Hertar aðgerðir vegna Covid-19

31.7.2020

Í kjölfar þess að smitum vegna kórónaveiru fjölgar nú á Íslandi hafa stjórnvöld kynnt hertar aðgerðir með því markmiði að hefta frekari útbreiðslu.

Stjórnvöld hafa kynnt hertar aðgerðir vegna kórónaveirunnar og taka þær gildi frá kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 31. júlí 2020, sjá nánar hér.

Helstu aðgerðir innanlands frá hádegi 31. júlí

  • Hámark 100 manns sem mega koma saman. Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin í þeirri talningu.

  • Alls staðar þar sem fólk kemur saman, m.a. í allri starfsemi stofnana og fyrirtækja, verður nú skylda að hafa a.m.k. 2 metra bil á milli einstaklinga. Þetta gildir t.d. um alla starfsemi á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta bil þarf að tryggja t.d. á milli sundlaugargesta, fólks á tjaldsvæðum, í söfnum sveitarfélagsins og á milli starfsfólks stofnana sveitarfélagsins. Ráðhúsið er nú lokað vegna sumarleyfa ásamt leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.

  • Í verslunum, opinberum byggingum og þjónustufyrirtækjum sem eru opin almenningi þarf að tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn, sinna þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er, auk þess að setja upp merkingar og skilti til að minna fólk á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

  • Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað, s.s. íþróttastarf, geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi búnað milli notenda. Einnig að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé, geti þeir ekki tryggt fjöldatakmörkun eða 2ja metra bil milli ótengdra aðila.

  • Aðgerðir verða sömuleiðis efldar á landamærunum frá 31. júlí.

  • Hér má lesa nánar um þessar aðgerðir stjórnvalda.

Almannavarnir á Suðurlandi funduðu í gær og eru í viðbragðsstöðu. Ekki hefur verið greint smit á Suðurlandi ennþá en mikill fjöldi ferðamanna hafa verið á ferðinni undanfarnar vikur meðal annars á hér í sveitarfélaginu. 

Ég vil hvetja íbúa til að vera á varðbergi, huga að einstaklingbundnum sóttvörnum og halda tveggja metra fjarlægð á milli manna. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.