Hlaða komin í Hornafjörð

12.3.2018

Orka náttúrunnar (ON) tók í notkun hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla í Nesjum við Hornafjörð. Með þessu er enn eitt skrefið stigið til að opna hringveginn rafbílaeigendum.

 Það markmið mun nást fyrir páska og er Reykjahlíð við Mývatn næst á dagskrá. Hlaðan í Hornafirði er við Hótel Jökul í þéttbýliskjarnanum í Nesjum, sem stendur við hringveginn.

Orka náttúrunnar hefur einsett sér að opna allan hringveginn fyrir rafbílaeigendum með því að varða hann hlöðum. Framkvæmdir við hlöðu með hraðhleðslu í Reykjahlíð við Mývatn eru langt komnar. Hún verður tekin í notkun fyrir páska og þar með brúast síðasta bilið við hringveginn. Á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal er ON búin að setja upp hlöðu með hefðbundinni (AC) hleðslu. Þar verður sett upp hleðsla með hærri spennu í vor eða snemmsumars.