• Slide2_1715185746566

Ársreikningur 2023

8.5.2024

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins jákvæð um 457 milljónir króna

Nú liggur fyrir ársreikningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir árið 2023 og var hann samþykktur samhljóða á bæjarstjórnarfundi í dag 8. maí. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 457 m.kr., og rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 309 m.kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 6.254 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam um 5.381 m.kr.

Á síðasta ári námu rekstrartekjur sveitarfélagsins 4.170 m.kr. fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.704 m.kr.

Slide2_1715185746566

Talsvert betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir

Niðurstaða síðasta árs er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er skýringa helst að finna í stöðugt öflugra atvinnulífi í sveitarfélaginu. Á síðasta ári var ráðgert að fjárfesta í innviðum upp á 1.119 m.kr. en niðurstaðan var fjárfesting upp á tæpar 600 m.kr. Munar þar mest um að framkvæmdir við viðbyggingu leikskólans Sjónahóls voru seinni af stað en áætlað hafði verið, en einnig varð seinkun á fráveituáfanga fjögur. Einnig seinkaði afhendingu á nýrri slökkvibifreið sveitarfélagsins en hún er nú komin til Hornafjarðar sem stórbætir aðbúnað slökkviliðs - nýja slökkvibifreiðin kostar um 100 m.kr. og færist til eignar á árinu 2024.

Slide4_1715185716158

Engin lán tekin á árinu 2023

Áætluð lántaka á síðasta ári var 450 m.kr. en ekki var gengið á þá heimild og engin lán því tekin. Að skila 457 mill.kr. í afgang og fjárfesta fyrir tæplega 600 m. kr. án þess að taka krónu að láni er til marks góða stöðu sveitarfélagsins. Reksturinn gekk mjög vel á síðasta ári, þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga. Það er ánægjulegt að sjá áfram vöxt í tekjustofnum okkar sem hækka um 19,5% á milli ára en í áætlun ársins var gert ráð fyrir 7,5% tekjuaukningu.

Öfundsverð staða

Skuldahlutfall sveitarfélagsins í lok síðasta árs er 56% en var áætlað 65%, þá er skuldaviðmið 29% en var í áætlun síðasta árs 44%. Í þessu sambandi er ágætt að nefna að hámarks skuldaviðmið er skilgreint í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og er 150%.

Slide6

Veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum sem sýnir getu sveitarfélagsins til þess að standa undir framkvæmdum og fjárskuldbindingum. Lykiltalan um veltufé segir til um getu sveitarfélagsins til að fjárfesta og standa undir afborgunum án þess að þurfa að taka lán. Á síðasta ári var veltufé frá rekstri 816 m.kr og sem hlutfall af rekstrartekjum 19.6% en var áætlað 14,6% - til samanburðar var hlutfallið 17.9% árið 2022 og 13.3% árið 2021.

Slide7

Fjárhagsstaða bæjarsjóðs er mjög sterk og erum við hér í Hornafirði í öfundsverði stöðu, samhliða blómlegum rekstri höfum við stóraukið innviðafjárfestingar sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri