Dagur kvenfélagskonunnar – 1. febrúar
Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1. febrúar 1930 og er því 95 ára núna í ár. Í sambandi Austur-Skaftfellskra kvenna, sem stofnað var árið 1947, eru fjögur aðildarfélög með um sjötíu kvenfélagskonum.
Þetta eru Kvenfélagið Tíbrá á Höfn, Kvenfélagið Vaka í Nesjum, Kvenfélagið Ósk í Suðursveit og Kvenfélagið Eining á Mýrum. Áður voru einnig starfandi kvenfélögin Grein í Lóni og Björk í Öræfum.
Fyrsta kvenfélagið sem stofnað var í Austur-Skaftafellssýslu var kvenfélagið Tíbrá á Höfn, en það stofnuðu 11 konur í íbúðarhúsinu Garði 8. febrúar 1924. Félagið setti m.a. á svið fyrstu leikritin á Höfn árið 1924 og Samband Austur-Skaftfellskra kvenna hafði forgöngu um stofnun elli- og hjúkrunarheimilis en auk þess hafa félögin staðið að fjölmörgum framfaramálum í sveitarfélaginu.
Mynd af konum í Kvenfélaginu Tíbrá sem komu saman í „samkomubragganum“ á Höfn 19. júní 1947.
Sveitarfélagið Hornafjörður sendir kvenfélögum og kvenfélagskonum kærar kveðjur í tilefni dagsins með innilegum þökkum fyrir þeirra óeigingjörnu störf í þágu samfélagsins í gegnum tíðina.