Fögnum fjölbreytileikanum

5.12.2018

Íslendingar búa vítt og breytt um heiminn og á Íslandi býr vaxandi hópur fólks af erlendum uppruna eins og við Horfirðingar höfum orðið varir við.

Með vaxandi þróun í átt að fjölmenningarsamfélagi felast mörg tækifæri til að auðga og styrkja það sem fyrir er með því að nýta þekkingu og læra af menningu íbúa af erlendum uppruna. Til þess að það gerist þurfum við að skapa vettvang til samskipta.

Það sem af er ári hefur Sveitarfélagið Hornafjörður í gegnum starf verkefnastjóra fjölmenningar unnið markvisst að því að skapa slíkar aðstæður og bæta þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. Hrundið hefur verið af stað víðtæku samstarfi við fjölmarga aðila með það að markmiði að stofna og bæta tengingar innan samfélagsins okkar og hvetja til samræðna milli menningarhópa. Í samstarfi við Rauða krossinn er boðið upp á heimanámsaðstoð fyrir grunnskólanemendur og sögustundir á bókasafninu þar sem lesið er fyrir yngri börn á mismunandi tungumálum. Bókasafnið mun auk þess verða með bókakassa frá Rauða krossinum og Ibby (The International Board on Books for Young People) með barnabókum á fjölmörgum tungumálum.

 Tungumálakaffi hefur farið af stað í Nýheimum í samstarfi við Fræðslunet Suðurlands sem einnig sér um íslenskukennslu og að aðstoða fólk við að fá metið nám sem það hefur lokið erlendis. Hugmyndin með tungumálakaffi er að skapa aðstæður fyrir fólk til að hittast og æfa sig í að nota íslensku til samskipta. Loppumarkaðurinn í samstarfi við Hafið er enn einn anginn af þessu starfi, en með honum er hugmyndin að skapa vettvang til félagslegra samskipta þar sem allir geta tekið þátt.

Í menntateymi Nýheima var fókusinn settur á menntun fólks af erlendum uppruna og mismunandi þarfir þeirra til náms. Leitað var til hóps fólks um að vera til ráðgjafar um hugmyndir að einingabæru nám t.d. í samstarfi við FAS, sem hentað gæti fullorðnu fólki af ólíkri menningu.

Loks er ótalið frumkvæði Grunnskóla Hornafjarðar um Hafnarhittinginn sem starfsfólk skólans stendur reglulega fyrir. Þessi hittingur hefur sannað gildi sitt sem vettvangur samskipta þar sem hann hefur verið mjög vel sóttur frá upphafi.

Loks er vert að geta þess að þann 12. desember næstkomandi munu fulltrúar Rauða kross deildar Reykjavíkur halda námskeið fyrir sjálfboðaliða í Nýheimum þar sem viðstaddir fá fræðslu um fjölmenningartengd verkefni.

Ragnhildur Jónsdóttir

Fræðslustjóri