Fréttir af störfum bæjarstjóra

14.1.2022

Fréttir af störfum bæjarstjóra síðastliðinn mánuð.

Farsæld barna – innleiðing

Undirbúningur er nú formlega hafinn á innleiðingu nýrra laga um farsæld barna. Undir lok árs var tekin ákvörðun um að fá ráðgjafa til liðs við sveitarfélagið í greiningarvinnu og einnig til að leiða vinnuna áfram fyrstu skrefin. Samið hefur verið við RR ráðgjöf sem hefur unnið m.a. með Reykjanesbæ í innleiðingarvinnu. Löng hefð hefur verið fyrir víðtæku samráði í málefnum er snerta skóla, velferð og heilbrigði hér í sveitarfélaginu ekki síst vegna þeirrar sérstöðu sveitarfélagsins þegar rekstur heilbrigðis- og velferðarþjónustu var á ábyrgð þess. Sú samvinna sem skapaðist á þeim tíma hefur haldist en með tilkomu laganna er þörf á að skerpa á skilgreiningum og verklagi í samræmi við lögin. Nú er búið að skipa verkefnahóp sem mun halda utan um þessa vinnu í samstarfi við ráðgjafana. Samhliða þessu fylgir uppstokkun á fyrirkomulagi í kringum barnaverndina en það er í skoðun hvernig það verður leyst en ljóst er að leita þarf til annarra sveitarfélaga með samstarf um barnavernd vegna þeirra ákvæða um samsetningu fagmenntaðra starfsmanna og kröfur um starfsreynslu sem koma fram í lögunum.

Innleiðing heimsmarkmiðanna

Sveitarfélagið tekur þátt í samstarfi sveitarfélaga að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Haldnir voru 5 fundir í nóvember og desember sem ég tók þátt í. Þátttökusveitarfélögum var skipt upp í tvo hópa, og tilheyrir Hornafjörður þeim sem eru komin nokkuð vel áleiðis í innleiðingu heimsmarkmiða. Kópavogur er það sveitarfélag sem er lengst komið í þessu ferli og er leiðandi í vinnunni. Heimsmarkmið 17 gengur út á samvinnu um heimsmarkmiðin og eru sveitarfélögin meira en viljug til að deila upplýsingum, verkefnum og hugmyndum. Hagstofan vinnur nú að því í samstarfi við forsætisráðuneytið að leggja fram mælikvarða sem nýtast sveitarfélögum og er von á niðurstöðu þeirrar vinnu fljótlega. Á síðasta fundi samráðshópsins fyrir jól fengum við kynningu á starfsemi Votlendissjóðs, Landgræðslunni, Umhverfisstofnun og fleirum þar sem bent er á leiðir til að draga úr losun, bindingu kolefnis og kortlagningu losunar. Hjá sveitarfélaginu er nú verið að kortleggja losun þannig að við getum haft ákveðin viðmiðunarpunkt vegna aðgerða.

Upphafsfundur endurskoðunar og stjórnsýsluskoðun

Nú þegar búið er að samþykkja fjárhagsáætlun þá hefst vinna við endurskoðun vegna ársreikninga sveitarfélagsins. Við Ólöf sátum hefðbundinn upphafsfund með endurskoðendum í desember og vinna er hafin við gerð ársreiknings og endurskoðun. Ég sat einnig árlegan fund með fulltrúa KPMG þar sem stjórnsýsluhættir sveitarfélagsins eru endurskoðaðir. Það var ánægjulegt að geta leyst úr athugasemd sem hefur verið gerð síðustu 10 ár sem varðar gjaldskrár fráveitu og vatnsveitu á síðasta fundi bæjarstjórnar í desember voru þessar gjaldskrár samþykktar. Markmið með stjórnsýsluskoðuninni er að tryggja að farið sé að lögum við afgreiðslu mála, sveitarfélagið stendur sig vel hvað það varðar og athugsemdir smávægilegar.

Almannavarnanefnd

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra var með sameiginlegan fund með öllum viðbragðsaðilum í sveitarfélaginu og samtals mættu 30 á fundinn. Efni fundarins var að kynna starfsemi deildarinnar, segja frá helstu verkefnum og áætlunum. Starfsemin hefur verið að eflast undanfarin ár og betra skipulag á verkefnum sem tengjast almannavörnum. Einnig hafa almannavarnir spilað lykilhlutverk í sóttvarnaraðgerðum vegna Covid faraldursins og einnig í tengslum við eldgosið á Reykjanesi á síðasta ári.

Dýpkun Hornafjarðarhafnar

Dýpkun innan Hornafjarðarhafnar var flýtt vegna loðnuvertíðar en samkvæmt áætlun átti að dýpka næsta sumar. Of grunnt var orðið við loðnubryggjuna og því mikilvægt að bregðast skjótt við þeim aðstæðum. Vegagerðin hefur yfirumsjón með dýpkun innan hafna og var ákveðið að semja við Dýpkunarfélagið Trölla ehf. um framkvæmdina. Í undirbúningi var að bjóða út verkið til næstu ára en vegna tímapressu var nauðsynlegt að leysa dýpkunarmál strax í nóvember. Trölli hefur nú lokið við framkvæmdina en þeir luku við verkið í byrjun desember og gekk það vel.

Jólavikan

Síðustu vikuna fyrir jól gerði ég mér ferð í Suðursveit og Öræfin ásamt Brynju D. Ingólfsdóttur sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs. Við skoðuðum framkvæmdir í Hrollaugsstöðum, hittum ábúendur á Hala torfunni, hittum landeigendur í Hofi vegna lóðanna í Borgartúni og hittum Önnu Maríu í Freysnesi. Ferðin var gagnlega og veðrið eins og best var á kosið.

Vikan nýttist svo í frágang ýmissa mála, jólakortaskrif og dreifingu jólakorta á stofnanir. Ég tók mér síðan frí yfir hátíðirnar eða til 3. janúar.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.