð hefur verið samstarfsnefnd þessara þriggja sveitarfélaga sem hefur það hlutverk að kanna kosti sameiningar og leggja fram tillögu til bæjar- og sveitarstjórna sveitarfélaganna. Það eru að lokum íbúar sveitarfélaganna sem kjósa um valkostina og hafa þannig síðasta orðið í málinu. Sveitarfélögin sömdu við ráðgjafafyrirtækið KPMG um undirbúning og gerð kynningarefnis vegna þessarar vinnu. Á næstunni verður send út rafræn skoðanakönnun til íbúa, sem og haldnir íbúafundir til að tryggja að öll sjónarmið liggi á borðinu þegar kosið verður um valkostina.
Ég óska íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegs nýs árs og þakka um leið samfylgdina og samvinnuna á árinu sem liðið er.
Með kærri kveðju,
Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri