Hafnarhittingur

5.12.2017

Af hverju Hafnarhittingur?

Í nútímasamfélagi þar sem töluvert er um streitu, þunglyndi, kvíða og félagslega einangrun er mikilvægt að hlúa að aðstæðum sem vinna gegn þessu þáttum. Fjölskyldan og góð félagsleg tengsl er það sem hefur hvað mest vægi til að vinna gegn þessum neikvæðu þáttum.

Hafnarhittingur er framlag nemenda og starfsmanna Grunnskólans til að styrkja fjölskylduna, styrkja félagsleg tengsl og bæta samfélagið sem okkur þykir flestum svo vænt um.

Á Hafnarhittingi verður boðið upp á fjölmörg tækifæri fyrir fólk á öllum aldri til að sinna áhugamálum sínum um leið og það hittir annað fólk en það umgengst dags daglega. Á sama tíma geta foreldrar haft börnin með sér og til að létta enn frekar álagið á fjölskyldum getur fólk keypt sér mat á staðnum á kostnaðarverði.

Hafnarhittingur gengur fyrst og fremst út á sjálfboðavinnu og þar leggja nemendur og starfsmenn sitt af mörkum en margir aðrir koma einnig að borðinu.

Þannig verður hittingurinn sameign okkar allra. Allar hugmyndir að dagskrá eru vel þegnar og fólk hvatt til að leggja sitt af mörkum.

Þetta er fyrsti Hafnarhittingurinn en ef vel gengur þá verða fleiri eftir áramótin. Takið tímann frá þriðjudaginn 5. des kl. 17:00 – 20:00. Kíkið í Heppuskóla og íþróttahúsið og takið endilega einhvern með ykkur sem þekkir ekki vel til, talar ekki tungumálið eða bara einhvern sem þið viljið taka með.

Að lokum má geta þess að Grunnskóli Hornafjarðar er Grænfánaskóli en það felur í sér áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Einn hluti sjálfbærninnar er félagsleg sjálfbærni þar sem fólki líður vel og getur uppfyllt og ræktað félagslegar þarfir sínar í nánasta umhverfi sínu. Á vetrarönn er lögð sérstök áhersla á sjálfbærni og umhverfisvernd í skólanum og er Hafnarhittingur eitt af sjálfbærni verkefnunum.

Dagskrá á Hafnarhittingi:

Þegar fólk mætir er ágætt að það skrái sig strax í matinn ef það vill borða svo eldhúshópurinn hafi einhverjar hugmyndir um hve mikið skal elda. Á boðstólum verður hakk pottréttur (grýta) með hvítlauksbrauði og verðið er 500 kr. á mann. Síðan getur fólk farið á milli eða verið á sama staðnum allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Íþróttahús

17:10 – 18:00 – Zumba í hálfum íþróttasalnum, leikir hinu megin.

18:10 – 19:00 – Þrek í hálfum íþróttasalnum, leikir hinu megin.

19:10 – 20:00 – Blak. Allir leika sér í blaki.

Heppuskóli

Stofa 1. Tipphornið – spáð og spekúlerað í boltann.

Stofa 2. Nemendur sýna legóbrautina og leyfa fólki að prófa – þar fær fólk einnig að prófa sig í að forrita sphero kúlur.

Stofa 3. Jóga kl. 18:00 – Vinsamlegast takið dýnur teppi og kodda með ykkur.

Stofa 4. Spilastofa – úlfur úlfur, actionary ofl.

Stofa 5. Félagsvist – spilað frá 17:10 – 19:10.

Stofa 6. Tölvur og snjalltæki – hver vill ekki læra meira á ipadinn sinn eða á google drive?

Stofa 7. Barnahornið – þar geta litlu börnin leikið sér saman og gæsla verður á staðnum.

Stofa 8. Föndurstofan, jólaföndrið í allri sinni dýrð.

Bókasafnið í Heppuskóla, prjónahornið, nýjar bækur liggja frammi, púsl og fleira.

Eldhúsið í Heppuskóla – matur á kostnaðarverði frá 18:30 – 19:30. Einnig borð sett fyrir framan stofuna og á opna svæðinu á efri hæð.

(með fyrirvara um breytingar)