Hvað á að gera við jólatré og flugeldarusl?
Þegar lifandi jólatré hafa þjónað tilgangi sínum er mikilvægt að íbúar komi þeim í réttan farveg. Það sama á við um flugeldarusl.
Flugeldarusl og jólatré verða ekki tekin við lóðarmörk heldur geta íbúar losað sig við þess konar úrgang í þar til gerða gáma.
Fyrstu dagana í janúar verður gámur fyrir jólatré staðsettur fyrir utan Áhaldahúsið (Álaleira 2). Jólatrén munu nýtast við að gleðja geitur í nágrenni Hafnar.
Þá verður gámur fyrir flugeldarusl staðsettur við móttökustöðina (Sæbraut 1).
Leir sem er notaður í botninn á skottertum gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu.
Ósprungnir flugeldar eiga þó ekki heima í gámnum undir flugeldarusl, heldur skal skila þeim á söfnunarstöðina sem spilliefnum.
Látum flugeldarusl ekki grotna niður og verða að drullu og sóðaskap. Skiljum ekkert eftir, hvorki við heimili né annars staðar í sveitarfélaginu.