Klifurfélag Öræfa
Á síðasta ári var nýtt félag stofnað í Öræfum, félagið ber nafnið Klifurfélag Öræfa.
Það er auðveldlega hægt að segja að Öræfin búi yfir mestu möguleikum á hverskonar klifri og fjallamennsku á landinu öllu og hefur svæðið verið helsti klifur- og fjallamennskustaður landsmanna. Um árabil hefur verið mikil þörf fyrir aukna afþreyingu í Öræfum og er stofnun klifurfélagsins liður íbúa í að koma til móts við hana.
Klifurfélag Öræfa vinnur náið með Björgunarsveitinni Kára og hefur afnot af aðstöðu í Káraskjóli sem er hús björgunarsveitarinnar. Í lok síðasta árs var hafist handa við smíðar á nýjum klifurvegg í Káraskjóli en klifurfélagið fékk afnot af um 30 m2 svæði í húsinu til að koma upp aðstöðu til klifuræfinga. Smíðarnar gengu vel og í febrúar á þessu ári var aðstaðan tilbúin. Aðsókn í klifurvegginn fór fram úr björtustu vonum en að jafnaði var opið 4-6 sinnum í viku þar sem klifrarar frá öllum heimshornum reyndu sig við klifurleiðirnar. Í framhaldinu var unnið að því að betrumbæta aðstöðuna og er hún nú orðin samkeppnishæf þeim bestu á landinu.
Fjallamennskunámið í FAS nýtti sér aðstöðuna í Káraskjóli við kennslu á klettaklifri í vor og nemendur í Grunnskólanum í Hofgarði nutu þess einnig að klifra. Klifurfélag Öræfa tekur gjarnan á móti skólahópum eða öðrum hópum sem hafa áhuga á því að klifra. Eins er tilvalið að nýta frábæra aðstöðu í Káraskjóli til kennslu innandyra á línuvinnu sem hægt er að æfa vel innan dyra og síðan úti.
Á vordögum tóku félagar í Klifurfélagi Öræfa þátt í að setja upp klifurleiðir á nýjum klifurvegg í íþróttahúsinu á Kirkjubæjarklaustri. Ljóst er að áhugi fyrir klifuríþróttinni fer vaxandi en keppt verður í klifri á Ólymípuleikunum í Tokyo árið 2020.
Í sumar hefur verið gott veður í Öræfum og því hafa klifrarar getað notið þess að klifra úti á Hnappavöllum en í vetur verður aftur reglulegur opnunartími í Káraskjóli og stefnt er að því að koma upp æfingum fyrir börn og fullorðna.
Klifurfélag Öræfa þakkar styrktaraðilum sínum kærlega fyrir stuðninginn en þeir eru, Björgunarsveitin Kári, Local Guide, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skinney Þinganes, Vosbúð og Klifurhúsið.
Texti og myndir: Íris Ragnarsdóttir Pedersen