Samgönguhátíð- Hringnum lokað

Fimmtíu ár frá opnun Hringvegar

20.8.2024

Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, var vígð í júlí 1974, fyrir fimmtíu árum á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Bygging brúarinnar þótti verkfræðilegt þrekvirki á sínum tíma. Með henni var lokið við Hringveginn sem eftir það tengdi byggðirnar umhverfis Ísland í samfellda heild. Í tilefni af þessum tímamótum standa Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður fyrir málþingi og hátíðardagskrá föstudaginn 30. ágúst 2024. 

Málþing á Hótel Freysnesi

Málþingið Hringnum lokað – fimmtíu ár frá opnun Hringvegar, fer fram á Hótel Freysnesi klukkan 13:00 til 15:00 föstudaginn 30. ágúst 2024. Þar verður fjallað um byggingu Skeiðarárbrúar og hvaða áhrif þessi samgönguframkvæmd hafði fyrir íbúa í Skaftafellssýslum og landsmenn alla. Aðgangur að málþinginu er ókeypis en skráning fer fram hér: https://forms.office.com/e/W3BuJcrZnH

Dagskrá málþings

11:30-12:30 Boðið verður upp á kjötsúpu á Hótel Freysnesi.

  • Minningar af Skeiðarársandi. Rögnvaldur Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
  • Síbreytilegur Skeiðarársandur, áskoranir í 50 ár. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Vegagerðin.
  • Samgöngubætur og byggðaþróun. Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.
  • Fellum ei niður þróttinn sterka. Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, leiðsögumaður og fjallamennskukennari, frá Svínafelli.
  • Faðir minn, Sandurinn. Hallgrímur Helgason, rithöfundur.

Fundarstjóri: Borgþór Arngrímsson

Hátíðardagskrá við Skeiðarárbrú

Hátíðardagskrá fer fram við vesturenda Skeiðarárbrúar klukkan 15:30. Líkt og við vígslu brúarinnar árið 1974 verður ýmislegt gert til skemmtunar. Flutt verða stutt ávörp, Öræfingakórinn syngur, lúðrasveit Hornafjarðar spilar, leikfélag Hornafjarðar skemmtir börnum og fullorðnum með drekasýningu og klifurfélag Öræfinga sýnir listir sínar í brúnni. Listakonurnar Eva Bjarnadóttir og Hanna Dís Whitehead skreyta brúna með litríkum veifum í tilefni dagsins. 50 veifur, ein fyrir hvert ár.

Boðið verður upp á léttar veitingar á hátíðinni, en ef illa viðrar verða þær í boði í Skaftafellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli, að lokinni athöfninni.