• Radhusid

Breytingar á starfsmannahóp Ráðhússins

9.4.2024

Arndis-LaraNýr stjórnsýslu- og upplýsingafulltrúi

Arndísi Lára Kolbrúnardóttir hefur verið ráðin sem í starf stjórnsýslu- og upplýsingafulltrúa og mun hún formlega hefja störf 1. júní næstkomandi. Arndís er okkur Hornfirðingum að góðu kunn og hefur látið til sín taka í sveitarfélaginu frá því hún flutti hingað árið 2016. Hún gaf meðal annars út Eystrahorn við góðan orðstýr, rekur Hafið, barinn okkar góða og hefur sinnt rannsóknarstörfum hjá rannsóknarsetri Háskóla Íslands, verkefnastjórnun í Nýheimum og stærðfræðikennslu í FAS ásamt annarri fjölbreyttri starfsreynslu

Arndís er viðskiptafræðingur með MLM gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á Verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Arndís tekur við starfi Bryndísar Bjarnason sem lætur af störfum 1. maí n.k. Bryndís sagði starfi sínu lausu í upphafi árs. Mig langar að nota hér tækifærið hér og þakka Bryndísi fyrir góð störf, ánægjulegt samstarf og vináttu allt frá því ég tók við starfi hjá sveitarfélaginu sumarið 2022.

Erla-OspStarfsmaður í móttöku

Erla Ösp Hafþórsdóttir hefur verið ráðin í afleysingu í móttöku í sumar en Róshildur Björnsdóttir er í fæðingarorlofi. Erla hefur þegar hafið störf en hún er listakona og hefur komið reglulega til Hafnar á síðustu árum. Hún hefur unnið í kvikmyndaverkefnum, sungið á tónlistar- og menningarviðburðum í bænum og einnig hefur hún verið með ýmis listræn sumarnámskeið fyrir börn og ungmenni.

GulliVerkefnastjóri á mannvirkjasvið

Nýlega auglýsti sveitarfélagið eftir verkefnastjóra á mannvirkjasvið og því miður náðist ekki að ráða í stöðuna. Sveitarfélagið hefur því samið við Gunnlaug Róbertsson um að sinna starfinu tímabundið í 50% hlutfalli sem verktaki fram á næsta haust. Núverandi byggingafulltrúi og sviðsstjóri mannvirkjasviðs Bartek Andresson Kass er í fæðingarorlofi til 15. maí nk.

Gunnlaug, eða Gulla, þekkjum við vel enda gegndi hann á árum áður stöðu skipulagsstjóra hjá sveitarfélaginu. Gunnlaugur er menntaður verkfræðingur og hefur starfað sem mannvirkjafulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði s.l. 4 ár.

Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá Gulla til starfa en í raun er þetta skammtímaviðbragð við alvarlegri stöðu, þar sem ekki hefur tekist að ráða í stöðuna. Við vinnum þó áfram fullum fetum að því að finna langtímalausn hvað þetta varðar.

Gulli er einnig farsæll formaður umhverfis- og skipulagsnefndar sveitarfélagsins og þess vegna munu störf hans og verkefni að taka mið af því til að forðast alla hagsmunaárekstra.

Rétt er að halda til haga að verkefnastjóri á mannvirkjasviði vinnur ekki að skipulagsmálum. En ef upp koma álitamál um hvort byggingaleyfi uppfylli skipulagsskilmála, er því ávallt vísað til nefndarinnar. Að öðru leiti er starf verkefnastjóra á mannvirkjasviði og nefndar alls ekkert að skarast.

Þau mál sem koma fyrir nefndina frá verkefnastjóra eru langoftast minniháttar og Gulli mun víkja þegar slíkt kemur upp.

Sigurjón Andrésson