• Hornafjordur_grein

Fjárhagsáætlun 2024 – sveitarfélag í sókn

17.12.2023

Í þessari grein ætla ég að gera grein fyrir fjárhagsáætlun næsta árs, helstu framkvæmdum og nokkrum verkefnum, ásamt því að fjalla um útgönguspá ársins 2023 og líklegri niðurstöðu. 

Árið 2023 er okkur hagfellt og umfram áætlanir

Samkvæmt nýjustu útgönguspá sveitarfélagsins er rekstrarniðurstaða þessa árs í A og B hluta (samstæðu), áætluð 287 m.kr. en var 238 m.kr í áætlun. Skuldir og skuldbindingar 2.665 m.kr. en var áætlað 2.692 m.kr. Veltufé frá rekstri er 703 m.kr. en var áætlað 578 m.kr. og er þannig rúmum 20% meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er afar jákvæð niðurstaða, en veltufé sýnir hvaða fjármunir eru til staðar til greiðslu afborgana lána og til fjárfestingar eftir að reikningar vegna daglegs rekstrar hafa verið greiddir.

Minni lántaka en ráð var fyrir gert

Sveitarfélagið er í dag með opna lánalínu upp á 350 m.kr en áætluð lántaka á árinu var 450 m.kr. Við munum hins vegar ekki ganga á þessa lánalínu nema að takmörkuðu leiti. Ástæður þess eru bæði að tekjur hafa verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en svo náðum við ekki að framkvæma allt sem ráð var fyrir gert. Þar er helst að nefna að við fengum ekki tilboð í viðbyggingu við leikskólann Sjónarhól og afhending á nýjum slökkvibíl hefur frestast til næsta árs.

Lágt skuldahlutfall sveitarfélagsins er öfundverð staða

Afborganir langtímalána á árinu 2023 verða skv. spá 97 m.kr. voru áætlaðar 118 m.kr. Skuldir í hlutfalli af tekjum samstæðu munu í lok árs verða nokkuð undir 70%, en voru áætlaðar 71.4%. Í þessu sambandi má nefna að meðal-skuldahlutfall sveitarfélaga hér á landi er rúmlega 150% í A og B hluta, þannig að staðan hér í Hornafirði er öfundsverð.

Framkvæmdir ársins 2023 – fjárfest í innviðum og betri þjónustu

Á þessu ári gerði fjárfestingaráætlun ráð fyrir framkvæmdum upp á rúman milljarð. Fjárfestingar samkvæmt útgönguspá verða þó nokkru lægri, eða um 700 milljónir og eins og áður sagði munar þar mest um viðbygginguna við leikskólann og afhendingu á slökkvibíl, en líka að fráveituáfangi fjögur verður ekki boðin út fyrr en í byrjun næsta árs.

Helstu framkvæmdir ársins voru þessar. Við lukum við fráveituáfanga þrjú en hann var nokkuð dýrari en ráð var fyrir gert. Bæði þar sem jarðvegsvinnan var snúnari en áætlanir gerðu ráð fyrir og svo voru þeir brunnar sem keyptir voru dýrari en við áætluðum. Ráðist var í víðtæka malbikun og gangstígagerð á árinu, nýr leikvöllur byggður í Miðtúni og ný götulýsing prýðir nú allan bæinn hér á Höfn. Við sinntum viðhaldi okkar eigna af alúð á síðasta ári, fórum í endurbætur á Nýheimum og Heppuskóla, ásamt því að endurnýja þakið á slökkvistöðinni. Þá voru ýmsar lagfæringar í íþróttahúsinu og í sundlauginni. Svo má nefna nýtt og betra aðgengi að ráðhúsinu ásamt því að við erum í átaki að merkja okkar stofnanir og setja upp fallega vegvísa.

Fjárhagsáætlun 2024 – helstu forsendur

Útvarsprósenta og fasteignaskattar verða óbreyttir frá fyrra ári. Þá er vatnsgjald óbreytt og holræsagjald einnig. Sorpgjöld hækka skv. gjaldskrá enda ber okkur skylda til að láta málaflokkinn standa undir sér og er þetta viðleitni í þá átt. Hækkunin nemur 1% til 28%, eða 15% að meðaltali á heimili. Hækkun á gjöldum er misjöfn eftir samsetningu sorpíláta og munu íbúar geta skráð sína samsetningu í íbúagátt strax á nýju ári. Vegna ákvæða laga um að greitt sé fyrir allan úrgang munu fyrirtæki taka þátt í rekstrarkostnaði urðunarstaðar og móttökustöðvar með föstu gjaldi á atvinnuhúsnæði – gjaldið verður 35 þúsund kr. per atvinnuhúsnæði. Á umhverfis og skipulagssviði er einnig hækkun á byggingargjaldskrá eins og t.d. gatnagerðargjöldum og er sú hækkun aðeins umfram vísitölu. Hafa ber í huga að gatnagerðargjöld hafa ekki hækkað hér í mörg ár.

Á fræðslu og frístundasviði hækkuðu gjöld í sundlaugina fyrir almenning og var það m.a. gert til að vega upp á móti því að öryrkjar og eldri borgarar fengju frítt í sund áfram. Leikskólagjöld hjá okkur hækkuðu um vísitölu en þar sem skráningardagar voru teknir upp að þá má í raun segja að þau hafi staðið í stað, eða aðeins hækkað lítillega.

Á velferðarsviði var ákveðið endurskoða gjöld vegnar matar- og kaffiveitinga. Verið er að vinna að endurnýjun matarsamnings til eins og hálfs árs við Vigdísarholt og mun verð frá og með áramótum fylgja innkaupaverði. Ákveðið var að lækka verð á kaffiveitingum í 200 kr. fyrir kaffibollan og 500 kr. fyrir kökusneið og þannig einfalda verðskránna. Þá var ákveðið að hætta að bjóða uppá kaffi veitingar í júní, júlí og ágúst þar sem þátttaka var dræm yfir sumarmánuðina. Gjöld vegna félagslegrar heima þjónustu hækka í fyrsta skipti í nokkur ár og verður fullt gjald 2.245 kr. fyrir klukkustundina. Þá verða viðmiðunarmörk vegna afsláttar eða niðurfellingar einnig hækkuð. Áfram verður sá háttur á að ekki er borgað fyrir meira en tvær klukkustundir á viku. Aðrar gjaldskrár hækkuðu einungis sem nemur vísitöluhækkunum.

Auknar tekjur til marks um styrk atvinnulífsins

Sé litið til samstæðurnar, A og B hluta, er ráðgert að rekstrartekjur verði rúmir 4,2 milljarðar, en þær voru áætlaðar tæpir 3,8 á yfirstandandi ári. Tekjur samstæðu hækka því frá fyrri áætlun um rúmar 400 m.kr. eða 11,4% sem gefur góða vísbendingu um hversu öflugt atvinnulífið er hér í Hornafirði. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru áætlaðar 147 m.kr. og afskriftir 271 m.kr. Þannig verði rekstarniðurstaða næsta árs jákvæð sem nemur 447 m.kr. og áætlað er að verja hverri einustu krónu afkomunnar í aukna þjónustu við íbúa og reyndar meira til. Gangi áætlun okkar eftir ráðgerum við að veltufé samstæðu frá rekstri verði 868 m.kr. og að fjárfesting nemi rúmlega 1,3 milljörðum. Þá er fyrirhugað að greiða langtímalán niður fyrir 116 m.kr. en samhliða verði tekin ný lán að upphæð 460 milljónir króna. Áætlað skuldahlutfall samstæðu í fjárhagsáætlun næsta árs er 74,6%.

Framkvæmdaáætlun 2024 til 2027 – sveitarfélag í sókn

Í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir næstu ár birtist metnaður og trú á framtíðina. Við ætlum að ráðast í endurbætur á Sindrabæ sem hýsir Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu. Það er verkefni sem hefur verið frestað oftar en einu sinni og það er löngu kominn tími á að bæta aðstöðuna í Sindrabæ. Í fjárhagsáætlun 2024 og 2025 eru áætlaðar 320 m.kr. í verkið og erum við nú að klára að yfirfara hönnunargögn – stefnt er að því að bjóða verið út verkið á fyrri hluta næsta árs og ljúka framkvæmdum seinni hluta sumars 2025.

Búið að bjóða út viðbyggingu við leikskólann og verða tilboð sem bárust í verkið opnuð næsta miðvikudag. Um er að ræða framkvæmd upp á 300 m.kr. en jarðvinnan var kláruð í haust. Þá verður nýr leikvöllur byggður í Leiru-hverfinu á næsta ári.

Í fjárhagsáætlun gerum við ráð fyrir kostnaði við nýtt hjúkrunarheimili upp á 185 m.kr. bæði á næsta og þar næsta ári, en við höfum í lok þessa árs þegar greitt um 250 m.kr í verkið – nánar um það síðar.

Nýtt íþróttahús, slökkvibíll og fráveituáfangi fjögur

Í byrjun næsta árs munum við skipa byggingarnefnd fyrir nýtt íþróttahús sem rísa mun á miðsvæðinu hér á Höfn. Fyrsta verk nefndarinnar verður að heimsækja nokkur sveitarfélög sem hafa nýlega byggt íþróttahús en í húsinu verður meðal annars gert ráð fyrir aðstöðu fyrir fimleikadeild Sindra sem í dag þarf að sækja sínar æfingar í Mánagarð. Við ætlum einnig að hefja tafarlaust vinnu við að þarfagreina húsnæði okkar í Hofgarði, með það að markmiði að bæta aðstöðuna þar enn frekar, ekki síst m.t.t. afþreyingu og líkamsræktar íbúa í Öræfasveit. Á þessu ári var einnig ráðist endurbætur á félagsaðstöðunni á Hrollaugsstöðum og eru breytingarnar afar vel heppnaðar og gæða húsið miklu lífi. Þessi framkvæmd var af frumkvæði íbúanna og hefur tekist afar vel – vonandi tekst okkur á næsta ári að glæða Holt sama lífi. Þá er unnið að því að bæta lýsingu við félagsheimilin okkar í dreifbýlinu.

Á fyrri hluta næsta árs fáum við afhentan nýjan slökkvibíl sem mun stórbæta tækjabúnað slökkviliðsins og öryggi í sveitafélaginu. Þá munum bjóða út fyrri hluta af fráveituáfanga fjögur, en síðari hlutinn verður boðinn út árið 2025. Þá má geta þess einnig að allar sveitir eru nú ljósleiðaratengdar og næst á dagskrá hjá okkur er að skoða endurbætur á ljósleiðarakerfinu meta stöðu og rekstur þess.

Nýtt hverfi – ný verslunarmiðstöð

Það hefur verið skortur á framboði af lóðum í sveitarfélaginu. Við þessu hefur nú verið brugðist og mun nýtt og glæsilegt íbúahverfi rísa á reit sem kallast ÍB5 og er austan Hafnarbrautar norðan við tjaldsvæðið. Skipulag á svæðinu verður auglýst strax eftir áramót og verður fyrstu lóðum úthlutað í byrjun sumars. Um er að ræða spennandi verkefni og við finnum fyrir miklum áhuga á lóðum. Í tengslum við þetta verður fljótlega úthlutað lóð í jaðri nýja hverfisins austan við Mjólkurstöðina, undir nýja verslunarmiðstöð.

Endurskoðun aðalskipulags og íbúaráð í dreifbýlinu

Við erum á fleygiferð að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins og höfum átt mjög gagnlega fundi um allt sveitarfélagið í þeirri vinnu. Hægt er að fylgjast náið með framgangi vinnunnar á vefnum okkar Aðalskipulag Hornafjarðar (hornafjorduradalskipulag.is). Á þessu ári voru einnig skipuð íbúaráð í dreifbýli sveitarfélagsins og eru þau þrjú. Fyrir Nes og Lón, Suðursveit og Mýrar og Öræfi. Íbúaráðin fara vel af stað og bindum við í bæjarstjórninni miklar vonir lifandi samtal og ráðgjöf íbúa í dreifbýlinu.

Staðan er góð og framtíðin björt

Ágæti lesandi. Árið 2023 hefur verið okkur hagfellt. Sú sterka staða sem birtist í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er ekki sjálfgefin. Ekki þarf að leita langt til að finna sveitarfélög sem glíma við krefjandi rekstrarvanda. Við erum í stórátaki í uppbyggingu innviða, en fjölgun íbúa þarf áfram að vera á forsendum okkar öfluga atvinnulífs. Við stöndum vörð um grunnþjónustuna og ætlum að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í hvívetna. Við reynum eftir fremsta megni að stilla álögum í hóf og sýna ábyrgð í rekstri. Það eru tækifæri til sóknar fyrir okkur og framtíðin er björt.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri