Endurskoðun á stefnu Hornafjörður, náttúrulega!

25.2.2025

Ný meginmarkmið og skýrari stoðir

Heildarstefna Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hornafjörður, náttúrulega!, gildir til ársins 2025. Nú er komið að endurskoðun stefnunnar og sú vinna þegar hafin. Markmiðið er að móta skýrari framtíðarsýn, tengja stefnuna betur við daglegt starf sveitarfélagsins og tryggja að hún sé lifandi leiðarljós fyrir allt starfsfólk sveitarfélagsins.

Nýheimar þekkingarsetur verður sveitarfélaginu áfram innan handar varðandi Hornafjörður náttúrulega!. Áætlað er að uppfærð stefna verði tilbúin fyrir lok árs 2025 og munu íbúar fá tækifæri til að koma með ábendingar og athugasemdir áður en hún verður fullmótuð.

Hvað felst í endurskoðuninni?

Í endurskoðunarvinnunni verður áhersla lögð á greiningu núverandi verkefna og markmiða sveitarfélagsins, auk þess sem horft verður til tækifæra til framfara. Sviðsstjórar munu vinna náið með starfsfólki og kjörnum fulltrúum til að meta hvar þörf er á breytingum og hvaða þætti skuli efla.

Breytt skipulag stefnunnar – skýrari stoðir

Ein af breytingunum sem lögð er til snýr að skipulagi stefnunnar. Núverandi stoðir – umhverfis- og loftslagsmál, hagsæld, félagslegir þættir og stjórnarhættir – þykja of fjarlægar daglegu starfi sveitarfélagsins. Til að skýra hlutverk sveitarfélagsins og gera stefnuna markvissari er lagt til að fækka stoðunum í þrjár megin stoðir:

  • Umhverfi (í stað umhverfis- og loftslagsmála) - skýrari tenging verður við þau verkefni sem sveitarfélagið vinnur að í umhverfis- og skipulagsmálum.
  • Fólk (í stað félagslegra þátta) - áhersla verður lögð á velferð, menntun, lýðheilsu og samfélagsþátttöku.
  • Þjónusta (í stað stjórnarhátta) - horft verður til þjónustu sveitarfélagsins og aðgengi að henni í víðum skilningi.

Með þessari breytingu verður hagsæld ekki lengur sérstök stoð heldur grunnmarkmið sem nær til allra stoðanna.

Næstu skref

Vinna við endurskoðun stefnunnar heldur áfram næstu mánuði og verður kynnt reglulega fyrir kjörnum fulltrúum og almenningi. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í samráðsvettvangi þar sem þeir geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri.