Farsældarlögin, innleiðing og staða í Hornafirði

11.9.2023

Í byrjun árs 2022 tóku gildi lög á Íslandi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, oft kölluð farsældarlögin, https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021086.html. Markmið laganna er að stuðla að farsæld allra barna og að þau börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgengi að samþættri þjónustu við hæfi og án hindrana.

 

Í byrjun árs 2022 tóku gildi lög á Íslandi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, oft kölluð farsældarlögin, https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021086.html. Markmið laganna er að stuðla að farsæld allra barna og að þau börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgengi að samþættri þjónustu við hæfi og án hindrana. Í þessum lögum kveður við nýjan tón í vinnu með persónuleg mál þar sem beinlínis er ætlast til þess að ólíkir aðilar og ólíkar stofnanir vinni saman. Rétt er þó að taka strax fram að það er ekki gert nema með samþykki viðkomandi og rík áhersla lögð á persónuvernd. Þessi grein er kynning á því hvar við erum stödd í innleiðingu farsældarlaganna í Sveitarfélaginu Hornafirði og verður vonandi um leið hvatning til foreldra að nýta sér ákvæði þeirra telji þeir sig þurfa á því að halda.

Hefð fyrir samstarfi

Til að byrja með er rétt að benda á að í sveitarfélaginu er löng hefð fyrir samstarfi ólíkra stofnana þegar kemur að því að bæta stöðu barna. Hún birtist m.a. í þéttu samstarfi bæði leik- og grunnskóla við velferðarþjónustuna og heilsugæslu þegar málum hefur verið þannig háttað auk góðs samstarfs við lögregluna. Það eru einmitt þessar stofnanir sem verið er að hvetja til meira samtals og samstarfs í málefnum barna en einnig er lögð áhersla á að ná til þeirra aðila sem sjá um börnin í frístundum s.s. félagsmiðstöðva og íþróttafélaga. Við greiningu á stöðu okkar í byrjun árs 2022 kom einmitt í ljós að í auknu samstarfi við íþróttafélög og frístund væru sennilega mestu tækifærin til að auka farsæld barna.

Ýmislegt nýtt

Nýjum lögum fylgja ný hugtök og er önnur grein laganna fyrst og fremst orðskýringar til að tryggja að við skiljum hvort annað þegar við vinnum eftir lögunum. Hugtökin tengiliður og málstjóri eru t.d. tvö af þessum nýju hugtökum sem mikilvægt er að kynna fyrir börnum og foreldrum eftir því sem við á. Önnur hugtök sem eru eins og rauður þráður í gegnum lögin eru stigskipt þjónusta sem skiptist í 1. stigs, 2. stigs og 3. stigs þjónustu.

Þjónusta á 1. stigi er grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og tilheyra henni t.d. úrræði sem fallist geta undir snemmtæka íhlutun og stuðla að því að koma í veg fyrir vanda síðar meir og jafnvel að sjá vandann fyrir og koma í veg fyrir hann. Þessi þjónusta er í flestum tilfellum í höndum þeirra sem starf í nærumhverfi barns t.d. leik- eða grunnskólans eða þeirra sem sinna þjónustu þar s.s. talmeinafræðings, sálfræðings eða iðjuþjálfa. Ef þörf er á samþættri þjónustu (þjónusta þar sem margir aðilar innan eða utan skólans koma að) á 1. stigi er það tengiliður sem veitir fjölskyldunni upplýsingar og heldur utan um samskipti og tryggir að mál séu í farvegi.

Þjónusta á 2. og 3. stigi er einstaklingsbundinn og markviss stuðningur með það að markmiði að tryggja farsæld barns og fer það eftir eðli máls hvort málið telst á 2. eða 3. stigi. Mál á 2. og 3. stigi þarfnast sérhæfðari stuðnings sem veittur er í kjölfar faglegs mats og unnin er stuðningsáætlun til að tryggja samþætta þjónustu og eftirfylgd. Málastjóri heldur utan um mál sem eru á 2. og 3. stigi og sér um að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.

Tengiliður

Telji barn eða foreldri þörf á aukinni aðstoð sem ekki er sjálfkrafa fyrir hendi eftir samtal við deildarstjóra eða umsjónarkennara er viðkomandi bent á að tala við tengilið á viðkomandi stigi. Nú eru aðilar í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélagsins farnir að sinna hlutverki tengiliðar. Í Leik- og grunnskólanum Hofgarði í Öræfum er Áróra Gústafsdóttir tengiliður, í Leikskólanum Sjónahóli er það Þóra Jóna Jónsdóttir, í Grunnskóla Hornafjarðar Þórdís Þórsdóttir og í FAS Svala Björk Kristjánsdóttir. Heilsugæslan er auk þess með starfsmann sem sinnir tengiliðahlutverkinu t.a.m. í gegnum ungbarnavernd eða almenna heilbrigðisþjónustu og einnig getur tengiliður verið á velferðarsviði ef aðstæður eru þannig. Of langt mál væri að telja upp hlutverk tengiliðar hér en fyrir þá sem vilja kynna sér það betur er bent á heimasíðu barna og fjölskyldustofu https://www.bofs.is/farsaeld/tengilidir/.

Málstjóri

Þegar málefni barns eru af fjölþættum toga tekur málstjóri við keflinu af tengilið og heldur utan um málefni barns og leiðbeinir þeim og foreldrum um vinnulag. Málstjóri heldur utan um gerð stuðningsáætlunar og sér til þess að allir sem þurfa að koma að málefnum barns fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta sinnt skyldu sinni. Málstjóri vinnur áfram náið með tengilið og skólanum en einnig með öðrum aðilum sem geta verið á ýmsum stöðum í kerfinu allt eftir þörfum viðkomandi barns. Málstjórar eru á 2. og 3. stigi og eru oftast starfsmenn félagsþjónustunnar. Frekari upplýsingar um starf málstjóra má finna hér https://www.bofs.is/farsaeld/malstjorar/.

Þegar foreldri eða barn leitar eftir aðstoð og telur sig þurfa samþætta þjónustu hittast fulltrúar í farsældarteymi sveitarfélagsins og meta hvort þjónustan sé á 1., 2. eða 3. stigi og setja málefni viðkomandi barns í farveg eftir því í samráði við foreldra.

Fyrstu skrefin

Þrátt fyrir að búið sé að vinna að innleiðingu farsældarlaganna í tæp tvö ár er það fyrst nú sem verið er að gera breytingar í kerfinu sem eru sýnilegar út á við. Þetta er til að mynda fyrsta formlega kynningin frá Sveitarfélaginu og á næstu vikum munu skólarnir senda frá sér frekari kynningu.

Innleiðingarteymi farsældar hefur verið starfandi í tæp tvö ár og mikil orka hefur farið í að tala sig niður á sameiginlegan skilning og bestu leiðir en einnig innleiðing rafrænna lausna til að tryggja samfellu í upplýsingaflæði og örugga meðferð gagna. Það sem foreldrar munu e.t.v. mest verða varir við er að hér eftir ættu allar beiðnir að verða undirritaðar í gegnum íbúagátt. Á það t.a.m. við þegar óskað er eftir aðkomu sérfræðings að máli en líka þegar óskað er eftir miðlun upplýsinga eða samþættri þjónustu en hvortveggja er nauðsynleg forsenda fyrir aðkomu tengiliðar eða málstjóra.

Að lokum er rétt að benda á að þrátt fyrir að flest fagfólk fagni tilkomu farsældarlaganna er ekki um neina byltingu að ræða. Okkar von er þó að með því að vinna vel að innleiðingu laganna takist okkur að gera Sveitarfélagið Hornafjörð að enn barnvænna sveitarfélagi en það er núna. Að öll börn fái hér þjónustu við hæfi og að sem flest þeirra fái hana án þess að verða vör við íhlutun heldur nái þau að vaxa, dafna og blómstra á þann hátt sem þeim er einum lagið og nái í framhaldinu að verða heilbrigðir og hamingjusamir fullorðnir einstaklingar.

 

Innleiðingarteymi farsældar í Sveitarfélaginu Hornafirði