• Sjonarholl-Hornafjordur

Kjaradeila við Afl Starfsgreinafélag

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri skrifar um kjaradeilu Afls starfsgreinafélags við Samband íslenskra sveitarfélaga.

18.9.2024

Um hvað snýst kjaradeilan við AFL?

Í gær birtist frétt á vef Afls starfsgreinafélags það sem boðað er til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun á meðal allra félagsmanna Afls sem starfa hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, en um er að ræða um rúmlega eitt hundrað starfsmenn.

Mig langar að ræða í þessari grein aðeins um staðreyndir málsins frá sjónarhóli okkar sem stjórnum sveitarfélaginu. Í byrjun er rétt að halda til haga að samningsumboð sveitarfélaganna er hjá samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd starfsgreinasambandsins (SGS) fór með umboð Afls og 17 annarra aðildarfélaga þess um landið allt þar til Afl dró umboð sitt tilbaka þann 3. júlí þegar skrifað var undir samninga við önnur aðildarfélög.

Forsagan

Kjarasamningur Afls starfsgreinafélags við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út 31. mars sl. Afl fól Starfsgreinasambandinu (SGS) samningsumboð sitt en viðræður aðila enduðu á undirritun kjarasamnings þann 3. júlí síðastliðinn. Þessi nýi samningur sem 17 aðildafélög SGS eiga aðild að gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 tryggir félagsfólki SGS allt að 3,5% launahækkun á ári eða að lágmarki 23.750 kr. á mánuði næstu fjögur árin. Samningurinn var afturvirkur frá 1. apríl 2024.

Afl skrifar ekki undir samning og heldur launahækkunum frá öllu sínu félagsfólki

Áður en skrifað var undir samning þessara 17 aðildarfélaga SGS við sveitarfélögin um allt land, dró Afl starfsgreinafélag samningsumboð sitt til baka og skrifaði ekki undir samninginn. Þannig hefur forysta Afls haldið launahækkunum frá félagsfólki sínu í sex sveitarfélögum á suðaustur- og austurlandi, þ.e. Fjarðabyggð, Múlaþingi, Fljótsdalshreppi, Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð ásamt Hornafirði.

Hvers vegna dró Afl sig út úr nýjum heildarsamning við SGS?

Ástæða þess að Afl dró samningsumboð sitt til baka er vegna kröfu félagsins um endurupptöku sérákvæða sem sveitarfélagið Hornafjörður sagði upp í desember árið 2022. Uppsögn þessara ákvæða tók gildi frá og með 1. október 2023 en sátt náðist milli aðila um að lengja uppsagnarfrest tveggja sérákvæða, 1 og 2 hér neðar, til 31. mars 2024 þegar kjarasamningar runnu út.

Þessi ákvæði voru:

1. Heimild til að ráðstafa allt að 7 dögum af áunnum veikindarétti sínum til að vera frá vinnu vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri.

2. Greiðsla fatapeninga sem nemur 20% af launaflokki 115. þann 1. september ár hvert til fastráðins starfsfólks á leikskóla.

3. Yfirvinna til viðbótar unnum tíma við þrif eftir sérstaka samkomur í Hornafirði eins og þorrablót, Humarhátíð og Sjómannadagshátíðahöld.(Ég vil geta þess að þetta ákvæði er úrelt og engin deila um að leggja það af).

Aðeins nánar um ákvæðin

Hvað varðar ákvæði eitt, er ekki talið jafnræði í að einn hópur starfsmanna leikskólans haldi þessu umfram annan. Þess má líka geta að stéttarfélögin taka við að greiða laun vegna veikinda barna þegar réttur hefur verið fullnýttur hjá sveitarfélaginu sem þýðir að starfsmenn eiga ekki að verða launalausir þó að á þetta reyni. Verið er að vinna tillögu um að í starfsmannastefnu sveitarfélgasins verði ákvæði um að allt starfsfólk geti nýtt áunninn veikindarétt sinn vegna veikinda nákominna til að tryggja jafnræði meðal starfsfólks. Tillagan gengur lengra en ákvæðið sem verið er að óska eftir í kjarasamningi þar sem aðeins er verið að miða við börn undir 13 ára aldri. Vonir standa til að nú á haustmánuðum verði tillagan lögð fyrir.

Hvað varðar ákvæði tvö, ber að nefna að þessi greiðsla vegna fatapeninga er um 40 þúsund krónur fyrir 100% starfshlutfall eftir skatt, greitt út 1. september ár hvert til fastráðinna starfsmanna í Afli. Í staðinn fyrir þessa greiðslu mun leikskólinn sjá um að skaffa starfsfólki vandaðan hlífðarfatnað til að nota utandyra. Mér er til efs að 40 þúsund krónur dugi fyrir slíkum hlífðarfatnaði yfir árið. Þá er eðlilegt að jafnt gangi yfir allt starfsfólk sveitarfélagsins þegar kemur að hverskyns hlífðarfatnaði til að tryggja jafnræði. Sveitarfélagið hefur ákveðið að veita auknum fjármunum í málaflokkinn til að koma til móts við ólíkar þarfir starfsfólks.

Hvers vegna sagði sveitarfélagið upp þessum sérákvæðum?

Sérákvæði eiga sér langa sögu og voru hluti af því samningsumhverfi sem var við líði þegar hvert sveitarfélag samdi sérstaklega við stéttarfélögin. Í dag eru langflestir sammála um að sérákvæði séu úrelt fyrirbæri enda valdi þau ójafnræði sem erfitt er að verja gagnvart jafnréttismarkmiðum og lögum. Í mörgum tilfellum hafa sérákvæði jafnframt fallið niður þar sem kjör samkvæmt kjarasamningum eru orðin betri en þau kjör sem sérákvæði hafa falið í sér.

Verkalýðshreyfingin hefur sótt það mjög fast að kjör séu jöfn á landsvísu og því hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og verkalýðshreyfingin verið samstíga í því að útrýma sérákvæðum og hafa jafnrétti að leiðarljósi við gerð kjarasamninga.

Sveitarfélagið bregst við – en Afl neitar að skrifa undir

Í byrjun júlí frétti sveitarfélagið af því að Afl Starfsgreinafélag neitaði að skrifa undir nýja afturvirka kjarasamninga. Þá þegar hittist bæjarráð Hornafjarðar til að ræða grafalvarlega stöðu. Niðurstaða okkar var að óska eftir því við samninganefnd sambandsins að bjóða Afli eftirfarandi:

Til að greiða fyrir gerð kjarasamninga milli aðila á árinu 2024 er samstarfsnefndin sammála um að þeir félagsmenn Afls sem voru í starfi hjá sveitarfélaginu Hornafirði þann 31. mars 2024 njóti áfram þeirra sérkjara sem áðurgildandi sérákvæði tryggðu þeim, meðan þeir eru í samfelldu starfi hjá sveitarfélaginu.

Þessu hafnar Afl og við það situr

Forysta Afls starfsgreinafélags heldur umsömdum launahækkunum frá félagsfólki sínu í öllum sex sveitarfélögum Austurlands í þeim eina tilgangi að knýja fram umframkjör til örfárra félagsmanna í Hornafirði, sem ekki standa öðrum félagsmönnum Afls til boða.

Ágreiningur aðila snýst ekki um þann kjarasamning, sem Starfsgreinasambandið gerði við Samband íslenskra sveitarfélag í byrjun júlí, og tryggði félagsfólki SGS launa- og kjarabætur frá 1. apríl síðastliðinn heldur um sérákvæði sem fallin eru úr gildi að undangenginni lögmætri uppsögn.

Það sem er sínu alvarlegast í málinu er að Afl hafnaði samningi Starfsgreinasambandsins eins og hann var undirritaður í sumar. Þannig hafa viðræður við félagið færst aftur á byrjunarreit og raunveruleg hætta er á að þegar kjarasamningur verði loks undirritaður muni hann gilda frá fyrsta degi undirskriftarmánaðar og þannig væri engin aftur virkni sem þýddi mikla kjaraskerðingu fyrir allt félagsfólks Afls á suðaustur- og austurlandi. Þetta má ekki gerast!

Afl boðar atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun

Sl. föstudag mætti forysta Afls á Leikskólann Sjónarhól hér í Hornafirði og fór yfir málið með því starfsfólki sem er í stéttarfélaginu. Á þeim fundum var mjög einhliða mynd dregin upp af stöðunni – mynd sem við stjórnendur sveitarfélagsins höfum þurft að skýra fyrir starfsfólki okkar síðustu daga. Á mánudag var svo opnað fyrir rafræna kosningu um hvort ætti að boða til ótímabundins verkfalls þessara rúmlega eitt hundrað starfsmanna sveitarfélagsins sem eru í Afli frá og með 2. október 2024 klukkan 11:00.

Stórbætt aðstaða og kjör starfsfólks á leikskólanum Sjónarhóli

Sl. misseri höfum við stigið stór skref og unnið markvisst að því að bæta vinnuaðstöðu og kjör starfsfólks á leikskólanum Sjónarhóli hér í Hornafirði. Í ágúst fyrir einu ári var settur á laggirnar starfshópur um leikskólamál. Þessi hópur var skipaður kjörnum fulltrúum, fulltrúum foreldra barna á Sjónarhóli, fulltrúum starfsmanna og fulltrúum stjórnenda leikskólans auk sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs. Hópnum var ætlað að koma með tillögur til að styðja við starf leikskólans en mönnun á leikskólum hefur verið áskorun, skortur á menntuðu starfsfólki og viss flótti verið úr leikskólum í grunnskóla – og þetta eru áskoranir sem ekki eru eingöngu bundnar við Hornafjörð, þetta er á landsvísu.

Hópurinn skila tillögum og bæjarráð hikaði ekki

Þann 1. febrúar sl. skilaði starfshópurinn svo sínum tillögum í skýrslu sem finna má hér. Meðal aðgerða sem farið hefur verið í er:

· Full stytting vinnuvikunnar.

· Bætt var við tveimur stöðugildum til að leysa af við undirbúning.

· Verkefnastjóri ráðinn til að styðja við stjórnendur.

Einkum á þáttum sem snúa að móttöku og aðlögun nýs starfsfólks og móttöku starfsfólks af erlendum uppruna auk ýmissa annarra verka.

· Hækkun á námsstyrk.

Þar sem starfsmenn í háskólanámi sem nýtist í starfi á leikskóla geti sótt um styrk að hámarki kr. 50 þúsund krónur á önn upp í skólagjöld, bóka- og ferðakostnað.

· Líkamsræktarstyrkur og frítt í sund.

Til starfsfólks leikskóla eins og annarra starfsmanna sveitarfélagsins.

· Skipulagsdegi bætt við.

Bætt var við einum skipulagsdegi á leikskólanum á þessu starfsári.

· Starfsmannafundir á leikskólanum færðir.

Þessir fundir sem eru einu sinni í mánuði voru færðir fram á morguninn í stað þess að hafa þá eftir fjögur á daginn eftir ábendingar frá starfsfólki.

· Starfsmannapúlsinn skipulega nýttur til gagns.

· Unnið hefur verið markvisst með niðurstöður starfsmannapúlsins innan skólans. Stöðug vinna sem matshópur innan skólans og stjórnendur vinna fyrst og fremst með en með fullum stuðningi frá sveitarfélaginu.

· Almennt starfsfólk hefur fengið mánaðarlegar greiðslur fyrir að matast með börnunum.

· Til stendur að breyta styrk um fatapening til útifatakaupa.

Í stað þess að vera með eingreiðslu í september þar sem starfsmenn þurfa að greiða skatt af upphæðinni (ekki hefur verið jafnræði milli starfsfólks á leikskólanum) þá höfum við hækkað fjárhæð í ramma leikskólastjóra til kaupa á fötum fyrir alla starfsmenn. Starfsmenn fái þá tækifæri til að velja milli þess sem þau vilja og hentar þeim og þá þarf fólk ekki að greiða skatt af upphæðinni.

Höldum áfram að byggja upp öflugan leikskóla

Eins og sjá má á þessari upptalningu hefur Leikskólinn Sjónarhóll og það frábæra starf sem þar er unnið verið í algjörum forgangi hjá okkur sem stjórnum sveitarfélaginu. Næsta vor munum við taka í notkun glæsilega viðbyggingu við skólann þar sem tvær nýjar deildir bætast við. Mönnun skólans hefur einnig verið að ganga stöðugt betur og nú fá öll börn í Hornafirði vist á frábærum leikskóla við 12 mánaða aldur.

Að lokum

Það er erfitt að segja hver niðurstaðan um boðun vinnustöðvunar verður. En af fundum okkar og samtölum við okkar starfsfólk sem er í Afli starfsgreinafélagi, finnst fólki upplýsingagjöfin frá Afli hafa verið afar takmörkuð og einhliða svo ekki sé meira sagt. Þau höfðu til að mynda ekki fengið upplýsingar um útspil samningarnefndar sambandsins, fyrir hönd okkar hér í Hornafirði, um sólarlagsákvæði á sérákvæðin til allra þeirra sem voru með fastráðningu hjá sveitarfélaginu 31. mars.

Ég leyfi mér aftur að efast um að þeir fjölmörgu félagsmenn Alfs starfsgreinafélags í Fjarðabyggð, Múlaþingi, Fljótsdalshreppi, Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð, ásamt Hornafirði, séu mjög ánægð með að hafa ekki fengið sína verðskulduðu launahækkun þar sem Afl er að knýja fram endurupptöku tveggja sérákvæða til örfárra félagsmanna í Hornafirði – ákvæða sem ekki standa öðrum félagsmönnum Afls til boða.

Málið er nú hjá ríkissáttasemjara. Ég vil hvetja sáttasemjara til að boða nú þegar til fundar með Afli starfsgreinafélagi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og leysa málið. Það verður að tryggja að allt félagsfólk Afls á svæðinu sem hér um ræðir fái sína launahækkun afturvirkt frá 1. apríl 2024 og njóti sömu kjara og starfsfólk í sömu störfum annarsstaðar á landinu á jafnréttisgrundvelli.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri