Forvarnir byrja heima
Undanfarnar vikur hafa stjórnendur skóla og félagsþjónustu staðið fyrir fundum með foreldrum nemenda í 6.-10. bekkjum Grunnskóla Hornafjarðar vegna niðurstaðna könnunar Rannsóknar og Greiningar á vímuefnaneyslu grunn- og framhaldsskólanemenda.
Niðurstöðurnar komu ekki vel út fyrir nemendur á Hornafirði, hvorki fyrir grunn- né framhaldsskóla. Svo virðist sem áfengisneysla sé meiri hjá hornfirskum ungmennum en gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum og ungmennin okkar virðast einnig neyta tóbaks og rafrettna í meiri mæli en annars staðar tíðkast. Nemendur í framhaldsskólanum, sérstaklega drengir, eru einnig líklegri til þess að sofa minna, borða óhollari mat og hreyfa sig minna en gengur og gerist. Hægt að nálgast skýrslur vegna nemenda grunnskólans hér.
Mesta athygli á fundunum vöktu svör barnanna við spurningunni: „Hver heldurðu viðbrögð foreldra þinna yrðu ef þú myndir drekka þig fulla/n.“ Einungis 76% nemenda í 10. bekk töldu að foreldrar þeirra yrðu algerlega eða mjög mótfallinn því að nemendur drekki sig fulla. Þetta gefur skýrt til kynna að við, foreldrar, skóli og samfélag erum ekki að senda börnunum okkar nógu skýr skilaboð um að við viljum ekki að þau drekki áfengi áður en lögbundnum aldri er náð og alls ekki í grunnskóla. Það skiptir engu máli hvaða skilaboð börn frá þjálfurum og kennurum ef foreldrar senda ekki þau skilaboð til barnanna sinna að þau samþykki ekki drykkjuna þeirra.
Besta leiðin til þess er einfaldlega að segja það skýrt og endurtaka það við hvert tækifæri og fylgjast vel með hvað börnin okkar eru að gera og með hverjum þau eru. Foreldrar þurfa einnig að taka höndum saman og koma í veg fyrir eftirlitslaus partý og ekki undir neinum kringumstæðum kaupa áfengi fyrir börnin okkar, enda er slíkt lögbrot og ýtir einungis undir áfengisneysluna.
Sumarið er sá tími sem margir unglingar taka fyrsta sopann eða gera áfengisneyslu hluta af sínu neyslumynstri. Ákveðnir viðburðir bjóða upp á meiri áhættu en aðrir og má þar sérstaklega nefna sjómannadagshelgina, Humarhátíð og verslunarmannahelgina. Það er sérstaklega mikilvægt að foreldrar séu vakandi, fylgist með börnunum og verji tíma með þeim, því stærsti einstaki forvarnarþátturinn er sá tími sem foreldrar verja með börnunum sínum.