• IMG_20190415_162723_668

FUGLAR

3.5.2019

Guðrún Ingólfsdóttir opnar listsýningu á Bókasafninu í Nýheimum næstkomandi laugardag 4. maí.

Tilurð þessarar sýningar er líf fuglanna og hvernig þeir minna okkur á breytileika lífsins og náttúrunnar. Sumir koma og fara og við köllum þá farfugla. Aðrir eru bara alltaf á svæðinu, staðfuglarnir okkar. Myndmál sýningarinnar er því hreyfanleikinn eins og hann birtist í lífi fuglsins. Sýningin mun þannig ferðast á milli og hafa stuttan stans á hverjum stað, rétt eins og krían sem sest á stein eða þröstur á grein. Myndin er samt áfram til staðar í huga okkar og minnir á sig rétt eins og fuglinn, en samt komin á nýjan stað.

Sýningin kemur aðvífandi og hefur fyrstu viðkomu 4. maí á bókasafninu í Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Þar hefur hún viðstöðu til 9. maí. Þá tekur hún sig upp og sest inn á hjúkrunarheimilið Skjólgarð. Þar verður hún til 17. maí. Þvínæst sest hún á sundlaugarbakkann og verður opið í Sundlaug Hornafjarðar frá 18 til 23. maí. Þá hefur hún sig á flug í síðasta sinn og tekur stefnuna á leikskólann Sjónarhól og dvelur þar frá 24. til 29. maí. Þar með lýkur farfluginu, í bili að minnsta kosti.

Sýningin verður opinn á opnunartíma bókasafnins og í tilefni af viðkomu hennar þar býður Menningarmiðstöðin upp á kaffi og kleinur laugardaginn 4.mai kl: 13:00. Sýningin er sölusýning.