Fjárhagsáætlun 2025 – samantekt bæjarstjóra
Fjárhagsáætlun Hornafjarðar fyrir árið 2025 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 12. desember 2024. Eftirfarandi er samantekt bæjarstjóra um áætlunina.
Fjárhagsáætlun 2025 – áframhaldandi uppbygging og kraftur
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2025 eru eftirfarandi:
- Í A og B hluta er ráðgert er að rekstrartekjur fyrir komandi ár verði samtals 4.411 m.kr. en þær eru áætlaðar 4.401 m.kr. í útkomuspá fyrir árið 2024.
- Rekstrargjöld A og B hluta á næsta ári eru áætluð 3.586 m.kr. en eru áætluð 3.461 m.kr. í útkomuspá 2024.
- Gangi þessi áætlun eftir ráðgerum við að samantekið veltufé samstæðu frá rekstri í A og B hluta verði 826 m.kr.
- Í áætlun ársins 2025 er rekstrarniðurstaða í A hluta jákvæð sem nemur 287 m.kr. og rekstrarniðurstaða í A og B hluta jákvæð sem nemur 392 m.kr.
- Þá er fyrirhugað að greiða langtímalán niður á árinu 2025 fyrir 133 m.kr. en samhliða verði tekin ný lán að upphæð 650 m.kr.
- Í fjárfestingaráætlun er fjárheimild fyrir 1.310 m.kr. fjárfestingu í A hluta og 240 m.kr í B hluta eða samtals 1.551 m.kr. í A og B hluta.
- Handbært fé í árslok áætlað um 109 m.kr.
- Skuldaviðmið kv. reglugerð 502/2012 er áætlað 52,6% og að skuldahlutfall verði 76,3% í lok ársins.
- Veltufé frá rekstri/heildartekjum er áætlað 18,7% eða 826 m.kr.
Metnaðarfull áætlun – skýr framtíðarsýn
Fjárhagsáætlun Hornafjarðar fyrir 2025 er metnaðarfull og sýnir árangur í rekstri sveitarfélagsins. Árangurinn er afrakstur góðrar vinnu starfsfólks sveitarfélagsins og skýrrar framtíðarsýnar bæjarstjórnar sem byggist á sýn til framtíðar, innviðauppbyggingu, betri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins, atvinnulíf og gesti.
Helstu forsendur – álögum stillt í hóf
Útsvar fyrir næsta ár er óbreytt eða 14.97% og á það líka við um fasteignagjöld. Holræsagjald og vatnsgjald er einnig óbreytt skv. gjaldskrá, en sorpgjöld hækka um 10%. Það er viðleitni í þá átt að láta málaflokkinn standa undir sér í samræmi við lög. Á árinu mun starfsfólk leita leiða til hagræðingar í málaflokknum. Aðrar almennar gjaldskrár hækka ekki umfram 3.5%, enda var skuldbinding frá sveitarfélaginu í tengslum við kjarasamninga í byrjun sumars, að gjaldskrár sem snerta barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu hækkuðu ekki umfram það.
Ytri skilyrði batna – óvissa um kjarasamninga
Áætlunin endurspeglar þann mikla kraft og uppbyggingu sem er hér í Hornafirði. Og þegar atvinnulíf blómstrar og verðmætasköpun er fyrir hendi, blómstrar mannlífið einnig og rekstur sveitarfélagsins verður kraftmeiri.
Efnahagsumhverfi sveitarfélagsins er þó krefjandi, ekki síst vegna nýrra væntanlegra kjarasamninga, en sem betur fer er verðbólgan að hjaðna sem skiptir rekstur sveitarfélagsins máli.
Engin lántaka á kjörtímabilinu – mikil fjárfesting í innviðum
Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað stöðugt frá því núverandi bæjarstjórn tók við vorið 2022. Engin lán hafa enn verið tekin á kjörtímabilinu og afgangur hefur verið af rekstrinum bæði í A og B hluta. Miklar líkur eru á að niðurstaða yfirstandandi árs verði einnig jákvæð og að ekki þurfi að ganga á þá lánaheimild sem er í núverandi fjárhagsáætlun, þrátt fyrir mikla fjárfestingu í fjölmörgum stórum verkefnum. En sveitarfélagið hefur á liðnu kjörtímabilinu framkvæmt mikið og ráðist í stórátak í innviðauppbyggingu.
Helstu fjárfestingar á árinu 2025
Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2025 er samtals 1.550 m.kr. þar af 1.311 m.kr. í A hluta og 240 m.kr. í B hluta.
Stærstu verkefnin í framkvæmdaáætlun á næsta ári eru:
- Glæsileg ný viðbygging við Leikskólann Sjónarhól er langt komin en verkefnið gengur vel og verður byggingin tilbúin á vordögum.
- Breytingar á Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu og samkomuhúsinu Sindrabæ, en þeim lýkur í ágúst á næsta ári og munu breytingarnar gjörbylta aðstöðu til hvers kyns samkomuhalds.
- Bygging nýs hjúkrunarheimilis á Höfn er langt komin en íbúar flytja þar inn á fyrri hluta næsta árs og þá verður hafist handa við að lagfæra núverandi húsnæði Skjólgarðs en stefnt er á að verkið klárist í heild í lok ársins 2025.
- Á árinu 2025 er áætlað að ljúka við mjög stórt fráveituverkefni sem unnið hefur verið að síðustu ár. Það er áfangi 4b sem tengir það sem eftir er af þéttbýlinu á Höfn inn á hreinsistöðina í Óslandi.
Önnur framkvæmdaverkefni á nýju ári eru meðal annars:
- Nýr slökkvi- og tækjabíll fyrir Slökkviliðið í Öræfum.
- Áframhaldandi lagfæringar og fyrirbyggjandi viðhald í húsnæði Grunnskóla Hornafjarðar ásamt því að hanna og fara í endurbætur á skólalóðinni.
- Nýr leikvöllur á Leirusvæðið með gangstígum og bættu aðgengi.
- Hönnun og endurbætur á húsinu Ekru í samstarfi og samráði við Félag eldri Hornfirðinga.
- Ný vél til að þjappa sorpi ásamt lagfæringum við móttökustöð sorps á Höfn (Gáruna).
- Endurbætur á fyrstu hæð og móttöku í ráðhúsi Hornafjarðar.
- Köld vélageymsla fyrir áhaldahúsið.
- Ýmsar lagfæringar og búnaðarkaup fyrir íþróttamiðstöðina og íþróttasvæðið á Höfn.
- Ný bryggja við bræðsluna en verkefnið er unnið í samvinnu við Vegagerðina og er á samgönguáætlun.
Svo ber að nefna verkefni eins og viðhald og endurnýjun göngustíga, gatnagerð og innviðauppbyggingu sem tengist þéttingalóðum, loftræstingu og lýsingu í félagsheimilinu Mánagarði og lagfæringum á tjaldsvæðinu á Höfn. Þá er áframhaldandi viðhald á reiðhöllinni á döfinni og aðstaða í félagsmiðstöðinni Þrykkjunni verður bætt.
Svo ber að nefna stóran áfanga sem er nýtt aðalskipulag sveitafélagsins sem staðfest verður á árinu 2025. Mikil vinna hefur verið lögð í skipulagið og aðkoma íbúa og annarra hagsmunaaðila verið virk.
Nýtt íþróttahús – leitum hagkvæmari leiða
Á árinu hefur verið starfandi stýrihópur um byggingu nýs íþróttahúss á Höfn. Hópurinn hefur unnið í ítarlega þarfagreiningu og átt víðtækt samráð við helstu haghafa og unnið með ráðgjafa frá Verkís og ASK arkitektum. Í byrjun nóvember barst okkur kostnaðargreining frá Verkís í framkvæmdirnar. Sú kostnaðargreining var í mínum huga óraunhæf fyrir lítið sveitarfélag, eða rúmir fjórir milljarðar. Verkefnið er nú í höndum mannvirkjasviðs sveitarfélagsins þar sem endurmat á forsendum, byggingaraðferðum og byggingamagni er unnin – mannvirkjasvið mun skila sínum tillögum til stýrihóps í upphafi nýs árs.
Í þessu sambandi ber að nefna að nýlega áttu ég fund með oddvita og sveitarstjóra í litlu sveitarfélagi á Suðurlandi en þau eru að byggja nýtt íþróttahús sem er af svipaðri stærð og við hyggjumst reisa. Kostnaðaráætlun fyrir það hús er samtals 798 milljónir króna sem segir okkur að það er hægt að reisa hagkvæmt og það er okkar markmið.
Sveitarfélagið Hornafjörður er með 2 milljarða króna í framkvæmdaáætlun frá 2025 til 2028 og markmiðið er að byggja nýtt íþróttahús og leggja gervigras á Jökulfellsvöll fyrir þá fjárhæð.
Nýtt og glæsilegt Hagahverfi – ný verslunarmiðstöð
Á bæjarráðsfundi sem haldin var 3. desember sl. var tekin ákvörðun um hvaða áfangi af nýju Hagahverfi fer í framkvæmd fyrst, og er það áfangi þrjú. Fljótlega munum við úthluta þar fyrstu lóðum. Þá er einnig búið að úthluta lóðinni að Hafnarbraut 60A, en á fyrri hluta næsta árs væntum við þess að fyrsta skóflustunga verði tekin að nýrri verslunarmiðstöð á lóðinni.
Aðhald í rekstri – ábyrgur leigumarkaður
Á kjörtímabilinu höfum við fylgt eftir aðhaldi og umbótaverkefnum í rekstri. Þar má helst nefna sölu úr eignasafni sveitarfélagsins á 18 íbúðum til Leigufélagsins Bríetar. Með sölunni lækkar rekstrarkostnað og umsýslu sveitarfélagsins umtalsvert, lán upp á um 170 milljónir króna eru yfirtekin af Bríet og ásamt því að félagið skuldbindur sig til uppbyggingar á nýjum leiguíbúðum í sveitarfélaginu. Þá eignast sveitarfélagið eignarhlut í Leigufélaginu Bríet að fjárhæð 280 milljónum króna.
Leigufélagið Bríet er óhagnaðardrifið, sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Markmið þess er að styrkja og auka öryggi á langtímaleigumarkaði með áherslu á landsbyggðina ásamt því að koma að uppbyggingu leiguíbúða á starfssvæði sínu.
Afar sterk fjárhagsstaða bæjarsjóðs
Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er mjög sterk og erum við hér í Hornafirði í öfundsverði stöðu hvað það varðar. Samhliða blómlegum rekstri höfum við stóraukið innviðafjárfestingar sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.
Nánari útlistun á áætluninni og forsendum hennar er að finna í kynningu sem fylgir hér neðar.
Áfram Hornafjörður!
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.
Meðfylgjandi – kynning bæjarstjóra:
Fjárhagsáætlun 2025 ásamt langtímaáætlun 2025 til 2028 lögð fram til samþykktar í bæjarstjórn