Breytingar í Ráðhúsi - Nýtt og öflugt fólk til starfa
Nokkrar breytingar hafa verið á starfsmannahóp ráðhússins á síðustu misserum og langar mig að gera hérna grein fyrir þeim.
Anna Lilja Henrysdóttir tók við starfi fjármálastjóra hjá Sveitarfélaginu á haustmánuðum þegar Ólöf Ingunn Björnsdóttir lét af störfum á síðasta ári. Anna Lilja hefur lokið meistaranámi í hagnýtum fjármálum og hefur hún yfirumsjón með fjármálalegri stjórnun sveitarfélagsins. Við erum ákaflega heppin að hafa fengið Önnu til liðs við okkur. Anna Lilja og fjölskylda er flutt hingað til Hornafjarðar og hefur Jón Karlsson, eiginmaður hennar, tekið við þjálfun meistaraflokks Sindra í knattspyrnu fyrir komandi tímabil.
Jóna Benný Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem sviðstjóri Stjórnsýslusviðs. Jóna er Hornfirðingum vel kunn enda fædd og uppalin í Hornafirði. Jóna hóf störf í byrjun janúar.
Jóna Benný hefur lokið meistaranámi í lögfræði og er með lögmannsréttindi. Jóna mun meðal annars bera ábyrgð á mannauðs- og gæðamálum sveitarfélagsins ásamt því að ráðgefa og styðja aðra stjórnendur hjá sveitarfélaginu til faglegrar stjórnsýslu. Verkefnin eru fjölmörg og er reynsla hennar og þekking strax farin að nýtast okkur vel. Jóna Benný er einnig minn staðgengill.
Bartek Andresson Kass er nýr sviðsstjóri mannvirkjasviðs, ráðinn tímabundið til eins árs. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að mikið álag er á umhverfis og skipulagssviði en verkefnaálag þar hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Stöðugt auknar lagakröfur og stóraukin umsvif í sveitarfélaginu spila þar inn í. Með breytingunum er sviðinu skipt upp í umhverfis- og skipulagssvið og nýtt mannvirkjasvið. Með breytingunni færist starfsemi byggingafulltrúa, öll rekstrarverkefni og umsjón verklegra framkvæmda ásamt Hornafjarðarhöfn og slökkviliði, af umhverfis og skipulagssviði á nýtt mannvirkjasvið.
Bartek þekkjum við vel enda hefur hann verið afar farsæll í starfi sem byggingafulltrúi sveitarfélagsins síðastliðin ár. Bartek er verkfræðingur með meistaragráðu í byggingarverkfræði og sérhæfingu í samgöngumannvirkjum og umferðarverkfræði. Hann hefur einnig lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu.
Xiaoling Yu er nýr umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins. Hún tók til starfa á haustmánuðum og kemur hún í stað Stefáns Aspars Stefánssonar. Xiaoling hefur lokið meistaranámi frá Háskóla Íslands í umhverfisfræðum með áherslu á endurnýjanlega orku . Hún ber ábyrgð á umhverfismálum í sveitarfélaginu og mun gegna lykilhlutverki í umsjón og eftirfylgni í þeim fjölmörgu verkefnum sem tengjast málaflokknum, úrgangsmálum, grænu bókhaldi, innleiðingu hringrásarhagkerfis og umsjón með gæludýrahaldi svo eitthvað sé nefnt. Xiaoling er frá Kína og er frábær viðbót í fjölbreyttan hópinn.
Tjörvi Óskarsson var ráðinn sem verkefnastjóri starfrænna lausna og tækni síðasta vor. Tjörvi vinnur að stafrænni umbreytingu, vefþróun og hefur umsjón með upplýsingatæknimálum sveitarfélagsins ásamt samfélagsmiðlum og samskiptum við ýmsa þjónustuaðila sveitarfélagsins þegar kemur að tæknimálum. Tjörvi hefur lokið námi í kvikmyndagerð og margmiðlun og er langt kominn með BA nám í tölvunarfræði. Tjörvi var ritstjóri Eystrahorns um árabil og hefur fjölbreytta þekkingu og mun reynsla hans nýtast sveitarfélaginu vel í okkar stafrænu umbreytingu.
Þó það sé alltaf eftirsjá í góðu fólki gleðst maður á sama tíma þegar samstarfsfólk fær tækifæri á nýjum vettvangi og vill þróast í starfi. Það er mat mitt að okkur hafi þó tekist geysilega vel að fylla í skörðin og styrkja enn það frábæra teymi sem fyrir er í ráðhúsinu. Ég er sannfærður um að með þessum breytingum munum við ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins ásamt því að geta veitt enn betri þjónustu til íbúa og annarra.
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri