Covid-19 smit á Hornafirði
Í dag eru fjórir einstaklingar á Hornafirði í einangrun og 10 einstaklingar í sóttkví. Til allrar lukku eru allir þessir smituðu með væg eða engin einkenni, og óskum við þeim skjóts bata.
Meðal þeirra sem eru í sóttkví eru þrír starfsmenn í ráðhúsi sveitarfélagsins og þar á meðal Matthildur, bæjarstjóri. Smitin sem eru greind í sveitarfélaginu eru einangruð en nokkrir sem voru í tengslum við smitaða einstaklinga voru skimaðir. Vonandi hefur tekist að koma í veg fyrir frekari dreifingu með þessum aðgerðum.
Ráðhúsið er opið en þeir sem þurfa að hitta starfsfólk er beðið um að panta viðtalstíma í afgreidsla@hornafjordur.is eða í síma 470 8000. Áhaldahúsið hefur lokað fyrir heimsóknir og er fólk beðið um að hringja ef það á erindi þangað. Hjúkrunarheimilið Skjólgarður hefur einnig lokað fyrir heimsóknir næstu tvær vikur á meðan þessi bylgja gengur yfir með það að markmiði að vernda viðkvæma einstaklinga sem þar búa.
Það er mikilvægt að fólk í samfélaginu passi sig í umtali um þá sem eru svo óheppnir að smitast af þessari skæðu veiru, sendum þeim frekar fallegar stuðnings og batakveðjur. Slæmt umtal getur skapað hættu á að fólk með einkenni mæti ekki í sýnatöku, af ótta við fordóma samfélagsins. Verum góð við hvort annað, en samt með 2ja metra fjarlægð. Pössum vel upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir með handþvotti og sprittun.