• Mynd-0-Hringtorg-Top

Hvers virði er umferðaröryggi?

Hringtorg í Hornafirði - verkefnið í uppnámi

14.2.2025

Síðasta árið höfum við unnið að því í samstarfi við Vegagerðina að fá hringtorg á nýja veginn yfir Hornafjarðarfljótið – á gatnamótin inn í Nes og í þéttbýlið á Höfn.

Núverandi hönnun gerir ráð fyrir tvennum T-gatnamótum á veginn en óumdeilt er að hringtorg er mun betri lausn, ekki síst þegar kemur að umferðaröryggi.

Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að sú leið sem möguleg er fyrir okkur að koma fyrir hringtorgi á nýja veginn, þarf að óbreyttu að fara í sérstakt mat á umhverfisáhrifum. Það er ferli sem tekur langan tíma og setur verkefnið í uppnám.

Það eru okkur gríðarleg vonbrigði að Skipulagsstofnun skuli ákvarða að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál sem varðar almannahagsmuni og umferðaröryggi.

Ég ætla að rekja hérna gróflega málsatvik og hvar málið er statt. 

Þjóðvegur eitt um Hornafjarðarfljót
Framkvæmd á Hringvegi um Hornafjarðarfljót er í fullum gangi og eru áætluð verklok framkvæmdar í desember 2025. Um er að ræða mikilvæga framkvæmd styttir Hringveginn um 12 kílómetra ásamt því að við losnum við þrjár hættulegar einbreiðar brýr af þjóðvegi eitt.

Stöðug aukning umferðar og mikil uppbygging fram undan
Gríðarleg aukning hefur verið í umferðaþunga síðustu ár hér í Hornafirði og eykst hún ár frá ári langt umfram spár. Fyrirséð er að umferð muni enn aukast á næstu árum, ekki síst á milli Hafnar og Nesja enda mikil uppbygging og risa framkvæmdir í fullum undirbúningi. Þar má nefna fjölgun gistirýma, hótela og baðlóns með tilheyrandi aukningu á fjölda ferðamanna og starfsfólks sem mun að stórum hluta búa í þéttbýlinu á Höfn en sækja sitt starf inn í Nes.

Þá er umferð á svæðinu vegna tjaldsvæða, flugvallar, gróðrarstöðvar, verktakafyrirtækis, steypustöðvar, útivistarsvæða og íþróttahúss fyrir börn sveitarfélagsins sem stunda fimleika. Skólabílar aka daglega um svæðið og umferðarþungi eykst stöðugt.

Tvö T-gatnamót eru mun hættulegri en hringtorg
Núverandi hönnun gerir ráð fyrir tvennum T-gatnamótum, annars af þjóðvegi eitt til þéttbýlisins úti á Höfn og hins vegar inn til Nesja. Það er ótvírætt að vegtengingar á þessum kafla eins og þær eru útfærðar, með tvennum T-gatnamótum valda meiri slysahættu en ef hringtorg yrði gert til að greiða fyrir umferð og tryggja betur öryggi.

Brýnir hagmunir – og hvað með gangandi og hjólandi?
Það eru brýnir hagsmunir að tryggja örugg gatnamót á þessu svæði. Í upphaflegri útfærslu gatnamóta, T-gatnamótalausninni, þurfa umferðarstraumar sem liggja norður/suður að þvera mjög hraða umferð, 90 km/klst. keyra svo stutta vegalengd og þvera svo aftur Hringvegar-umferðina. Með hringtorgi væri umferðarhraði mun hægari og öruggari og dregið verulega úr hættu á alvarlegum slysum.

Mér er algjörlega á huldu með hvaða hætti á að er að ná niður umferðarhraða og leysa umferð gangandi, hjólandi og ríðandi í þeirri lausn sem nú liggur fyrir, tvennum T-gatnamótum?!

Samtal og samstarf við Vegagerðina
Íbúar hafa lengi haft áhyggjur af núverandi hönnun og það hefur Bæjarstjórn Hornafjarðar einnig. Þess vegna var mér og starfsfólki falið að taka málið upp með Vegagerðinni og kanna til hlítar hvort ekki mætti breyta núverandi hönnun og setja hringtorg á veginn.

Vegagerðin tók vel í okkar beiðni – samtal við landeigendur
Þegar við fórum þess á leit við Vegagerðina að endurskoða sínar áætlanir tóku þau ágætlega í okkar hugmyndir. Þau hafa unnið málið af heilindum með sveitarfélaginu þrátt fyrir að framkvæmdin sé komin vel á veg. Það var hins vegar ljóst í upphafi að til þess að koma fyrir hringtorgi á veginn þurfti samþykki landeigenda.

Að lokum náðist lausn sem allir geta sætt sig við
Við hófum þegar samtal við landeigendur um mismundandi útfærslur á hringtorgi. Teiknaðar voru nokkrar útgáfur m.v. núverandi vegstaðla. Mismunandi var eftir útfærslum hversu vel landeigendur tóku í málið. En að lokum náðist sátt við tvo af landeigendunum og munnlegt samkomulag um kaup á landi undir hringtorgið og myndi sveitarfélagið standa straum af þeim kostnaði. Samtals myndu um þrír hektarar fara undir breytinguna sem um er að ræða. En hafa ber í huga að talsvert landsvæði væri þá endurheimt í staðinn, sem annars færi T-gatnamót og tengingar þeirra. 

Mynd-1-Tillaga-um-hringtorg-i-Hornafirdi

Á myndinni hér að ofan má sjá teikningu af hringtorgslausninni sem Skipulagsstofnun hefur nú ákvarðað að þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum 

Tilkynning á Skipulagsstofnun – ósk um að yfirfara vistgerðakort
Í ágúst 2024 óskaði Vegagerðin eftir því við sérfræðinga að fara yfir hvort fyrirliggjandi vistgerðarkort Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnið var í tengslum við hönnun vegarins fyrir mörgum árum stæðist, eða hvort þörf væri á að uppfæra það á því svæði sem um ræðir og færi undir hringtorg.

Þann 4. október 2024 sendi Vegagerðin svo Skipulagsstofnun tilkynningu um breytingar á vegtengingum við hringveginn um Hornafjörð. Að útbúa hringtorg sem sé annars vegar vegtenging Hafnar við Hringveginn og hins vegar tenging við Nesjahverfi í norður.

Leitaði Skipulagsstofnun í framhaldi eftir umsögnum frá sveitarfélaginu Hornafirði, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar. Í umsögnum frá fagstofnunum kom fram að engin þeirra óskaði eftir því að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum!

Niðurstaða Skipulagsstofnunar - framkvæmdin í mat á umhverfisáhrifum
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 barst niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin, gerð hringtorgs, sé háð mati á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin sé talin hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar kemur fram að áhrif á vistgerðina Gulstararfitjavist hafi vegið þyngst af áhrifum framkvæmdarinnar. Var vísað til þess að um væri að ræða mjög fágæta vistgerð sem einungis sé að finna á nokkrum stöðum á Íslandi en væri ekki að finna erlendis og að vistgerðin væri með mjög hátt verndargildi.

Það er ljóst að slíkt mat tæki langan tíma og þar sem framkvæmdin er komin það langt á veg væri sá kostur út af borðinu.

Beiðni um endurupptöku málsins:
Þann 22. janúar sl. sendi VSÓ ráðgjöf fyrir hönd Vegagerðarinnar og í samstarfi við sveitarfélagið, Skipulagsstofnun erindi þar sem óskað var eftir endurupptöku á ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.

Endurupptökubeiðni Vegagerðarinnar byggði fyrst og fremst á því að gulstararfitjavist sé mun útbreiddari en vistgerðarkort Náttúrufræðistofnunar gefi til kynna og því hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar ekki verið byggð á réttum forsendum.

Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að samkvæmt lögum ber að forðast röskun vistkerfa sem njóta sérstakrar verndar nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Lögð er áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.

Í okkar huga eru þetta ríkir almannahagsmunir og aðrir kostir ekki boðlegir
Okkar skoðun er sú að það sé augljóst að í þessu máli sé um brýna almannahagsmuni sé að ræða. Þá sé einnig ljóst að sú tillaga sem lögð var fyrir Skipulagsstofnun er eina raunhæfa lausnin um staðsetningu á hringtorgi, bæði þar sem framkvæmdin er komin það langt á veg, en einnig með tilliti til mögulegra samninga við landeigendur.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar – mikil vonbrigði
Föstudaginn 7. febrúar, barst svo niðurstaða Skipulagsstofnunar vegna beiðni um endurupptöku á matsskylduákvörðun stofnunarinnar. Þar er fyrri niðurstaða Skipulagsstofnunar staðfest og endurupptöku hafnað.

Ég ætla hérna, fyrir hönd bæjarstjórnar sveitarfélagsins og þeirra starfsmanna sem hafa unnið að málinu að lýsa miklum vonbrigðum með niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Um er að ræða mikið hagsmunamál sem, eins og áður segir, varðar umferðaröryggi og þar með almannahagsmuni.

Gulstarafitjavist – útbreiðsla á landsvísu er vanáætluð
Sérfræðingar hafa metið að á framkvæmdasvæðinu sem taka þarf undir hringtorgslausn séu vistgerðir sem hafa hátt eða mjög hátt verndargildi og eru á lista Bernarsamningsins um vistgerðir sem þarfnast verndar. Meðal þeirra er gulstararfitjavist sem telst vera mjög fágæt.

Það kemur hins vegar líka fram að gulstararfitjavist er vanáætluð á landsvísu á vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar og óvissa um útbreiðsluna. Óvissan felst einkum í því að vistgerðakortið er unnið með fjarkönnun og er gulstararfitjavist ein af þeim vistgerðum sem ekki var hægt að kortleggja með fjarkönnun þegar vistgerðarkortið var unnið.

Eins og sést á myndinni hér að neðan eru gulstararfitjavist ásamt gulstararflóavist útbreiddar á svæðinu hér í kringum Hornafjörðinn og ætla má að gulstararfitjavist sé mun útbreiddari en vistgerðarkortið gefur til kynna.

Mynd-2-Skjaskot-vistgerdakort-NatturufraedistofnunarSkjáskot af vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar, sem var fyrst gefið út 2017. Myndin sýnir útbreiðslu gulstararfitjavistar (græn) og gulstararflóavistar (gul) í Hornafirði - rauður punktur sýnir staðsetningu á tillögu um breytingu á gatnamótum með hringtorgi.

Erum að renna út á tíma – tvenn T-gatnamót á veginn?!
Það er ljóst að tímaramminn sem var til þess að aðlaga framkvæmdina að hringtorgslausn er að líða. Eins og staðan er í dag er ekki augljóst hvaða leiðir eru í boði aðrar en að sætta sig við þennan úrskurð og klára framkvæmdir eins og lagt var upp með. Gerð hringtorgs yrði þá sérstök framkvæmd á síðari stigum með tilheyrandi óvissu – og það er óásættanlegt.

Undanfarið hefur skapast alvarlegt ástand á Reykjavíkurflugvelli þar sem vegna lokunar flugbrautarþar sem tré voru farin að ógna flugöryggi – sem er í mínum huga alveg tryllt. Ég get ekki annað en sett þetta í samhengi við það að Skipulagsstofnun úrskurði á þann veg að öll barátta okkar fyrir hringtorgi á nýja veginn um Hornafjarðarfljótin þurfi í mat á umhverfisáhrifum vegna plöntu sem lítið er vitað um útbreiðslu á og setji þannig málið í algjört uppnám. 

Næstu skref
Í vikunni fjallaði bæjarráð og bæjarstjórn um málið og fól mér að kanna til hlítar hvort og þá hvaða kostir eru í stöðunni. Ég mun eiga fund með forstjóra og sérfræðingum Vegagerðarinnar um málið í byrjun næstu viku.

Áfram Hornafjörður!
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri