Bókmenntahátíð Þórbergsseturs
Bókmenntahátíð Þórbergsseturs verður haldin í Þórbergssetri sunnudaginn 27. mars kl. 13:30.
Gestir á hátiðinni eru Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sem rifjar upp minningar úr barnæsku frá kynnum sínum af Þórbergi Þórðarsyni
og skreytir þær með skáldlegu ívafi eins og honum er einum lagið. Með honum í för eru félagar hans frá hinum fornu Spöðum, - Aðalgeir Arason og Eyjólfur Guðmundsson og ætla þeir að skemmta okkur með söng og sprelli. Aðalgeir Arason er fæddur í Suðurhúsum í Borgarhöfn, en einnig ættaður frá Fagurhólsmýri í Öræfum og er því Skaftfellingur í húð og hár.
Einnig kemur í heimsókn Sólveig Pálsdóttir rithöfundur og barnabarn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Hún kynnir bók sína Klettaborgina þar sem segir frá dvöl hennar í Hraunkoti í Lóni á sjöunda áratug síðustu aldar, en hún kom þar fyrst fimm ára gömul og dvaldi öll sumur til 12 ára aldurs. Í bókinni eru einstakar lýsingar horfins sveitasamfélags í Skaftafellssýslu sem hún ,,spinnur einkar fallega, í vel meitluðum glettnum og viðfelldnum texta " Einstakar og næmar mannlýsingar eru aðalsmerki þessarar bókar og auðvelt er að sjá fyrir sér heimilisfólkið í Hraunkoti og fleiri Skaftfellinga birtast ljóslifandi í hugskotinu við lestur bókarinnar.
Dagskráin verður send út í streymi.
Allir eru þó velkomnir í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag,. Á það ekki hvað síst við Skaftfellinga allt frá Eystrahorni í austri til Skeiðarársands í vestri. Gaman verður að tengja við þjóðlíf liðinnar aldar með gestum okkar og hittast á ný eftir langt samkomuhlé í Þórbergssetri. Hægt að fá gistingu fyrir lengra að komna og nota helgina til dvalar og skemmtunar í Suðursveit