Hitaveita – spurningar og svör

27.2.2020

Starfsmenn sveitarfélagsins hafa orðið varir við óvissu íbúa varðandi lagningu hitaveitu. 

Sveitarfélagið Hornafjörður er skilgreint sem kalt svæði í dag og lengi hefur verið leitað eftir heitu vatni með það að markmiði að tryggja öfluga hitaveitu til framtíðar. Rarik er framkvæmdaraðili í lagningu hitaveitu og kostar hana. Mikill kostnaður hefur verið lagður í jarðhitaleit og því verður ekki hægt að lækka verð veitunnar frá því sem verið hefur. Hitaveitan hefur alla burði til að geta orðið mjög hagkvæm til framtíðar og munu íbúar njóta góðs af því.

Hlutverk sveitarfélagsins er að leita leiða til að auðvelda íbúum að taka inn hitaveitu með þeim aðferðum sem eru í boði. Ein þeirra leiða sem verið er að skoða, er að aðstoða íbúa við kaup á inntaksgrindum með magnkaupum til að létta íbúum þau kaup, einnig er verið að skoða hvort íbúar geti notið hagstæðari verða við kaup á lagnaefni. Verið er að leita tilboða hjá fyrirtækjum vegna þessa þáttta, þegar það liggur fyrir verða íbúar upplýstur um það.

Leitað var svara hjá Rarik og hjá Orkusetri varðandi nokkra þætti sem hafa komið til umræðu í kjölfar kynningarfundar sem Rarik stóð fyrir. Íbúum er bent á að kynna sér þær upplýsingar sem settar voru á vef sveitarfélagsins í kjölfarið af kynningarfundinum:  hér á hornafjordur.is

Hér eru nokkrar spurningar og svör um hitaveituframkvæmdir sem teknar hafa verið saman.

1. Verða lagðar stofnlagnir ef íbúar taka ekki inn hitaveitu t.d. við heila götu?

Það verða alls staðar lagðar stofnlagnir þó svo íbúar velji að tengjast ekki. Tengigjaldið getur hækkað velji íbúar að tengjast ekki í fyrsta fasa. Það kemur fram í bréfinu sem íbúar fengu sent frá Rarik. Ef aðeins lítill hluti íbúa velur að tengjast hitaveitu við hverja íbúðagötu getur það haft þau áhrif að ekki verður farið í framkvæmdir þar í fyrsta fasa.

2. Er einfalt eða tvöfalt dreifikerfi í nýju lögnunum líkt og gamla fjarvarmakerfið er byggt upp?

Viðbótin er tvöföld í póstnúmeri 780 en einfalt kerfi verður lagt í póstnúmer 781.

3. Þar sem í flestum húsum á Höfn eru eirlagnir sem þola illa hitaveituvatn, er í lagi að setja hitaituvatnið beint í þessar lagnir?

Eirlagnir þola ekki hitaveituvatn sem inniheldur hátt hlutfall brennisteinsvetnis (H2S). Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) mælist varla í jarðhitavatni frá Hoffelli, eða því sem næst núll, og því er brennisteinsvetni ekki til staðar til að valda tæringu. 

4. Verður varmaskiptir í stöðvarhúsinu hjá Rarik fyrir gamla kerfið. Þarf fólk varmaskipti?

Gerð er krafa um varmaskipti á neysluvatn og mælt er með varmaskipti á ofnakerfið í póstnúmeri 780. Ekki eru gerðar slíkar kröfur í póstnúmeri 781 en þó er mælt með því.

5. Hafa íbúar kost á að taka inntakið en bíða með framkvæmdir innanhúss hjá sér og þar með tengjast hitaveitunni?

Fólk hefur kost á að taka inn heimæð án þess að hleypt sé á strax. Styrkurinn er þó ekki greiddur út fyrr en vatni er hleypt á. Orkusetur hefur þá viðmiðunarreglu að miða við að íbúar hafi 9 mánuði til að framkvæmda innanhús áður en vatni er hleypt á og niðurgreiðslur falla niður. Rætt var við forsvarsmenn Orkuseturs og það er einhver sveigjanleiki veittur með þessa 9 mánuði og fer það eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. framboði á verktökum. Í þessu samhengi þarf einnig að skoða lögin um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar en þar kemur eftirfarandi fram:

„Samkvæmt 4 gr. sem fjallar um skilyrði til niðurgreiðslna, 2. málsgrein: Þegar íbúð á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku enda sé kostnaður við tengingu við hitaveituna og áætluð orkukaup meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu.“

Þessi útreikningur á við um kostnað við að taka inn heimtaugina og kaup á tengigrind, ekki er tekið inn í þær breytingar sem fólk þarf að fara í innanhúss hjá sér. Orkusetur og Rarik geta reiknað þetta út miðað við notkun síðustu ára fyrir hvert hús fyrir sig.

Það er vert að geta þess að hitaveitu fylgja ákveðin gæði. Í dag er stór hluti þéttbýlisins á Höfn hitað upp með fjarvarmaveitu. Sú veita er ekki hagkvæm í dag og þess vegna lagði Rarik í mikla leit að heitu vatni og þá fjárfestingu sem því fylgir að leggja hitaveituna frá Hoffelli og út á Höfn. Fjórðungur íbúða í þéttbýlinu og allt dreifbýlið í Nesjum er ekki tengt fjarvarmaveitu. Þessum íbúðaeigendum stendur til boða að tengjast hitaveitu með því að greiða fyrir það.

Ef íbúar hafa frekari fyrirspurnir geta þeir leitað til Rarik. Varðandi niðurgreiðslur og styrki vegna framkvæmdanna ber íbúum að leita til Orkuseturs með þær fyrirspurir.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri