Fréttir af störfum bæjarstjóra

11.9.2020

Fréttir af störfum bæjarstjóra síðastliðinn mánuð. 

Covid – Sóttkví

Önnur bylgja Covid barst til Hornafjarðar í ágúst mánuði. Hér hafa smitast fjórir einstaklingar þetta haustið sem varð meðal annars til þess að ég þurfti að fara í sóttkví í rúma viku ásamt nokkrum öðrum. Sem betur fer hafa smitin ekki náð að dreifa sér og enginn þeirra sem fór í sóttkví greinst með veiruna. Það er lærdómsrík reynsla að vera heima innan um aðra fjölskyldumeðlimi í sóttkví og það kennir manni hversu margir snertifletir eru í umhverfi hvers manns. Það er auðvelt að vinna heima og jafnvel friðsælla að mörgu leiti en það er mikilvægt sem bæjarstjóri að vera í góðu sambandi við íbúana og vera til viðtals. Símtækið var heitara en oft áður og vinnuaðstaðan verri, einbeiting á köflum erfiðari og fjölbreytnin minni. Ég gat þó lifað eðlilegu lífi að mestu, farið út að hlaupa eins og ég er vön fjarri mannaferðum og ekki með öðrum, borðað með fjölskyldunni í ákveðinni fjarlægð og verið í sambandi í gegnum tölvutækni. Við getum verið þakklát fyrir að þeir einstaklingar sem smituðust voru lítið veikir og það náðist fyrir frekari útbreiðslu. Höldum áfram á sömu braut, pössum upp á sóttvarnir og höfum samband við heilsugæslu ef við finnum fyrir flensueinkennum!

Fjármagn ríkisins 18 m.kr. vegna áhrifa Covid.

Sveitarfélagið mun fá 18 m.kr. frá íslenska ríkinu til að koma til móts við neikvæð áhrif Covid-19 á samfélagið. Áhrifin eru greinileg í samfélaginu en t.a.m. var atvinnuleysi í sveitarfélaginu 2% í febrúar, fór hæst upp í 23% í apríl en var í júlí 8,9% og áætlað atvinnuleysi í ágúst var 8,3%. Atvinnuástand hefur aldrei verið svo slæmt og sýna gögnin að 65% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru af erlendum uppruna. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga birti nýlega grein í Eystrahorni og á vefmiðlum sem unnin var úr ítarlegri greiningu á atvinnulífi á Suðurlandi. Þar var m.a. fjallað um umfang ferðaþjónustunnar í atvinnulífi sveitarfélaga á Suðurlandi og kom fram að árið 2019 starfaði ríflega þriðjungur (35,6%) vinnandi fólks innan ferðaþjónustunnar hér í Sveitarfélaginu Hornafirði og hefur ferðaþjónustustörfum fjölgað um 455% á 10 árum eða frá árinu 2009. Þegar skrúfað er fyrir straum ferðamanna eins og gerðist í mars til maí, hefur það gríðarleg áhrif á atvinnutækifæri. Sumarið varð síðan mjög gott þegar Íslendingarnir fóru á stjá og einnig erlendir ferðamenn en haustið lítur ekki allt of vel út nú þegar veiran er að breiðast hraðar út allt í kringum okkur og ferðafrelsi er takmarkað.

Nú höfum við skoðað hvernig best er að nýta þessar 18 m.kr. en áhersla ríkisins er að þær aðgerðir sem farið verður í skulu hafa að markmiði að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma og styrkja stoðir og stuðla að nýsköpun. Sveitarfélagið Hornafjörður mun leggja áherslu á þessa málaflokka og er horft til þess að setja af stað átaksverkefni í nýsköpun, stuðla að uppbyggingu aðstöðu sem nýtist fyrir „störf án staðsetninga“ og jafnframt að einblína á íbúa af erlendum uppruna og finna leiðir til að styrkja þá og efla þannig að þeir eigi greiðari leið að fjölbreyttari atvinnutækifærum. Það verður unnið að þessu í samráði við ráðgjafa SASS, Byggðastofnun og íslenska ríkið.

Jafnframt erum við í góðu sambandi við fulltrúa í ferðaþjónustunni og vinnum áfram með þeim í að greina ástandið og finna leiðir til að ná að takmarka skaðann með þeim leiðum sem eru færar bæði á vegum stjórnvalda, sveitarfélagsins og hjá fyrirtækjunum sjálfum. Í undirbúningi er að halda ráðstefnu fyrir ferðaþjónustuaðila 30. október til að þjappa atvinnugreininni saman og finna leiðir til að takast á við aðstæður í samfélaginu.

Stefnumótun og innleiðing heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna

Sveitarfélagið hefur unnið að gerð stefnumótunar undanfarna mánuði. Sú vinna er langt komin og var meðal annars gerð þjónustukönnun á meðal íbúa í sumar sem við munum kynna betur með greinarskrifum á næstunni. Mig langar þó að tæpa á helstu niðurstöðum hér. Þegar spurt var um þjónustu voru 44% ánægðir með þjónustuna, 38% þótti hún í meðallagi og 18% þótti þjónustan slök. Þegar íbúar voru spurðir hvernig þeim líkaði að búa í sveitarfélaginu líkaði 78% íbúum það vel, 17% í meðallagi og 5% líkaði það illa. Það er ljóst að íbúar þekkja lítið til heimsmarkmiðanna en 44% þekkja þau lítið eða ekkert. Helstu málaflokkar sem íbúar vilja leggja áherslu á eru í þessari röð voru þjónusta við íbúa, atvinnumál, íbúalýðræði, sjálfbærni og umhverfismál og skólamál. Einnig fengust fjölmörg svör í skrifuðu máli sem nýtast vel inn í stefnumótunina. Næstu skref er að kynna drög að stefnumótuninni fyrir nefndum sveitarfélagsins og í kjölfarið verður stefnan kynnt íbúum til umsagnar. Vonir standa til að ljúka vinnunni í október og þá hefst innleiðing stefnunnar.

Skipurit sveitarfélagsins

Nýtt skipurit var samþykkt í sumar í bæjarráði og bæjarstjórn. Breytingin felur í sér einföldun á skipuriti og fækkun sviða. Markmiðið er að gera stjórnsýsluna skilvirkari og einfaldari. Nú erum við að hefja innleiðingu á skipuritinu með kynningu fyrir starfsmenn. Flestar stofnanir eru með starfsmannafundi skipulagða á næstunni og förum við Sverrir mannauðs- og gæðastjóri inn á alla fundi til að fjalla um skipuritið, jafnlaunavottun, stefnumótunina o.fl. Viðbrögðin hafa verið góð fram til þessa og nú liggur fyrir að teikna upp skipurit fyrir hvert svið og móta verkferla og verkaskiptingu fyrir hvert þeirra. Jafnframt hef ég fundað með sviðsstjórum þar sem farið er yfir þessar breytingar sem og önnur mál.

Árshátíð sveitarfélagsins

Hætt hefur verið við árshátíðina þetta árið af augljósum ástæðum. Tekin var ákvörðun í bæjarráði um að nýta fjármagnið í þágu starfsfólks. Ákveðið var að allir starfsmenn fá 10.000 kr. gjafabréf. Gjafabréfið verður hægt að nýta til kaupa á veitingum, gistingu eða afþreyingu í sveitarfélaginu. Nánari útfærsla er í vinnslu hjá starfsmönnum. Í gær sendi ég póst á allt starfsfólk sem þeim eru færðar þakkir bæjarráðs fyrir þeirra störf í erfiðum aðstæðum sem skapast hafa í kringum Covid faraldurinn. Starfsfólk er mjög þakklát og ánægt með gjafabréfið.

Fréttir af framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins

Framkvæmdir eru á áætlun. Verið er að ljúka samningagerð við verktaka vegna endurbóta á Víkurbraut 24 sem mun hýsa starfsemi félagsmálasviðs og heimaþjónustudeildar. Einnig er verið að ljúka samningum við verktaka sem mun taka að sér skipti á þaki í Miklagarði og klæðningu á bakhlið hússins. Framkvæmdum er að ljúka í Vöruhúsinu en það verður tilbúið um næstu mánaðarmót, aðstaðan í Vöruhúsinu er því að verða til fyrirmyndar. Framkvæmdir við Hreinsivirki hafa staðið yfir um allnokkurt skeið og nú sér fyrir endan á þeim. Nú standa yfir prófanir á búnaði hreinsivirkisins og fljótlega verður hægt að vígja það með formlegum hætti. Vinna við varnargarð út í Einholtskletta gengur nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Í undirbúningi eru framkvæmdir við Hafnarbraut en stefnt er að því að bjóða verkið út á næstu vikum. Margir bíða eftir því að framkvæmdir hefjist við byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Nú er unnið að því að endurskoða kostnaðaráætlanir og greina frávik frá upphaflegum áætlunum. Vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir þar nú á allra næstu vikum. Þá er unnið að lagningu ljósleiðara í Nesjum samhliða hitaveituframkvæmdum RARIK en það verkefni hefur tafist. Jafnframt er unnið að undirbúningi lagningu ljósleiðara í Lóni, líklega fer sú framkvæmd af stað á nýju ári.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri