Jólatré er ekki bara jólatré!

12.12.2019

Jólatré eru í huga margra ómissandi hlutur af jólahátíðinni. Þau eru sígræn og minna á eilíft líf og skrautið sem við hengjum á það táknar gjafmildi jarðar og þá töfra sem náttúran býr yfir.

Þríhyrningsform grenitrés vísar upp og er tákn elds, einnig er þríhyrningurinn tákn föður, sonar og heilags anda. Jafnvel þó svo að við leggjum ekki mikla áherslu á tákn sem lesa má úr jólatrjám þá getum við mörg hver verið sammála um að grænu greinarnar, greni ilmurinn og ljósin fylla heimilin, hjörtun og hugann af gleði og von yfir dimmustu mánuðina.

Jólatré eru hinsvegar ekki undanskilin umhverfisáhrifum og getum við auðveldlega valið umhverfisvænni jólatré ef við viljum.

Árlega kaupa íslendingar um 40.000 jólatré, langflest, eða um 75% trjánna eru innflutt. Þau eru flutt inn með skipum sem brenna olíu yfir Atlandshafið.

Innflutt jólatré eru langflest ræktuð á landbúnaðarlandi í Danmörku þar sem illgresislyf og skordýraeitur eru notuð í gríðarmiklu magni. Dönsk náttúruverndarsamtök hafa ítrekað varað við þeirri hættu sem steðjar að grunnvatni, yfirborðsvatni, dýralífi og plöntum vegna þessarar miklu eiturefnanotkunar.

Við ræktun íslenskra jólatrjáa er lítið sem ekkert notað af varnarefnum. Það er því augljóst að íslensk jólatré hafa algjöra yfirburði þegar kemur að umhverfisáhrifum. Flest skógræktarfélög bjóða jólatré til sölu, þetta þjónar þeim tilgangi að grisja skóginn og er mikilvæg tekjulind fyrir félögin.

Hvað með plast jólatrén? Eru þau umhverfisvænni? Þau duga jú ár eftir ár. Svo er ekki raunin, rannsóknir benda þvert á móti á að lifandi jólatré séu 5 sinnum umhverfisvænni en jólatré út plasti, jafnvel þó þau séu nýtt í meira en 10 ár. Þú þarft að nota tréð í 20 ár svo að þau jafni út umhverfisáhrif þeirra á móts við lifandi tré. Ástæðan er m.a. hve mikla orku þarf til að framleiða plast tré og flytja þau á markað. Þau eru flest öll framleidd í Asíu og búin til úr hráolíu.

Hugum að umhverfinu og temjum okkur vistvænni innkaup í öllu sem við gerum. Góð og auðveld byrjun er að kaupa íslenskt jólatré. Á sama tíma og við veljum umhverfisvænni tré þá styrkjum við um leið skógræktarfélög í nærumhverfinu okkar.