Eyrún forstöðumaður Menningarmiðstöðvar

1.3.2017

Sumarið 2016 auglýsti Sveitarfélagið Hornafjörður eftir umsóknum í starf forstöðumanns Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Eftir ráðningaferlið var það niðurstaða bæjarráðs að Eyrún Helga Ævarsdóttir yrði fyrir valinu.

Eyrún Helga Útskrifaðist frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri með  B.S. gráðu í umhverfis- og skipulagsfræði árið 2009. Í náminu er lögð áhersla á samspil náttúru, manns og forma með námsgreinum á sviðum náttúruvísinda, skipulags, tækni og hönnunar, skipulagsmál sveitarfélaga, landslagsfræði, kortagerð, plöntunotkun, listsköpun, hönnun, byggingafræði, auk félagsfræðilegra þátta. Veitir námið hagnýtan undirbúning fyrir margvísleg störf hjá opinberum aðilum, sveitarfélögum og ráðgjafafyrirtækjum, auk umsjónar með náttúruverndar- og útivistarsvæðum.

Eftir skólalok vann Eyrún Helga að ýmsum verkefnum tengdum umhverfi, fagurfræðum og skipulagsmálum bæði hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum.

Árið 2012 tók Eyrún Helga við rekstri Byggðasafns Garðskaga sem  forstöðumaður og sá um daglegan rekstur safnsins, fjárhagsáætlanir og ýmiss verkefni sem féllu þar undir sem og viðurkenningu safnsins til Safnaráðs. Hún ritaði sögu Byggðasafns Garðskaga í bókina Byggðasöfn á Íslandi 2. Sá hún einnig um að búa til og móta starfstefnu safnsins, söfnunarstefnu og  að rita stofnskrá. Í starfi forstöðumanns sá Eyrún Helga um og sinnti með starfi sínu menningar og auglýsingarmálum sveitarfélagsins.  Eyrún Helga var tilnefnd af Þjóðminjasafni til setu í Minjaráði Suðurnesja og var í ráðinu í 2 ár.

Eyrún Helga á 3 börn Carmen Diljá 12 ára, Oliver Ævar 6 ára og Bellu Dís 2 ára og er búsett á Höfn.