Fjárfest í innviðum og þjónustu við íbúa

14.12.2022

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar var lögð fyrir bæjarstjórn til síðari umræðu miðvikudaginn 14. desember. Fjárhagsáætlun næsta árs einkennist af forgangsröðun fjármuna til innviðauppbyggingar og þjónustu við íbúa. Gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða næsta árs hjá samstæðu verði jákvæð sem nemur 238 milljónum króna.

Rétt forgangsröðun

Að forgangsraða fjármunum líkt og áherslur fjárhagsáætlunar næsta árs bera með sér er rétt forgangsröðun að mati núverandi meirihluta. Fræðslu- og uppeldismál ásamt velferðarmálum eru eins og gengur, lang stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins en þegar við skoðum aðrar áherslur kemur eitt orð upp í hugann - innviðauppbygging.

Stærstu verkefnin á næsta ári

Við ætlum að ráðast strax í viðbyggingu við leikskólann Sjónarhól. Við munum gera átak í endurbótum á leikvöllum. Við ætlum að bæta götulýsingu og led ljósvæða sveitarfélagið og stórauka þannig öryggi fólks, ekki síst okkar barna. Við förum af fullum krafti í fráveituáfanga fjögur ásamt því að gera skurk í malbikun gatna og lagfæringu gangstíga. Einnig verður ráðist í bráðnauðsynlegt viðhald og endurbætur á ýmsum fasteignum bæjarins.

Þá eru ótalin önnur risastór verkefni eins og kostnaður sveitarfélagsins við nýtt hjúkrunarheimili sem hleypur á hundruðum milljóna. Kostnaður við nýja slökkvibifreið er áætlaður um 100 milljónir á árinu en ný bifreið kemur til okkar í lok árs og mun auka öryggi íbúa til muna. Þá gefst einnig tækifæri til að skipta út slökkvibifreið í Öræfum og bæta öryggi íbúa þar.

Það er líka vert að nefna hér nokkur mjög stór verkefni annarra aðila en sveitarfélagsins sem eru á stefnuskránni og gefa okkur tilefni til bjartsýni. Þar ber fyrst að nefna nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót sem mun gjörbreyta til batnaðar umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Vegurinn mun stytta leiðina til Hafnar um 12 km og fækka einbreiðum brúm um þrjár. Svo hefjast fljótlega framkvæmdir við stórt hótel á Reynivöllum í Suðursveit og síðast en ekki síst er nýr og glæsilegur miðbær á Höfn er á fullu í hönnunarferli.

Við leitum allra leiða til þess draga úr álögum

Samhliða miklum framkvæmdum er leitað allra leiða til að draga úr álögum á bæjarbúa og styðja við bakið á heimilunum. Þar ber hæst að fasteignaskatts hlutfall á heimili er lækkað úr 0,41% í 0,37% en álagning á atvinnuhúsnæði verður færð í það sama og hún var fyrir Covid og hækkar úr 1,49% í 1,65%. Vatnsgjald verður óbreytt og holræsagjald einnig. Sorpgjöld hækka skv. gjaldskrá um 10% enda ber okkur skylda til að taka skref í átt til þess að málaflokkurinn standi undir sér og er þetta viðleitni í þá átt.

Við setjum skipulagsmál í forgang

Þegar litið er til næstu fjögurra ára má sjá þann mikla sóknarhug sem er í sveitarfélaginu. Hafin er undirbúningur fyrir nýtt stórt íbúðahverfi á reitnum sem kallast ÍB5 norðan við tjaldsvæðið okkar, en eftir jarðvegskönnun á svæðinu hentar það svæði mun betur til að fara í skipulag strax en svæðið sem kallast ÍB2, á leirunum austanverðum. Íbúðir í byggingu hjá okkur fara ekki saman við íbúðaþörfina og þess vegna er mikilvægt að hraða eins og kostur er skipulagi stærri íbúðabyggðar.

Þriggja ára áætlun og þrjú mál

Þegar skoðuð er þriggja ára áætlun kemur í ljós að staða Sveitarfélagsins Hornafjarðar er sterk til lengri tíma litið, að því gefnu að okkur beri gæfi til að missa ekki augun af því mikilvæga hlutverki að einbeita okkur fyrst og fremst að kjarna rekstri samfélagsins. Varðandi þriggja ára áætlun langar okkur að nefna sérstaklega þrjá þætti:

  1. Sindrabær

Við ætlum að nýta tímann á næsta ári í að yfirfara þá hönnun sem til er að Sindrabæ og skoða hvort hún mæti okkar þörfum í dag. Við setjum stefnuna á framkvæmdir í Sindrabæ á árinu 2024.

  1. Framtíðar uppbygging íþróttamannvirkja

Hvað varðar uppbyggingu á íþróttamannvirkjum hefur umræða um þau mál verið lifandi og upplýsandi undanfarið. Nokkurrar óánægju hefur gætt vegna frestunar á framkvæmdum við nýja líkamsræktarstöð og erum við öll meðvituð um það og skiljum vel gremju sumra vegna þess enda um mikilvægt lýðheilsumál að ræða. Við höfum nú þegar hafið vinnu við að endurmeta forgangsröðun á framtíðaruppbyggingu á íþróttamannvirkjum í öllu sveitarfélaginu, ekki eingöngu í þéttbýlinu á Höfn. Í þessari vinnu er allt undir og ekkert hefur verið ákveðið né slegið út af borðinu. Við bindum vonir við að út úr þessari vinnu komi metnaðarfull áætlun til lengri tíma, sem sveitarfélagið ræður við og að sem mest sátt sé um meðal íbúa.

  1. Gamlabúð og Mikligarður

Í lok mars á næsta ári, 2023, mun leigusamningur við Vatnajökulsþjóðgarð um Gömlubúð renna út og hefur þjóðgarðurinn lýst yfir eindregnum vilja til að flytja allt sitt starfsfólk í Nýheima og vonandi byggja upp þar til lengri tíma. Ekki var vilji hjá þjóðgarðinum að færa starfsfólk sitt í Miklagarð og telja þau ásamt Framkvæmda- og fjársýslu ríkisins og Umhverfisráðuneytinu húsið alls ekki henta undir framtíðaraðsetur þjóðgarðsins. Fyrir okkur liggur þá að eiga samtal við samfélagið um framtíðarhlutverk Gömlubúðar og Miklagarðs og finna þessum verðmætu húsum okkar verðugt hlutverk til framtíðar.

Ábyrgur rekstur til framtíðar

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur blessunarlega verið vel rekið sveitarfélag og mun vera það áfram. Og það er þess vegna sem við getum lagt fram svo metnaðarfulla fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Áætlun þar sem áherslan er á innviði og þjónustu við íbúa, fjárhagsáætlun sem við getum öll verið stolt af.

Gauti Árnason forseti bæjarstjórnar

Eyrún Fríða Árnadóttir formaður bæjarráðs

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri