Fréttir af störfum bæjarstjóra
Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri greinir frá störfum sínum síðast liðinn mánuð.
Stríð í Úkraínu er efst í huga mínum þegar ég sest niður við þessi skrif. Hver hefði trúað því að stríð mundi brjótast út árið 2022! Heimurinn er í áfalli yfir atburðum síðustu vikna á þeim hryllingnum sem dynja yfir heila þjóð. Bæjarráð fjallaði um ástandið á fundi sínum í vikunni og fól starfsfólki að kanna hvaða innviðir eru til staðar í sveitarfélaginu til að geta tekið á móti flóttamönnum frá Úkraínu. Ég hef nú þegar fengið símhringingar og tölvupósta frá íbúum ásamt því að skrifað er á vefmiðlana um leiðir fyrir sveitarfélagið til að taka á móti flóttamönnum. Mikill húsnæðisskortur er í sveitarfélaginu en þrátt fyrir það eru margir tilbúnir að opna heimili sín fyrir fólki í neyð. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur skipað sérstakt aðgerðateymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu. Teymið fer með yfirstjórn aðgerða og vinna að skipulagningu á móttöku fólks frá Úkraínu. Þá er ráðgert að opnuð verði sameiginleg rafræn gátt fyrir tilboð um aðstoð svo tryggja megi yfirsýn og meta þörf og eftirspurn. Sérstaklega á það við um tilboð um húsnæði til skemmri eða lengri tíma. Nú þegar hefur Fjölmenningarsetur hafið skráningar á öllu húsnæði fyrir fólk á flótta á þessari síðu.
Kjördæmavika þingmanna Suðurlands
Var haldin rafræn að þessu sinni með öllum sveitarfélögum á Suðurlandi og þingmönnum í Suðurkjördæmi. Hvert sveitarfélag fékk 5 mín ræðutíma og þingmenn fengu mjög lítinn tíma til að spyrja spurninga. Ég fékk að ríða á vaðið og græddi á því nokkrar mínútur og fékk að svara spurningum strax í kjölfarið. Í máli mínu kom ég inn á málefni hjúkrunarheimilisins, Grynnslanna, hringvegs yfir Hornafjarðarfljót, raforkuflutning og fleira. Varðandi hjúkrunarheimilið þá er staðan sú að Framkvæmdasýsla ríkisins hefur verið að vinna að uppfærslu gagna vegna breytinga sem voru gerðar á hönnun eftir að útboðinu var hafnað. Breytingarnar hafa verið unnar m.a. í samstarfi við bjóðanda og er nú reiknað með að hann skili inn uppfærðu tilboði 14-15. mars. Í kjölfarið verður það tekið fyrir hjá fjármálaráðuneytinu og vonandi samþykkir.
Íbúakosningar rafrænar eða staðbundnar
Ég fundaði með starfsmönnum innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og Þjóðskrá Íslands vegna íbúakosninga í tengslum við deiliskipulag „þétting byggðar“. Þegar það lá fyrir í haust í kjölfar söfnunar undirskrifta hjá íbúum að sveitarfélagið þyrfti að setja málið í íbúakosningu var stefnan tekin á að framkvæma rafræna kosningu. Strax hófum við undirbúning og óskað var eftir heimild ráðherra til þess í samræmi við ákvæði laga. Innviðaráðuneytið (þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) fór í þá vinnu að kanna hvort til væri kosningakerfi sem uppfyllti öryggiskröfur sem þarf til að framkvæma rafræna íbúakosningu. Starfsmenn ráðuneytis og Þjóðskrá Íslands töldu sig geta boðið upp á kerfi og var mikill áhugi á að styðja sveitarfélagið í þessu tilraunaverkefni. Kosningakerfið er til og er í eigu Advania en til þess mega nýta það í þessum tilgangi þurfti að framkvæma öryggisúttekt á kerfinu. Á sama tíma tóku í gildi ný kosningalög eða um síðustu áramót sem gerði það að verkum að flækjustig jókst enn frekar því við vorum þá farin að undirbúa staðbundnar kosningar. Eftir fundi undanfarnar vikur er niðurstaðan sú að rafrænt kosningakerfi þarf lagfæringar eftir öryggisúttekt og því var tekin sú ákvörðun að íbúakosningin færi fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 14. maí en það var samþykkt formlega hér í dag af bæjarstjórn. Þetta hefur verið lærdómsferli fyrir bæjarstjórn og einnig starfsfólk ráðuneyta og Þjóðskrá Íslands. Þó lögin fjalli um framkvæmd rafrænna íbúakosninga er ekki til kosningakerfi sem uppfyllir öryggiskröfur til þess að framkvæma sjálfar kosningarnar!
Skipulagsmál
Ég hef nú setið nokkra fundi vegna skipulagsmála í sveitarfélaginu en umhverfis- og skipulagsnefnd var með aukafund þar sem fjallað var um flest þau skipulög sem eru í vinnslu í sveitarfélaginu. Það er mjög mikið í gangi en bara innan þéttbýlisins er unnið að breytingu á deiliskipulagi á miðbæjarsvæði, Óslandi bæði hafnarsvæðinu og einnig útbæ fyrir mögulegar hótelbyggingar, breytingar á skipulaginu Hafnarvík- Heppa og einnig skipulag við Víkurbraut 1. Þar fyrir utan er verið að vinna að breytingum á deiliskipulagi víða í dreifbýlinu. Skipulagsmál eru býsna flókin og þurfa yfirlegu og vönduð vinnubrögð. Fjöldi skipulaga sem nú eru í vinnslu ber keim af þeim krafti og bjartsýni sem býr í sveitarfélaginu.
Kynning á hönnun líkamsræktar
Bygging líkamsræktaraðstöðu við sundlaugina var samþykkt í fjárhagsáætlun og hefur staðið yfir undirbúningur í rúmt ár. Hönnunarvinna er nú á lokametrunum og í tengslum við þá vinnu var haldinn kynningarfundur með hagsmunaaðilum þar sem þeir aðilar, sem halda úti einhvers konar starfsemi sem þarf að rúmast í húsinu, höfðu tækifæri til að koma með tillögur að breytingum. Fundurinn var gagnlegur og komu fram hugmyndir sem nýtast áfram í hönnunarvinnuna. Nýbyggingin mun verða frábær viðbót við þá íþróttaaðstöðu sem er fyrir í sveitarfélaginu og mun rýmkast töluvert í kringum almenna líkamsrækt í sveitarfélaginu. Um er að ræða fyrstu umhverfisvottuðu byggingu sveitarfélagsins samkvæmt BREEAM umhverfisvottunarkerfinu en markmið með henni er að hanna og byggja byggingar sem hafa minni umhverfisáhrif, eru heilsusamlegri fyrir notendur og þurfa minna viðhald en hefðbundnar byggingar. Er það í samræmi við stefnumótun sveitarfélagsins.
Rekstrareiningin verður rekin með sundlauginni og þarf ekki að fjölga starfsfólki miðað við fyrstu áætlanir. Sveitarfélagið hefur verið að leigja húsnæði undir starfsemi líkamsræktar og á öll tækin sem þar eru, með þessu er því verið að hagræða í rekstri sveitarfélagsins og koma starfsemi líkamsræktar í tengsl við sundlaug líkt og er svo víða annars staðar á landinu.
Vatnajökulsþjóðgarður
Stjórn og svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs fundaði í Hoffelli á dögunum. Lengi hefur staðið til að fara með stjórn og svæðisráð í íshellaferð með það að markmiði að þau kynnist því hvernig atvinnustarfsemin er í tengslum við þessar ferðir. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra var með okkur í íshellaferðinni og fundaði einnig með stjórn. Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hefur sérstöðu miðað við önnur svæði af umfangi atvinnustarfsemi og fjölda gesta á svæðið. Unnið hefur verið að innleiðingu atvinnustefnu þjóðgarðsins undanfarin ár en flækjustigið er töluvert. Það mun því auðvelda stjórn varðandi ákvarðanir til framtíðar að upplifa starfsemina. Bæjarstjórn fundaði einnig með stjórn þar sem var farið inn á áherslur á svæðinu, rætt um uppbyggingu við Jökulsárlón, atvinnuuppbyggingu, vegamál, húsnæðismál og fleira. Í lok fundar var undirrituð samstarfsyfirlýsing milli Vatnajökulsþjóðgarðs og sveitarfélagsins sem miðar að því að bæta skrifstofuaðstöðu hjá starfsfólki þjóðgarðsins á Höfn og skoðaðir möguleikar á að setja upp jöklasýningu í sömu aðstöðu. Það er strax komin hreyfing á það mál og höfum við nú fundað tvisvar með Kjartani Árnasyni í tengslum við hönnun á Miklagarði. Fyrstu drög teikninga sýna að það starfsemin getur vel rúmast í Miklagarði en gert er ráð fyrir skrifstofum fyrir 8-10 starfsmenn. Haldið verður áfram með þessa vinnu og mun ég funda með þjóðgarðinum strax í næstu viku til að ákveða næstu skref.
Kvísker
Sama dag og farið var í íshellaferð með þjóðgarðinum fór ég á Kvísker í Öræfum þar sem undirritaður samningur um skráningu muna á Kvískerjum. Samningurinn var gerður milli sveitarfélagsins og umhverfis, orku og loftslagsráðuneytis og felur í sér að skrá og flokka muni sem eru á Kvískerjum. Landeigendur tóku á móti okkur með ljúffenga súpu sem við snæddum saman.
Húsnæðissjálfseignarstofnunin Brák hses
Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum þátttöku í stofnun nýrrar húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni. Á milli bæjarstjórnarfunda voru haldnir tveir stofnfundir, þar sem gengið var frá samþykktum félagsins og gengið frá stjórnarkjöri. Markmið með stofnuninni er að stuðla að uppbyggingu leiguíbúða á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins með því að byggja eða kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra íbúða á landsbyggðinni og veita þjónustu í almannaþágu samkvæmt lögum um almennar íbúðir. Sveitarfélagið Hornafjörður er eigandi Íbúafélags Hornafjarðar hses og er með þessu stefnt að því að leggja félagið niður og að íbúðirnar renni inn í þetta nýja félag. Hagkvæmni felst í því að fara inn í stærri stofnun þar sem umsýsla og regluverk í kringum almenna íbúakerfið er býsna flókið og smíðað í kringum stærri einingar. Ég var kjörin sem varamaður í stjórn en ný stjórn verður kjörin um leið og fulltrúaráð hefur verið stofnað. Kosið var um nafn stofnunarinnar sem fékk nafnið Brák hses.
Útboðsmál
Bæjarráð samþykkti nú í vikunni að bjóða út rekstur og hýsingu tölvuþjónustu hjá sveitarfélaginu. Fer það í auglýsingu í næstu viku en ég hef unnið það með ráðgjafa sem aðstoðaði sveitarfélagið í síðasta örútboði. Ríkiskaup mun sjá um útboðið og er það auglýst á meðal þeirra fyrirtækja sem eru með samning við Ríkiskaup. Samningar við Þekkingu hf, sem hefur þjónustað sveitarfélagið frá árinu 2017, eru nú að renna út í sumar og því tímabært að bjóða út á ný.
Sveitarfélagið tók einnig þátt í útboði vegna kaupa á nýjum slökkvibíl ásamt 6 öðrum sveitarfélögum á landinu. Ríkiskaup annaðist útboðið sem fór fram á evrópska efnahagssvæðinu. Aðeins eitt tilboð barst sem var 20% yfir kostnaðaráætlun. Skýringar á háu verði felast í ástandinu í heiminum, miklar verðhækkanir hafa raungerst og sér ekki fyrir endann á því. Í úttekst Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Slökkviliði Hornafjarðar komu fram alvarlegar athugsemdir við ástand bifreiða slökkviliðsins sem var þekkt enda bifreiðarnar komnar til ára sinna. Bæjarráð hefur ekki tekið ákvörðun í málinu.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri