Covid smitum fjölgar í sveitarfélaginu!

5.1.2022

Nýtt ár hefst með hvelli en smittölum fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð hefur nú fjölgað fyrstu daga ársins.

Það er ástæða til að minna íbúa á að halda yfirvegun þrátt fyrir að smitum sé að fjölga. Við getum sjálf gert heilmikið með því að halda uppi öflugum sóttvörnum, þvo og spritta hendur, nota grímur, forðast samneyti við marga og halda 2ja metra fjarlægð. 

Mikil áhersla hefur verið lögð á að halda skólastarfi gangandi bæði í leik- og grunnskólum. Það er gert í sveitarfélaginu með örlítið breyttu sniði þannig að hægt sé að uppfylla sóttvarnarreglur. Starfsfólk er hvatt til að nota grímur í starfi sínu og foreldrar sömuleiðis þar sem ekki er hægt að uppfylla 2ja metra fjarlægð. Þó smitum sé að fjölga þá virðist fólk veikjast minna sér í lagi þeir sem eru fullbólusettir. Áformað er að hefja bólusetningu barna á aldrinum 5-11 ára í næstu viku hér í sveitarfélaginu. Besta vörnin í þessari baráttu nú er bólusetning.

Smittölur fyrir Suðurland má finna á heimasíðu HSU en í dag eru 24 í einangrun á Höfn og 15 í dreifbýlinu. Þess má geta að einangrun hefur verið stytt niður í 7 daga eftir smit en þá eru einstaklingum heimilt að fara aftur til vinnu en fara varlega. 

Ég hvet ykkur íbúar til að standa saman í að ná þessari bylgju niður á ný með því að halda uppi öflugum sóttvörnum og halda yfirvegun!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.