Erla Björg ráðin félagsmálstjóri

17.9.2019

Í vor auglýsti Sveitarfélagið Hornafjörður eftir umsóknum í starf félagsmálastjóra. Eftir ráðningaferlið var það niðurstaða bæjarráðs að Erla Björg Sigurðardóttir yrði ráðin. 

Erla er félagsráðgjafi MA frá Háskóla Íslands og sérfæðingur á sviði félagsþjónustu og áfengis og annars vímuefnavanda. Á tímabilinu 2002-2019 starfaði hún hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar í almennri félagsþjónustu, starfsendurhæfingu, forstöðumaður í búsetuúrræðum, við úttektir og greiningar á framkvæmd þjónustu og síðast liðin 5 ár sem deildarstjóri gæða og rannsókna á skrifstofu sviðsstjóra velferðarsviðs. Erla er aðjúnkt við félagsráðgjafadeild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Félagsmálastjóri ber ábyrgð á framkvæmd almennrar og sértækrar félagsþjónustu í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Starfið felur m.a. í sér vinnu við stefnumótun og áætlanir í þeim málaflokkum, sem undir hann heyra.

Félagsmálastjóri hefur yfirumsjón með félagslegri ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, málefnum barna og ungmenna ásamt málefnum fatlaðs fólks og heimaþjónustu auk umsjónar með húsnæðismálum. Félagsmálastjóri vinnur að auki með viðeigandi aðilum að málefnum aldraðra jafnframt því að taka þátt í vinnuhópum, ráðum, teymisvinnu ásamt öðrum fjölbreyttum faglegum verkefnum. Félagsmálastjóri er starfsmaður félagsmálanefndar og öldungaráðs og undirbýr fundi nefndarinnar og boðar þá.