Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar

25.10.2024

Kristín Vala Þrastardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar 

2-1-Sveitarfélagið auglýsti starfið laust til umsóknar í lok síðasta mánaðar og bárust þrettán umsóknir í starfið. Hagvangur sá um ráðningaferlið í samstarfi við Jónu Benný, sviðstjóra stjórnsýslusviðs sem Menningarmiðstöðin heyrir undir.

Kristín Vala er með BA próf í spænsku og ferðamálafræði frá Háskóla Íslands, MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og diplóma í opinberri stjórnsýslu frá HÍ.

Hún er úr Hafnarfirði en flutti í Sveitarfélagið Hornafjörð árið 2010. Hún starfaði fyrst um sinn í ferðaþjónustu en hefur síðustu átta ár verið verkefnastjóri Nýheima þekkingarseturs. Þar hefur hún öðlast víðtæka reynslu í þróun og stjórnun innlendra og erlendra samstarfsverkefna, styrkumsóknum og viðburðahaldi. Hún hefur í starfi sínu einnig sinnt stöðu byggðaþróunarfulltrúi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, komið að innleiðingu sveitarfélagsins á Hornafjörður, náttúrulega! og stýrir nú nýju þróunarverkefni, HeimaHöfn, sem snýr að valdeflingu, samfélagsþátttöku og byggðafestu ungmenna.

Kristín Vala hefur mikinn áhuga á samfélagsmálum, menningu og mannlífi hverskonar og erum við ákaflega heppin að fá hana til liðs við okkur. Reynsla hennar, þekking og menntun mun nýtast vel í starfsemi Menningarmiðstöðvarinnar.

Mun Kristín Vala hefja störf 1. nóvember næstkomandi en verður í hlutastarfi meðfram vinnu uppsagnarfrests hennar hjá þekkingarsetrinu. Eyrún, fráfarandi forstöðumaður, verður henni til halds og traust fyrst um sinn enda verkefnin mörg og starfsemin á breiðum grunni.

Á sama tíma og við bjóðum Kristínu Völu velkomna til starfa og hlökkum til framhaldsins þökkum við Eyrúnu kærlega fyrir samstarfið og vel unnin störf undanfarin ár.

Fréttin hefur verið uppfærð 29.10.2024