Bæjarstjórn ályktaði um heilbrigðis- og fæðingarþjónustu á landsbyggðinni

31.10.2022

Á septemberfundi bæjarstjórnar var ályktað um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðis- og fæðingarþjónustu sem á að vera grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingunni. 

Sú er hins vegar ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni í dag. Heilsugæslan á landsbyggðinni er undirmönnuð og aðgengi íbúa að grunnheilbrigðisþjónustu er skert. Það þarf að búa þannig um hnútana að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni geti mannað stöður heilbrigðisstarfsfólks þannig að þær geti veitt þá grunnheilbrigðisþjónustu sem þeim er ætlað. Þá liggur fyrir að flestar flóknar aðgerðir eru í dag einungis framkvæmanlegar á Landspítalanum. Það þarf að auka öryggi sjúklinga á landsbyggðinni með því að styrkja og breyta fyrirkomulagi sjúkraflugs m.a. með tilkomu sérhæfðrar sjúkraþyrlu og ákveða þarf staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni til framtíðar. Þannig tryggjum við að allir landsmenn geti notið þjónustu Landspítalans með fullnægjandi hætti.
Einnig er nauðsynlegt að styðja sérstaklega við meðgöngu og sængurlegu þjónustu á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að fæðingarþjónusta verði efld í þéttbýliskjörnum sem eru langt frá slíkri þjónustu. Í þeim tilfellum þarf barnshafandi fólk að ferðast langar vegalengdir, með tilheyrandi ferðakostnaði, streitu og óþægindum sem slíku ferðalagi fylgir, á viðkvæmum tíma í lífi fólks.