Flugsamgöngur til Hornafjarðar nauðsynlegar samfélaginu
Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið lagði fram drög að stefnu um almenningssamgöngur í síðustu viku. Markmið stefnunnar eru að stuðla að samþættu kerfi almenningssamgangna á sjó, landi og lofti.
Samhliða því var unnin góð greinargerð á almenningssamgöngum. Í greinargerðinni kemur fram að flugleiðin frá Reykjavík til Hafnar er styrkt af ríkinu um 100 milljónir á ári. Einnig er gerð greining á farþegafjölda á flugleiðinni og kemur í ljós að farþegum hefur fjölgað frá árinu 2012 og hlutfall niðurgreiðslu á hvern farþega er lægst miðað við aðrar ríkisstyrktar leiðir. Þrátt fyrir þetta er leiðin til Hafnar talin þjóðhagslega óhagkvæm, án frekari rökstuðnings, og er lagt til ríkisstyrkurinn verði lagður af. Rekstur almenningsvagna er einnig styrktur af ríki í gegnum Vegagerðina og þykir starfshópnum óeðlilegt að reka tvær ríkisstyrktar leiðir til Hafnar og bent á nauðsyn þess að tengja aksturleið frá Höfn við brothætta byggð í Vestur- Skaftafellssýslu. Jafnframt á Höfn að vera einn af tengistöðum í kerfi almenningssamgangna. Í samgönguáætlun 2019-2033 sem var lögð fyrir Alþingi á haustþingi voru lögð fram metnaðarfull markmið. Meðal þeirra var lagt fram það markmið að íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarinnar á um 3,5 klst. með samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi. Á sama tíma er lögð fram umrædd drög að stefnumörkun í almenningssamgöngum þar sem lagt er til að leggja af ríkisstyrk á innanlandsflugi til Hafnar og lögð áhersla á að styrkja almenningsvagna. Ofangreind áform og markmið fara ekki saman.
Ökutími frá Höfn til Reykjavíkur er 7 klst. í strætó miðað við tímaáætlun en flugtíminn er um 50 mín. með innritun er ferðatíminn um 1,5 klst. Það er ekki nokkur leið að uppfylla það markmið að ferðast til höfuðborgarinnar á 3,5 klst. ef aksturleiðin er farin. Ferð með strætó frá Höfn til Reykjavíkur kostar 13.630 kr. en flugferðin kostar 27.700 kr. fullu verði. Þeir sem greiða í stéttarfélög eiga þess kost að kaupa flugmiða á lægra verði eða frá um 12.000 kr. Til samanburðar er hægt að kaupa flugmiða frá Keflavík til Kaupmannahafnar á um 25.000 kr. báðar leiðir. Stjórnvöld hafa verið að skoða að fara svokallaða „skosku leið“ þar sem íbúar eiga kost á niðurgreiðslu á flugleiðum. Ekki er að finna frumvarp frá Alþingi um skosku leiðina og því óvíst hvernig framkvæmdin verður.
Fyrir Hornfirðinga er gríðarlega mikilvægt að almenningssamgöngur séu góðar. Sveitarfélagið er víðfeðmt og um langan veg að fara í næstu þéttbýliskjarna eða 200 km. á Kirkjubæjarklaustur og 100 km á Djúpavog. Ef sækja þarf þjónustu lækna, stjórnsýslu eða annað tengt atvinnulífinu Reykjavík næsti þjónustukjarni. Erfitt getur verið að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni en vel hefur tekist til á Hornafirði, það er gert með dyggri aðstoð flugsamgangna þar sem heimilislæknar, sérfræðilæknar, sálfræðingar, talmeinafræðingar og fleiri sérfræðingar koma til Hafnar flugleiðis og vinna um skemmri tíma á staðnum. Ekki er hægt að gera þær kröfur að allir þessir sérfræðingar geti haft fasta búsetu á Höfn þar sem íbúafjöldi er tæplega 2.400. Einnig eru flugsamgöngur mikilvægar fyrir þá sem vilja sækja menntun og endurmenntun. Fjarnám eykst með aukinni tæknivæðingu sem krefst þess að nemendur þurfa að ferðast til Reykjavíkur reglulega í námslotur.
Hornfirðingar treysta á að flugsamgöngur haldist tryggar þó flugfargjöld séu allt of há. Ef ríkisstyrkur verður aflagður má búast við því að flugfargjöld hækki verulega eða að flugleiðin leggist af. Heilbrigðisþjónustan treystir á sjúkraflug en fjöldi sjúkrafluga hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum eða um 100% frá árinu 2012. Umferð um Suðurlandsveg hefur aukist hratt á undanförnum árum og slysum sömuleiðis. Á síðustu tveimur mánuðum hafa t.a.m. verið tvö mjög alvarleg umferðaslys á þjóðveginum. Í umfjöllun fjölmiðla nú fyrir stuttu hafa vegir í Austur-Skaftafellssýslu verið kallaðir farmiði í dauðadalinn! Þannig hefur ástandið á vegum Suðurlands austan Víkur verið í vetrarfærðinni.
Á fundi bæjarráðs Hornafjarðar í gær 18. febrúar mótmælti bæjarráð harðlega þeim áformum sem koma fram í drögum að stefnu um almenningssamgöngur að leggja af ríkisstyrk á innanlandsflug til Hafnar í Hornafirði. Verði þetta að veruleika er veruleg hætta á að flugsamgöngur til Hafnar munu leggjast af. Bæjarráð leggur áherslu á að drögin verði skoðuð gaumgæfilega og í samhengi við aðra stefnumótun ríkisins, s.s. byggðaáætlun 2018-2024 þar sem lagt er til að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar og samgönguáætlun 2019-2033 þar sem lögð eru fram markmið um að ferðatími innanlands til höfuðborgarinnar verði aldrei meira en 3,5 klst. Einnig bókaði bæjarráð um að áhugavert væri að fá upplýsingar um hvað ríkið fær tilbaka í formi skatta og gjalda af flugleiðinni.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.