Fréttatilkynning vegna Covid smita á Hornafirði
Nú eru tvö virk kórónaveirusmit í sveitarfélaginu smitin greindust hjá einstaklingum í sömu fjölskyldu. Annar þeirra smituðu er kennari í grunnskólanum sem hefur leitt til þess að loka þurfti Grunnskóla Hornafjarðar í tvo daga á meðan unnið er að smitrakningu, þ.e. í dag og á morgun 24. – 25. september.
Lokunin hefur þá þýðingu að allir nemendur og starfsfólk eru í svokallaðri úrvinnslusóttkví og ber því að haga sér eins og um sóttkví sé að ræða. Í dag eru skólastjórnendur að vinna að því hörðum höndum að rekja ferðir viðkomandi kennara í samstarfi við sóttvarnarlækni og smitrakningarteymi ríkislögreglustjóra.
Þetta hefur töluverð áhrif á samfélagið í heild og því mikilvægt að við tökum málið föstum tökum. Af þeim ástæðum var strax í gærkvöldi tekin ákvörðun um að loka skólanum í tvo sólahringa. Það bendir margt til þess að nokkur fjöldi kennara muni þurfa að fara í sóttkví og sömuleiðis nemendur en það skýrist betur á morgun föstudag. Smitrakningarteymið er önnum kafið þar sem töluvert mörg smit hafa greinst á landsvísu undanfarna daga, því vitum við ekki hversu hratt gengur að vinna að rakningu. Það er þó fyrirséð að þetta mun hafa áhrif á skólastarf í næstu viku þó það liggi ekki fyrir á þessari stundu.
Það er mikilvægt að íbúar haldi ró sinni og vinni með skólastjórnendum og sóttvarnalækni. Við vekjum athygli á því að þó grunnskólabörn séu í sóttkví hefur það ekki áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi, einstaklingar í sóttkví eru ekki veikir og þ.a.l. ekki smitandi. Ég hvet ykkur til að lesa leiðbeiningar sem er að finna á heimasíðu Embætti Landlæknis. Þar er að finna leiðbeiningar á mörgum tungumálum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur beint því til íbúa landsins að takmarka eins og mögulegt er þá hópa sem þeir er að hitta. Við hjá viðbragðshóp almannavarna á Hornafirði tökum undir orð Víðis og hvetjum íbúa til að fara sér hægt á næstu dögum og huga sérstaklega vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum og fjarlægðarmörkum ásamt því að leita til heilsugæslunnar ef það finnur fyrir flensulíkum einkennum. Við erum öll í þessu saman og tökumst á við þessa áskorun með yfirvegun og sendum batakveðjur til þeirra einstaklinga sem eru með jákvætt smit.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri