Fréttir af störfum bæjarstjóra
Það helsta af störfum bæjarstjóra síðastliðinn mánuð.
Strax eftir síðasta fund bæjarstjórnar fyrir um mánuði síðan fór ég í tæplega viku langt frí þar sem ég skellti mér til New York í fermingarferð með dóttur minni. Það var mjög ánægjuleg ferð í alla staði og gott frí. Það er lærdómsríkt að heyra hvernig aðrir hafa t.a.m. tekist á við Covid veiruna. Alls staðar þurftum við að framvísa bólusetningarskírteini til að geta borðað inni á veitingastöðum, grímuskylda í verslunum og almenningssamgöngum. Búið er að útbúa upphitað útisvæði við marga veitingastaði fyrir óbólusetta en hitastigið í New York er nokkuð svipað og hjá okkur á þessum árstíma! Það var merkilegt að heyra frásagnir frá manni sem sagðist hafa staðið einn ásamt öðrum manni á miðju Times Square sem er líklega einn fjölmennasti ferðamannastaðurinn í borginni, það minnir á bókina „Palli var einn í heiminum“. Borgin fór ansi illa út úr Covid í upphafi faraldurs en þeir náðu svo góðum tökum á útbreiðslunni. Það er mikill bólusetningaráróður þar sem íbúum eru boðnar gjafir fyrir að mæta í bólusetningu. Ferðalagið gekk vel þó það þyrfti skimun fyrir brottför, vottorð og skimun eftir heimkomu, líklega er þetta bara nýi ferðamátinn í heiminn til að geta lifað með þessari veiru.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – samstarfshópur sveitarfélaga – ég hef átt vikulega fundi með samstarfshóp nokkurra sveitarfélaga um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þar er Sveitarfélagið Hornafjörður í hópi sveitarfélaga sem eru nokkuð vel á veg komin í innleiðingu heimsmarkmiðanna en þau eru Kópavogur sem er leiðandi í þessari vinnu, Hafnafjörður, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Skútustaðahreppur og Þingeyjasveit, Skaftárhreppur og Fjarðarbyggð. Gefinn hefur verið út verkfærakista sveitarfélaga á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hjálpar okkur við innleiðinguna.
Sveitarfélagið er nú með fullmótaða stefnumótun og aðgerðaráætlun til að fylgja stefnumótuninni eftir og má lesa frétt um það á heimasíðu sveitarfélagsins. Fundirnir hafa verið mjög gagnlegir og eru sveitarfélögin að deila aðferðum, hvaða mælikvarðar eru notaðir, kynningarefni og ýmsum verkefnum sem eru í vinnslu. Jafnfram kemur fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar áform um að halda innleiðingunni áfram, setja upp sameiginlega mælikvarða fyrir sveitarfélög og fleira. Nú er í vinnslu að kynna stefnu Sveitarfélagsins Hornafjarðar betur fyrir starfsmönnum og íbúum og auðvitað innleiða stefnuna af krafti.
Kynningarfundur fjárhagsáætlunar var haldinn í fjarfundi í annað sinn á tveimur árum vegna hertra sóttvarnarráðstafana. Frekar dræm mæting var á fundinn og litlar en góðar umræður. Fjarfundir hafa bjargað stjórnsýslunni og mörgum vinnustöðum í gegnum heimsfaraldurinn en oft er nauðsynlegt að hitta fólk augliti til auglitis. Mætingin gefur tilefni til að boða til annars fundar síðar, spjallfundar um bæjarmálin, þar sem íbúar geta skráð sig til þátttöku og þannig hægt að halda utan um mætinguna í samræmi við sóttvarnarreglur. Það er mikilvægt að geta átt góð samskipti við íbúa í persónu og hlusta á hvað þeirra áherslur og skoðanir varðandi sveitarfélagið.
Fundir með stjórnendum sveitarfélagsins og með starfsmönnum ráðhúss – mánaðarlega funda ég með sviðsstjórum og annan hvern mánuð með forstöðumönnum sveitarfélagsins. Fundir forstöðumanna eru stærri fundir eða 15 manns þegar full mæting er á fundina. Undanfarin tvö ár hafa fundirnir nánast alfarið verið haldnir á teams og verða þeir oft markvissari þannig en það kemur stundum niður á umræðum. Ég kynnti fjárhagsáætlun og stefnumótun fyrir hópunum ásamt því að ræða það helsta sem viðkemur stjórnun. Í haust var auglýst eftir mannauðsstjóra eftir að Sverrir lét af störfum en ákveðið var að fresta ráðningunni. Nú hefur sveitarfélagið gert samning við Attentus um „mannauðsstjóra að láni“ sem mun aðstoða sveitarfélagið í að vinna starfsmannastefnu og starfsmannahandbók þar sem allir ferlar sem tengjast mannauðsmálum verða skoðaðir. Við Ólöf áttum fyrsta fund með ráðgjöfunum í vikunni og hefst vinnan í næstu viku. Vonandi verður hægt að kynna fyrstu gögn fljótlega í janúar.
Íbúakosning vegna aðal- og deiliskipulaginu þétting byggðar – ég hef verið í samskiptum við dómsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og Þjóðskrá Íslands til að undirbúa íbúakosninguna. Við vorum farin að undirbúa hefðbundar staðkosningar og stefnan að halda þær um miðjan janúar. Þar sem ný kosningalög taka gildi 1. janúar 2022 flækir það málin varðandi staðbundnar kosningar. Fyrsti mögulegi kjördagur væri þá 12. febrúar á svipuðum tíma og öryggisúttekt á rafrænu kosningakerfi lýkur en það er Þjóðskrá Íslands sem tryggir kerfi sem hægt er að nýta til að framkvæma rafrænar kosningarnar. Það er því stefnan að halda rafrænar íbúakosningar á ný og þá vonandi um mánaðarmótin febrúar – mars 2022. Á fundi bæjarstjórnar í dag er verið að úthluta síðustu lóðinni á Júllatúni og því einungis þrjár lóðir eftir til úthlutunar á Dalbrautinni. Það er því mikilvægt að fjölga fljótt lóðum svo hægt sé að anna eftirspurn eftir lóðum.
Hjúkrunarheimili – í síðustu viku sendu íbúar á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði opið bréf til heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar Íslands. Ég ætla að fá að vitna í bréfið:
„Við vitum ekki hvort þið áttið ykkur á því við hvaða aðstæður við búum og hversu íþyngjandi þetta er fyrir okkur? Hér búum við öll nema tveir einstaklingar í tvíbýli með sameiginlegu baðherbergi með öðrum heimilismönnum. Herbergisfélagar okkar eru í fæstum tilfellum makar okkar eða nánir vinir frá fornu fari. Þessir tveir einstaklingar sem hafa sérbýli deila salerni án sturtu. Hér er rými til einkalífs það sama og ekkert. Ef þarf að veita okkur persónulega þjónustu varðandi hreinlæti, lyfjagjafir, sáraumbúnað eða meðferðasamtöl er aðeins tjald á milli okkar og nágrannans í næsta rúmi.“
Ég tek heilshugar undir hvert orð sem þarna kemur fram og finnst afar leitt að málið sé í þessum farvegi og þekki vel til aðstæðna á hjúkrunarheimilinu af mínum fyrri störfum og veit að hún er ekki boðleg. Það hefur verið beðið eftir nýju hjúkrunarheimili síðan fyrsti áfangi reis 1996 og var ég vongóð um að nýtt hjúkrunarheimili væri risið undir lok kjörtímabilsins. Það verðu hins vegar ekki raunin, staðan í dag er sú að unnið er með hönnuðum og verktökum sem buðu í verkið að því að ná kostnaði við bygginguna niður en lægsta tilboðið var langt yfir kostnaðaráætlun. Það má deila um hvort sú áætlun hafi verið rétt og að tekið hafi verið tillit til landfræðilegrar stöðu okkar hér á Hornafirði. Ég er vongóð, leyfi mér það, um að þeim takist að ná kostnaði nægilega langt niður svo hægt verði að fá framkvæmdina samþykkta hjá Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Bæjarstjórn hefur ekki staðið í vegi fyrir þessari framkvæmd þvert á móti.
Þar sem þetta er síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir jól þá vil ég nota tækifærið að óska ykkur öllum góðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri