Framkvæmd við Hornafjarðarfljót

11.4.2017

Bæjarstjórn telur ráðlagt að framkvæmdin við Hornafjarðarfljót verði boðin út í held svo verkið verði eins hagkvæmt og mögulegt er. 

Bókunin í heild sinni frá fundi bæjarstjórnar þann 7. apríl. 

"Nú liggur fyrir ákvörðun ríkisins að verja 200 milljónum í framkvæmdir við nýjan veg yfir Hornafjörð. Samgönguáætlun 2015 til 2018 gerði ráð fyrir að til framkvæmdarinnar yrði varið 1.000 milljónum árið 2017 og 1.000 milljónum á árinu 2018 og að áframhald yrði síðan á framkvæmdum 2019. Bæjarstjórn fagnar því að verkið muni fá framgang en harmar að ekki skuli farið eftir samþykktri samgönguáætlun varðandi framlög. Það lítur því út fyrir að framkvæmdahraði verði ekki eins og fram kemur í samgönguáætlun 2015 til 2018. Bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að þessar langþráðu samgöngubætur verði framkvæmdar eins hratt og mögulegt er. Til að verkið verði eins hagkvæmt og mögulegt er telur bæjarstjórn ráðlegt að framkvæmdin verði boðin út í heild. Gera má ráð fyrir að með þeim hætti nýtist þær 200 milljónir sem ætlaðar eru í verkið á þessu ári betur."