Gjöf frá afkomendum Rafns Eiríkssonar
Sveitarfélaginu hefur borist peningagjöf frá afkomendum Rafns Eiríkssonar og Ástu Karlsdóttur sem ætluð er til stuðnings forvarnarstarfi í sýslunni.
Rafn starfaði sem kennari í Nesjum frá árinu 1950 og síðar sem skólastjóri við Nesjaskóla frá 1954 til 1987. Samhliða kennslunni sinnti hann fjölmörgum félagsstörfum, sat í stjórnun ýmissa félaga og var mjög virkur í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann var einlægur áhugamaður um leiklist og stóð fyrir leiksýningum í sinni heimasveit auk þess sem hann setti upp leiksýningar með nemendum í Nesjaskóla um langt árabil. Þannig einkenndist starf hans alla tíð að uppfræðslu og starfi með með börnum og ungmennum. Ásta tók virkan þátt í öllu þessu starfi og stóð þétt við hlið hans í þeim verkefnum sem hann tók að sér.
Eftir að starfsævi Rafns lauk þá sneri hann sér að áhugamáli sínu, sem var málaralistin. Það hafði hann haft að tómstundastarfi hin síðari ár á Hornafirði og prýða mörg málverk eftir hann heimili og stofnanir. Auk þess hélt hann nokkrar málverkasýningar á Hornafirði og víðar.
Þegar þau systkinin ákváðu að efna til sýningar á þeim málverkum sem til voru í safni Rafns þegar hann féll frá, kom upp sú hugmynd að nýta hluta af þeim fjármunum sem myndu safnast við sölu á málverkunum til að styrkja forvarnarstarf barna og unglinga í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þannig vildu þau sýna í verki þakklæti sitt, gera eitthvað sem kæmi sér vel og myndi gagnast ungu fólk í sveitarfélaginu og væri um leið táknrænt fyrir starf foreldra þeirra og í þeirra anda.
Börn þeirra Rafns og Ástu leggja því forvarnarstarfi í Austur-Skaftafellssýslu lið með því að færa sveitarfélaginu 250.000 krónur að gjöf til minningar um foreldra þeirra Rafn Eiríksson og Ástu Karlsdóttur.
Íbúar í Sveitarfélaginu Hornafirði þakka þeim systkinum kærlega fyrir höfðinglega gjöf. Þau systkinin sem eru mörgum Skaftfellingum að góðu kunn eru í aldursröð Karl Eysteinn Rafnsson, Signý Benedikta Rafnsdóttir, Gunnar Björgvin Rafnsson og Ásta Karen Rafnsdóttir.
Myndin sem er með þessari frétt er af málverki sem Rafn málaði og er af útsýninu úr garðinum á Sunnuhvoli þar sem systkinin ólumst öll upp og áttu heima um lengri sem skemmri tíma.