Bæjarráð mótmælir harðlega skerðingu á tekjum Jöfnunarsjóðs
Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna áforma fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að skerða tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Bæjarráð mótmælir harðlega þeim áformum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um a.m.k. 2,8 milljarða á árunum 2020 og 2021. Skerðingin kemur harðast niður á útgjaldajöfnunarframlögum, en þau renna einkum til sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hafa mörg hver veikan fjárhag. Skerðingin kemur einnig niður á framlögum til þjónustu við fatlað fólk og getur falið í sér að dregið verði úr þeirri þjónustu.
Áætlað tekjutap sveitarfélaga á Suðurlandi af framlögum til útgjaldajöfnunar og vegna fasteignaskatts er tæpar 505 millj.kr. og vegna málefna fatlaðra 29 millj.kr. Framlög til málefna fatlaðra hafa ekki staðið undir rekstrarkostnaði og bætir þetta ekki stöðu þess málaflokks.
Framlög til málefna fatlaðra hafa ekki staðið undir rekstrarkostnaði og bætir þetta ekki stöðu þess málaflokks.
Einhliða ákvörðun ríkisvaldsins af þessu tagi er í andstöðu við það formlega samráðsferli ríkis og sveitarfélaga sem hefur þróast á undanförnum árum og fela áform þessi í sér algeran trúnaðarbrest gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Ekki getur með nokkrum hætti talist eðlilegt að áhersla á að bæta afkomu ríkissjóðs skili sér í skerðingum á tekjum sveitarfélaganna, sem standa undir mjög stórum hluta almannaþjónustu í landinu.
Bæjarráð krefst þess að áform um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs verði afturkölluð þegar í stað.